143. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2013.

atvinnustefna og samráð.

[13:57]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Hér kemur auðvitað í ljós mismunandi afstaða stjórnmálaflokka til atvinnuuppbyggingar. Sá ágæti þingmaður, hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir, lýsir því hvernig hún sér fyrir sér að störfum fjölgi með því að ríkið búi til störf og framleiði en sá sem hér stendur styður það að fyrirtækin í landinu byggi sig upp og eigi möguleika á fjárfestingu. (Gripið fram í.) Nýliðun sem verður til í greinum tengdum sjávarútvegi, þar eru gríðarlega mörg og ævintýraleg tækifæri svo fremi að fyrirtækin hafi fjárfestingargetu, síðan eru hin afleiddu störf sem þar verða.

Hér voru svo margar spurningar að ég get því miður ekki svarað þeim öllum, en varðandi úthafsrækjufrumvarpið sem hér er lagt til að verði lagt fram þá er það einmitt gert til þess að taka tillit til ólíkra atvinnuhagsmuna til að öll fyrirtækin í landinu sem stunda atvinnurekstur geti (Forseti hringir.) byggt sig upp. Ég vona að svo verði.