143. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2013.

tekjuaðgerðir fjárlagafrumvarps 2014.

2. mál
[14:47]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Um það bil það eina sem ég er hjartanlega sammála í þessu frumvarpi er að fara í að endurskoða virðisaukaskattskerfið. Ég er sammála hæstv. ráðherra um það og hef mínar hugmyndir um það sem munu örugglega koma fram.

Herra forseti. Orð skulu standa. Þegar hæstv. fjármálaráðherra var spurður út í það nýlega í Kastljósi af Helga Seljan hvernig stæði á því að hann stæði ekki við sín orð um barnafötin var svarið ekki að það væri svo flókið og þá er rétt að hann hafni því núna sem hann sagði þá. Þá sagði hann að Framsóknarflokkurinn hefði stoppað það og þá er rétt að hv. þingmenn Framsóknarflokksins tjái sig um það í dag. Þannig talaði hæstv. ráðherra þá og þá er rétt að hann biðji Framsóknarflokkinn afsökunar á því og Framsóknarflokkurinn getur alla vega glaðst yfir því að það er einn maður hér í þessum sölum sem kemur honum til varnar.

Varðandi tekjuskattsbreytinguna verð ég að segja að þetta eru verstu rök sem ég hef nokkru sinni heyrt hrjóta af munni þessa ágæta drengs sem er (Forseti hringir.) hæstv. fjármálaráðherra. Að halda því fram að það séu einhver rök fyrir því að skilja eftir þann hóp sem er langverst settur. (Forseti hringir.) Af hverju fær hann ekki einhvern part af þeim 5 milljörðum? Þannig var gamli Sjálfstæðisflokkurinn.