143. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2013.

tekjuaðgerðir fjárlagafrumvarps 2014.

2. mál
[14:42]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég kýs að taka það sem viðurkenningu hæstv. fjármálaráðherra á því hve hann tekur við góðu búi úr höndum síðustu ríkisstjórnar að hann treystir sér til þess í sínu fyrsta fjárlagafrumvarpi að lækka tekjuskatt um 5 milljarða. Guð láti gott á vita.

Það atriði sem hann dvaldi lengst við í máli sínu áðan var útskýring á því hvers vegna þeir 5 milljarðar færu í að lækka hlutfallið á miðþrepi tekjuskattskerfisins. Út úr því öllu saman kom eftirfarandi staðreynd: Af þeim sem greiða tekjuskatt í lægsta þrepinu, þ.e. fólk sem er undir 242 þús. kr. í mánaðarlaun, eru 15% sem borga tekjuskatt til ríkissjóðs og þá vaknar spurningin hjá mér: Af hverju að skilja þessi 15% verst stöddu tekjuskattsgreiðendanna út undan? Hvernig stendur á því ef menn ætla á annað borð að nota 5 milljarða til að lækka tekjuskatt að ekkert af því skuli fara í lægsta þrepið?

Herra forseti. Í fljótu bragði virðist mér sem það væri miklu sanngjarnara að það færi allt í lægsta þrepið vegna þess að þá mundu allir njóta, líka hinir sem njóta málsins núna, kannski ekki í jafn miklum mæli. Það er sanngirni. Eitt af því sem ég er stoltur yfir varðandi síðustu ríkisstjórn er að hún var þeim skjól sem verst voru staddir.

Ég vil nota ferðina og spyrja hæstv. ráðherra af því að ég er áhugamaður um að menn standi við yfirlýsingar sínar. Ég hjó eftir því að þegar hæstv. ráðherra talaði um lækkun virðisaukaskatts gleymdi hann barnafötum að öðru leyti en því að hann sagði að það væri til skoðunar. Hann nefndi það 6. júní í ræðu sinni sem eitt af því sem hann var þá að hugsa um að leggja fram á sumarþinginu. Það var ekki lagt fram á sumarþinginu, (Forseti hringir.) það er ekki lagt fram núna og það er heldur ekki partur af málum ríkisstjórnarinnar eins og hann lagði það fram sjálfur. Er þetta eitt af þeim kosningaloforðum sem á bara að sópa undir teppið?