143. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2013.

tekjuaðgerðir fjárlagafrumvarps 2014.

2. mál
[14:04]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um tekjuaðgerðir frumvarps til fjárlaga fyrir árið 2014. Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ýmsum lögum, svo sem lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, lögum nr. 113/1990, um tryggingagjald, lögum nr. 88/2003, um Ábyrgðasjóð launa, lögum nr. 155/2010, um sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki, og lögum nr. 165/2011, um fjársýsluskatt.

Undirbúningur fjárlagavinnunnar fyrir árið 2014 samhliða endurskoðun á áætlun fjárlaga fyrir árið 2013 hófst fljótlega eftir að ný ríkisstjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks tók við stjórnartaumunum í lok maí á þessu ári. Óaðskiljanlegur hluti af þeim undirbúningi voru áform um mögulegar skattbreytingar á þessu ári og komandi árum í takti við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um skattumhverfið. Þar segir meðal annars, með leyfi forseta:

„Skattar einstaklinga og fyrirtækja standa undir nauðsynlegri þjónustu við samfélagið allt. Með stöðugu og skynsamlegu skattkerfi er unnt að hvetja einstaklinga til að nýta starfskrafta sína og fyrirtækin til að færa út kvíarnar, fjölga störfum og fjárfesta.

Gerð verður úttekt á skattkerfinu og skattkerfisbreytingum undanfarinna ára og lagðar fram tillögur til úrbóta með það að markmiði að einfalda skattkerfið, breikka skattstofna, minnka tekjutengingar og draga úr undanskotum. […]

Á kjörtímabilinu verður tryggingagjald lækkað“ o.s.frv.

Snemma í fjárlagaferlinu kom í ljós að horfur í fjármálum ríkisins voru umtalsvert lakari en fram kom í fjárlögum ársins 2013, bæði vegna lægri tekna og aukinna útgjalda. Sem dæmi stefnir í að hefðbundinn tekjustofn eins og virðisaukaskattur verði 5,5 milljörðum lægri en áætlað hafði verið og skatttekjur í heild 8,7 milljörðum kr. undir fjárlagaáætlun 2013. Þessi þróun takmarkar það svigrúm sem til staðar er til að lækka skatta þegar á næsta ári. Ákveðin skref eru þó tekin í þá átt í þessu frumvarpi í takt við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Þau skref er rétt að líta á sem fyrsta áfanga í heildarendurskoðun íslenska skattkerfisins til hagsbóta fyrir einstaklinga og fyrirtæki.

Í megindráttum má skipta tillögum frumvarpsins í eftirfarandi þætti:

1. Tekjuskatt einstaklinga:

Miðþrep í tekjuskatti einstaklinga lækkar úr 25,8% í 25% sem lækkar tekjur ríkissjóðs um allt að 5 milljarða kr.

Árlegt frítekjumark vaxtatekna við álagningu fjármagnstekjuskatts hækkar úr 100 þús. kr. í 125 þús. kr. sem talið er lækka tekjur ríkissjóðs um 200 millj. kr. á árinu 2015.

2. Virðisaukaskatt:

Virðisaukaskattur af einnota barnableium lækkar úr 25,5% í 7%. Sú aðgerð ætti að leiða til 14–15% lækkunar á útsöluverði þessarar vöru en tekjutap ríkissjóðs er áætlað 200 millj. kr. á ári.

3. Tryggingagjald og gjald í Ábyrgðasjóð launa:

Atvinnutryggingagjald, almennt tryggingagjald og gjald í Ábyrgðasjóð launa sem hlutfall af launakostnaði lækki samanlagt um 0,1 prósentustig árið 2014 sem skerðir tekjur ríkissjóðs um 1 milljarð kr. á næsta ári.

Á árinu 2015 lækki atvinnutryggingagjaldið um 0,1 prósentustig til viðbótar og árið 2016 lækki almenna tryggingagjaldið um 0,14 prósentustig. Heildarlækkunin verði því 0,34 prósentustig sem lækkar tekjur ríkissjóðs um tæplega 4 milljarða þegar áhrifin eru að fullu komin til framkvæmda.

4. Sértæka skatta á fjármálafyrirtæki:

Fjársýsluskattur lækki úr 6,75% í 4,5% sem lækkar tekjur ríkissjóðs um 1,1 milljarð árlega.

Sérstakur skattur á fjármálafyrirtæki hækki hins vegar úr 0,041% í 0,145%, auk þess sem fjármálafyrirtæki í slitameðferð verði skattskyld. Tekjur ríkissjóðs eru taldar hækka um 14,3 milljarða verði þessi tillaga lögfest að óbreyttu. Þar af nemur skattur á lögaðila í slitameðferð 11,3 milljörðum kr.

Samanlögð áhrif þessara tillagna á tekjuáætlun ríkissjóðs eru talin verða kringum 7 milljarðar kr. til hækkunar árið 2014. Að frátöldum sérstökum skatti á fjármálafyrirtæki í slitameðferð nema áhrifin hins vegar 4,3 milljörðum kr. til lækkunar og raunar rúmlega 7 milljörðum kr. til lækkunar þegar áhrif af lækkun tryggingagjaldsins verða að fullu komin til framkvæmda á árinu 2016. Þá er ekki horft til óbeinna áhrifa vegna aukinna ráðstöfunartekna hjá velflestum heimilum og lægri rekstrarkostnaðar fyrirtækja sem ættu að skila sér í auknum veltusköttum og þar með hærri tekjum hjá ríkissjóði. Þessi almenna athugasemd á við um allar skattbreytingarnar sem ég hef hér talið. Hér hef ég rakið hin beinu áhrif.

Virðulegi forseti. Áður en lengra er haldið ætla ég að fjalla aðeins nánar um áhrif þeirra tillagna sem ég hef þegar farið yfir á ráðstöfunartekjur, verðlag og kaupmátt.

Byrjum á heimilunum. Sem fyrr segir mun lækkun miðþreps í tekjuskatti einstaklinga um 0,8 prósentustig lækka tekjur ríkissjóðs um allt að 5 milljarða kr. árlega. Sú ráðstöfun mun hafa bein áhrif á ráðstöfunartekjur heimila strax á næsta ári og hið sama gildir um 200 millj. kr. lækkun fjármagnstekjuskatts á árinu 2015. Tilfærsla á einnota barnableium í neðra þrep virðisaukaskatts ætti að koma fram sem 14–15% lækkun á útsöluverði þessarar vöru ef áhrifum lækkunarinnar er að öllu leyti velt út í verðlag. Áhrif þess á vísitölu neysluverðs eru fremur lítil, 0,01%, en geta að sama skapi verið veruleg þegar í hlut eiga fjölskyldur með ung börn. Hjá þeim gætu ráðstöfunartekjur aukist um nokkur þúsund krónur á mánuði. Samanlagt gætu breytingar á tekjuskatti einstaklinga, fjármagnstekjuskatti og virðisaukaskatti af bleium aukið kaupmátt ráðstöfunartekna um 0,5–0,6% þegar áhrif þeirra eru að fullu komin fram.

Skattar á fyrirtæki munu samanlagt hækka um tæplega 1 milljarð kr. samkvæmt tillögum frumvarpsins sé einungis horft til ársins 2014 og er þá álagning bankaskatts á fjármálafyrirtæki í slitameðferð undanskilin. Í raun hækka skattar þó einungis á fjármálafyrirtæki en lækka á öll önnur. Að auki verður tilfærsla á skattbyrði frá smærri fjármálafyrirtækjum til hinna stærri. Sé horft fram til ársins 2016 munu fyrirtækjaskattar lækka um 1,6 milljarða þegar breytingar á tryggingagjaldi verða að fullu komnar til framkvæmda. Þær breytingar sem hér er lýst ættu að hafa jákvæð áhrif á gang efnahagslífsins, ekki síst hjá vinnuaflsfrekum atvinnugreinum, og með því ætti að skapast svigrúm til kjarabóta og aukinna ráðstöfunartekna til lengri tíma litið.

Virðulegi forseti. Þá að öðrum tillögum frumvarpsins. Til viðbótar þeim tillögum sem þegar hafa verið nefndar inniheldur frumvarpið eftirfarandi tillögur um framlengingu á gildandi ákvæðum í lögum um tekjuskatt og virðisaukaskatt:

Frítekjumark hjá börnum undir 16 ára aldri hækki frá því að vera rúmlega 100 þús. kr. á ári í 180 þús. kr. Umrædd viðmiðunarmörk hafa haldist óbreytt frá árinu 2004.

Ákvörðun vaxtabóta árið 2014 verði byggð á sömu viðmiðunum og reiknireglum og giltu á þessu ári.

Barnabótum verði ekki skuldajafnað á móti ógreiddum opinberum gjöldum og meðlögum á næsta ári.

100% endurgreiðsla á virðisaukaskatti vegna vinnu við íbúðarhúsnæði, frístundahúsnæði o.fl. haldist óbreytt á næsta ári en hefði ella tekið breytingum og hlutfallið farið niður í 60% að nýju um áramót.

Stuðningur við endurnýjun hópferðabifreiða og almenningsvagna og fjárfestingu í umhverfisvænum bifreiðum í formi afsláttar af virðisaukaskatti verði viðhaldið á næsta ári.

Þessar viðbótartillögur sem ég hef hér rakið eiga það sammerkt að viðhalda kaupmætti og þar með eftirspurninni í hagkerfinu til hagsbóta fyrir heimili og fyrirtæki í stað þess að láta þessar breytingar renna sitt skeið með tilheyrandi neikvæðum áhrifum á efnahagslífið. Þau áhrif koma til viðbótar þeim áhrifum sem áður voru nefnd í tengslum við megintillögur frumvarpsins.

Virðulegi forseti. Aðeins nánar um einstaka liði frumvarpsins, fyrst um tekjuskatt einstaklinga. Samkvæmt gildandi lögum er tekjuskattur einstaklinga lagður á í þremur þrepum, auk útsvars. Þrepin skiptast þannig að af fyrstu 2,9 millj. kr. árstekna einstaklings sem jafngildir 241.475 kr. á mánuði er reiknaður 22,9% skattur. Af næstu 6 millj. kr. á ársgrundvelli, rúmlega 498 þús. kr. á mánuði, er reiknaður 25,8% skattur og síðan í þriðja þrepi 31,8% skattur af árstekjum umfram 8,9 millj. kr. á ári sem er rétt rúmlega 739 þús. kr. á mánuði. Við þessi hlutföll bætist útsvar sem er mishátt eftir sveitarfélögum. Meðalútsvar á árinu 2013, innheimt í staðgreiðslu, er 14,42%. Persónuafsláttur á hvern einstakling er 581.820 kr. á ári, þ.e. 48.485 kr. á mánuði. Skattleysismörk tekjuskatts og útsvars eru samkvæmt því 135.330 kr. á mánuði að teknu tilliti til greiðslu 4% lögbundins iðgjalds í lífeyrissjóð. Sé einungis horft á tekjuskatt til ríkisins að frádregnum persónuafslætti eru skattleysismörkin 220.547 kr. á mánuði. Það er sem sagt ekki fyrr en tekjur fara yfir 220.547 kr. sem ríkið fær til sín tekjuskatt þar sem ríkið stendur skil á greiðslum útsvarsins til sveitarfélaganna.

Það þýðir með öðrum orðum að einstaklingur sem er með liðlega 220 þús. kr. í skattskyldar tekjur á mánuði eftir að 4% lífeyrissjóðsiðgjald hefur verið dregið frá greiðir einungis útsvar. Þetta má sjá á bls. 5 í frumvarpinu.

Þessir tekjustofnar ríkis og sveitarfélaga eru lagðir á og innheimtir sem ein órofa heild að teknu tilliti til persónuafsláttar og gerir skattborgarinn sjaldnast greinarmun á því hvort skattgreiðslan rennur í ríkissjóð eða til sveitarfélags. Fjölgun þrepa í skattkerfinu hefur flækt kerfið til muna og gert samspil þessara tekjustofna jafnvel óskýrara en áður. Þá eru greiðendur sem einungis greiða tekjuskatt í neðsta þrepi hlutfallslega mjög fáir vegna nýtingar persónuafsláttar samanborið við annað þrepið. Lausleg athugun sýnir að í kringum 15% framteljenda greiða eingöngu tekjuskatt til ríkisins í neðsta þrepi.

Að mati ríkisstjórnarinnar kallar þessi staða á heildarendurskoðun á tekjuskattskerfinu, þar með talið á samspili tekjuskatts og útsvars, bæði álagningu og innheimtu. Stefnt er að því að breytingar sem af þeirri endurskoðun munu leiða komi fram í áföngum. Í fyrsta áfanga, sem kemur til framkvæmda strax um næstu áramót, verður miðþrepið í tekjuskattslagningu einstaklinga lækkað úr 25,8% í 25% eins og áður var lýst. Miðað við forsendur fjárlagafrumvarpsins gæti sú aðgerð aukið ráðstöfunartekjur heimilanna um allt að 5 milljarða kr. á næsta ári og enn meira á árunum 2015–2017, en hún skerðir jafnframt tekjur ríkissjóðs um sömu fjárhæð ef eingöngu er horft til hinna beinu áhrifa. Megnið af tekjuskatti einstaklinga er innheimt í miðþrepinu og mun aðgerðin því hafa jákvæð áhrif á flest heimili. Ekki er áformað að breyta persónuafslætti eða þrepamörkum tekjuskatts á árinu 2014 umfram hækkun vísitölu neysluverðs eða launavísitölu í samræmi við gildandi ákvæði tekjuskattslaganna.

Eins og fram kemur í töflu á bls. 6 í frumvarpinu mun lækkun skatthlutfallsins í miðþrepinu lækka tekjuskatt einstaklings með 400 þús. kr. mánaðartekjur um 1.140 kr. á mánuði, þ.e. tæplega 14 þús. kr. á ári. Ráðstöfunartekjur viðkomandi einstaklings hækka um sömu fjárhæð, liðlega 0,3%. Sambærileg breyting kemur fram hjá hjónum eins og sjá má á töflunni, en samanlagður tekjuskattur þeirra lækkar um rúmlega 27 þús. kr. á ári.

Frítekjumark vaxtatekna sem hækkar í frumvarpinu úr 100 þús. kr. í 125 þús. kr. var tekið upp árið 2010 og hefur staðið óbreytt í 100 þús. kr. á ári síðan þá. Hækkun frítekjumarksins þýðir að einstaklingar þurfa ekki að greiða fjármagnstekjuskatt af vaxtatekjum að fjárhæð 125 þúsund sem þeir ávinna sér á næsta ári.

Um er að ræða eðlilega verðuppfærslu á þessum viðmiðunarmörkum frá árinu 2010, auk þess sem raunávöxtun í formi vaxta hefur lækkað verulega undanfarin ár. Það má líta þannig á þessa aðgerð að hún feli í sér að heimilin haldi eftir 200 millj. kr. á ári sem ella hefðu runnið í ríkissjóð í formi fjármagnstekjuskatts. Sem fyrr segir hefur þessi breyting, ef hún verður að lögum, ekki áhrif á afkomu ríkissjóðs fyrr en árið 2015 vegna þess að þá fer fram álagning vegna 2014.

Frítekjumark barna hækkar, eins og áður segir, í 180 þús. kr. úr 100.745 kr. Umrædd viðmiðunarmörk hafa haldist óbreytt frá 2004. Þessi aðgerð er hugsuð sem verðlagsuppfærsla til samræmis við hækkun skattleysismarka á tímabilinu 2004–2013 og mun hækkunin ef af verður koma til framkvæmda við álagningu opinberra gjalda á árinu 2015 vegna tekna ársins 2014, en að sjálfsögðu einnig við staðgreiðslu á árinu 2014. Skatthlutfallið sjálft helst óbreytt, 4%. Börn njóta ekki persónuafsláttar.

Samkvæmt frumvarpinu haldast vaxtabætur óbreyttar. Í lok árs 2010 voru gerðar margvíslegar breytingar á útreikningsreglum vaxtabóta í því skyni að draga úr fyrirsjáanlegum vexti þeirra, jafnframt því að bótunum var í meira mæli beint til þeirra fjölskyldna sem voru með lægri tekjur og eignir. Þessar reglur áttu að gilda í tvö ár, þ.e. við álagningu opinberra gjalda 2011 og 2012, en ákvæðið var síðan framlengt til ársins 2013. Að óbreyttum lögum munu því vaxtabótareglurnar færast í sitt fyrra horf um næstu áramót og við það mun stuðningur ríkissjóðs í formi vaxtabóta dreifast á fleiri fjölskyldur, þ.e. fjölskyldur sem ekki njóta bóta í dag, en á sama tíma lækka bætur til þeirra fjölskyldna sem notið hafa hámarksbóta, tekjulágra og eignalítilla fjölskyldna. Við það verða tekjujöfnunaráhrif kerfisins minni, en þá þarf að hafa í huga að vaxtabótakerfið hefur legið undir því ámæli, m.a. frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og OECD, að það hvetji til skuldasöfnunar. Séð frá þeim sjónarhóli er almennur stuðningur með lægri fjárhæðum betri. Inn í þessa ákvörðun blandast einnig umræða um samspil vaxtabótakerfisins við húsaleigubótakerfið en fyrri ríkisstjórn hafði þau áform uppi að sameina þessi tvö kerfi í eitt húsnæðisbótakerfi. Þeirri vinnu við endurskoðun kerfisins verður haldið áfram.

Eflaust muna margir þingmenn eftir því úr fréttum fyrir fáum vikum að talað var um að þeir sem fá greiddar vaxtabætur fyrir fram hefðu fengið mun lægri fjárhæð. Þar var gert ráð fyrir því að lögin yrðu óbreytt og að þessi aukni stuðningur við tekjulágar og eignalitlar fjölskyldur rynni út á næsta ári. Við þessu hefur ríkisstjórnin ákveðið að bregðast og framlengja kerfið enn um sinn í óbreyttu horfi.

Auk þess sem ég hef hér rakið kunna aðgerðir stjórnvalda til stuðnings heimilum að hafa veruleg áhrif á stöðu íbúðareigenda og þannig á vaxtabótakerfið þegar horft er til framtíðar. Þess vegna er framlenging tímabundin í þessu samhengi eðlileg. Það er eðlilegt að á næsta ári verði þessir þættir allir skoðaðir í samhengi áður en frekari ákvarðanir eru teknar um framtíð vaxtabótakerfisins. Í frumvarpinu er lagt til að reiknireglur og viðmiðunarfjárhæðir haldist óbreyttar milli áranna 2013 og 2014. Lausleg áætlun sýnir að útgjöld vegna vaxtabóta gætu lækkað um 1 milljarð væri bráðabirgðaákvæðið ekki framlengt með óbreyttum reglum.

Í frumvarpinu haldast barnabætur óbreyttar. Í bráðabirgðaákvæði XXXVIII í tekjuskattslögum segir að skuldajöfnun barnabóta í móti opinberum gjöldum til ríkissjóðs og sveitarfélaga ásamt vangreiddum meðlögum til Innheimtustofnunar sveitarfélaga sé óheimil á árunum 2011–2013. Rökin fyrir upptöku þessa ákvæðis voru meðal annars þau að með því væri komið til móts við barnmargar fjölskyldur í greiðsluvandræðum. Í frumvarpinu er lagt til að bráðabirgðaákvæðið verði framlengt út árið 2014, en það hefði að óbreyttu fallið úr gildi í lok þessa árs.

Virðulegi forseti. Aðeins nánar um nokkrar aðrar breytingar í frumvarpinu. Í lok árs 2012 var samþykkt sú breyting á virðisaukaskattslögum að margnota bleiur og bleiufóður sem falla undir tollskrárnúmer 9619.0091 færu úr efra þrepi virðisaukaskatts í það neðra frá og með 1. júlí 2013. Nú er áformað að færa einnig einnota bleiur og laust bleiufóður úr efra þrepi í það neðra en þær vörur falla undir tollskrárnúmer sem endar á 11. Aðgerðin er í þágu barnafólks. Áætlað er að tekjur ríkissjóðs lækki um 200 millj. kr. á ári vegna aðgerðarinnar.

Sérfræðingar fjármála- og efnahagsráðuneytisins hafa á undanförnum vikum verið að skoða hugmynd um lækkun virðisaukaskatts á barnaföt almennt. Lækkun virðisaukaskatts á bleium er fyrsta stigið í þessari vinnu. Einnig er vert að nefna þau áform stjórnvalda að ráðast í heildarendurskoðun á gildandi lögum um virðisaukaskatt með einföldun og samræmingu í huga eins og ég hef vikið að í tengslum við almenna umræðu um skattbreytingar.

Varðandi endurgreiðslur virðisaukaskatts af íbúðarhúsnæði hefði hlutfallið lækkað að nýju niður í 60% um næstu áramót en auk hinnar hefðbundnu endurgreiðslu af launum manna við vinnu íbúðarhúsnæðis á byggingarstað nær heimildin nú einnig til frístundahúsnæðis og enn fremur þjónustu vegna hönnunar og eftirlits með byggingu íbúðar- og frístundahúsnæðis. Sú breyting var gerð þegar hlutfallið var hækkað upp í 100%. Þetta er framlengt, þessi heimild nær líka til húsnæðis sem er alfarið í eigu sveitarfélaga. Samkvæmt tölum ríkisreiknings fyrir árið 2012 námu endurgreiðslur virðisaukaskatts vegna íbúðarhúsnæðis 4,7 milljörðum sem svarar til 3% af heildartekjum af virðisaukaskatti áður en tillit er tekið til endurgreiðslna.

Bráðabirgðaákvæði XV í virðisaukaskattslögunum verður framlengt um eitt ár til viðbótar og í sjálfu sér er vísað til sömu raka og hafa áður verið tiltekin fyrir þessu átaki sem hefur gengið undir heitinu Allir vinna.

Um hópferðabifreiðar og almenningsvagna hefur gilt frá árinu 2001 bráðabirgðaheimild til að endurgreiða 2/3 hluta þess virðisaukaskatts sem greiddur er vegna kaupa eða leigu hópferðabifreiða og almenningsvagna til þeirra sem leyfi hafa til fólksflutninga í atvinnuskyni. Markmið endurgreiðslunnar hefur verið að hraða sem kostur er endurnýjun þessa flokks ökutækja með öryggissjónarmið að leiðarljósi. Gera má ráð fyrir að heildarendurgreiðslur á árinu 2013 geti numið um 370 millj. kr.

Í þessu frumvarpi er að finna tillögu um að umrædd heimild verði framlengd til ársloka 2014. Það eru uppi áform um heildarúttekt á skattumhverfi ökutækja, bæði út frá kaupum og notkun, og verður skattaleg meðferð hópferðabifreiða og almenningsvagna hluti af þeirri úttekt.

Í bráðabirgðaákvæði gildandi laga um virðisaukaskatt njóta umhverfisvænar bifreiðar ákveðins krónutöluafsláttar upp að tilteknu hámarki sem að óbreyttu hefði fallið niður um áramót. Hér er hins vegar lagt til að þessar sérreglur um útreikning virðisaukaskatts við innflutning og skattskylda sölu nýrra rafmagns-, vetnis- eða tengiltvinnbifreiða verði framlengdar um eitt ár í því skyni að viðhalda og eftir atvikum örva eftirspurn almennings eftir umhverfisvænum ökutækjum. Ég tel einnig í þessu sambandi að það skipti máli að það eigi sér stað, ætli menn að breyta reglunum í þessu efni, samráð og að það eigi sér lengri aðdraganda en þann sem yrði á breytingunni ef haustþing samþykkti slíkt og að breyttar reglur taki gildi um áramót, m.a. með hliðsjón af því hversu langan tíma tekur frá því að bifreið er pöntuð þangað til hún er afgreidd í tolli.

Virðulegi forseti. Örstutt um breytingar á launatengdum gjöldum, þ.e. atvinnutryggingagjald, almennt tryggingagjald og gjald í Ábyrgðasjóð launa. Í frumvarpinu er að finna tillögur um ýmsar breytingar á launatengdum gjöldum sem lögð eru á laun og hvers konar hlunnindi tengd vinnuframlagi. Miðað við tillögur frumvarpsins ætti heildarkostnaður fyrirtækja af þeim gjöldum að lækka um 0,1 prósentustig að öðru óbreyttu á árinu 2014, 0,1 prósentustig til viðbótar á árinu 2015 og 0,14 prósentustig árið 2016 eins og ég hef rakið. Það er áætlað að ríkissjóður verði af um 1 milljarði í tekjur á árinu 2014, 2 milljörðum árið 2015 og 3,8 milljörðum þegar áhrifin verða að fullu komin fram á árinu 2016 og áfram. Þetta eru hin beinu áhrif en hér er ekki lagt mat á það hvað aukin möguleg umsvif og ráðningar geta haft í för með sér þegar horft er á tekjur ríkissjóðs.

Ábyrgðargjaldið flokkast ekki undir tryggingagjald en er engu síður lagt á sama stofn og tryggingagjöldin og hefur því sams konar áhrif á launakostnað hjá atvinnurekendum.

Atvinnutryggingagjald lækkar um 0,6 prósentustig 2014 og 0,1 prósentustig til viðbótar 2015. Almennt tryggingagjald hækkar árið 2014, en lækkar um 0,14 prósentustig 2016. Gjald í Ábyrgðasjóð launa lækkar eins og segir í frumvarpinu.

Að lokum, virðulegi forseti, ætla ég að fara nokkrum orðum um þær tillögur sem er að finna í frumvarpinu á sértækri skattlagningu fjármálafyrirtækja. Þær tillögur eru tvíþættar, hærri bankaskattur og breiðari skattstofn. Bankaskattur er lagður á fyrirtæki sem hafa fengið starfsleyfi sem viðskiptabanki, sparisjóður eða lánafyrirtæki og önnur félög sem hafa leyfi til að taka við innlánum. Stofn skattsins er heildarskuldir samkvæmt skattframtali. Meðal markmiða bankaskatts er að afla tekna til að standa straum af þeim kostnaði sem til hefur fallið við að skapa aðstæður fyrir fjármálalegan stöðugleika sem er mikilvægur liður í því að tryggja stöðugt umhverfi á íslenskum fjármálamarkaði til frambúðar.

Rétt þykir að þau fyrirtæki sem skapa hvað mesta kerfislæga áhættu í krafti stærðar sinnar greiði hluta þess kostnaðar. Áformað er að hækka skattinn úr 0,041% í 0,145% í ársbyrjun 2014. Eins og fram hefur komið er áformað að breyta lögunum þannig að þau taki einnig til lögaðila í slitameðferð en þau eru samkvæmt gildandi lögum undanþegin skattinum. Þannig verður skatturinn meðal annars lagður á kröfur föllnu bankanna þriggja, Glitnis, Kaupþings og Landsbankans gamla, eins og þær standa í reikningum búanna í lok hvers árs. (Forseti hringir.)

Áætlað er að kröfur í þrotabú bankanna séu um 7.800 milljarðar kr. Lækkun almenna fjársýsluskattsins (Forseti hringir.) kemur síðan aðeins til móts við þetta og færir skattbyrðina frá hinum smærri til hinna stærri fjármálafyrirtækja.

Ég held að ég hafi rakið allt það helsta sem máli skiptir í frumvarpinu (Forseti hringir.) og legg til að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að aflokinni þessari umræðu.