143. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2013.

tekjuaðgerðir fjárlagafrumvarps 2014.

2. mál
[14:37]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þrátt fyrir umrædda tekjuskattslækkun er fjárlagafrumvarpið lagt fram með jöfnuði, þ.e. það er lítils háttar afgangur af fjárlagafrumvarpinu. Það er í sjálfu sér óskaplega erfitt að byrja eða enda umræðuna um það hvort ekki væri gott að taka skatt af einhverjum umsvifum, lögaðilum eða einstaklingum til að vinna að einhverju góðu samfélagslegu verkefni. Í þessu tilviki er spurt: Væri ekki gott að í stað þess að heimilin héldu eftir þessum 5 milljörðum tækjum við þá af heimilunum og notuðum í uppbyggileg verkefni eins og fjárfestingu?

Ég deili þeirri skoðun með hv. þingmanni að fjárfesting ríkisins í stofnframkvæmdum og viðhaldi er í algjöru lágmarki eins og sakir standa og hefur verið hættulega lítil undanfarin ár. Fyrri ríkisstjórn kaus að framkvæma aðhaldsaðgerðir þannig að mjög mikið var skorið niður í slíkum framkvæmdum og minna almennt í rekstrinum eins og við sjáum til dæmis á því hvernig fjöldi starfa hefur þróast hjá hinu opinbera. En ég verð að segja fyrir mitt leyti að ég tel að það sé skynsamleg ráðstöfun, m.a. til þess að stíga fyrstu skrefin til stuðnings heimilunum, og valda því með þessu að kaupmáttur ráðstöfunartekna vaxi sem skiptir mjög miklu fyrir heimilin. Við mælum það að eftirspurn frá heimilunum er í miklu lágmarki um þessar mundir og þá tel ég það skynsamlega forgangsröðun að lækka þennan skatt á heimilin og sætta sig við það að þurfa enn um sinn að halda framkvæmdastiginu hjá ríkinu tiltölulega lágu en með því (Forseti hringir.) að við lokum fjárlagagatinu erum við smám saman að færast í betri stöðu til að taka á því máli.