143. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2013.

tekjuaðgerðir fjárlagafrumvarps 2014.

2. mál
[15:11]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir innlegg hans í umræðuna sem var mjög málefnalegt og ágætt þó að okkur greini á um ýmis áhersluatriði.

Fyrst varðandi stjórnarmeirihlutann þá stendur hann að sjálfsögðu heill að baki þessu máli. Ég hef lagt á það gríðarlega mikla áherslu að fjárlagafrumvarpið verði ekki bara lagt fram heldur afgreitt frá þinginu með afgangi. Ég tel það skipta mjög miklu máli.

Ég hef beðið menn um að hugleiða hvað það hefur kostað okkur að hafa halla á rekstri ríkissjóðs undanfarin ár. Það kostar okkur á næsta ári um 30 milljarða í vexti að hafa rekið ríkið með upp undir 400 milljarða halla út þetta ár þegar saman er tekið — 30 miljarðar í vaxtagjöld. Það sjá allir í hendi sér þegar við erum í sömu andrá að ræða um hvort réttlætanlegt sé að hækka skráningargjöld í skóla eða innheimta legugjald upp á 1.200 kr. fyrir hvern dag inni á sjúkrahúsi að það er eins og pínulítið sandkorn í stórri sandöldu þegar umræðuefnið er sett í þetta samhengi. Þess vegna finnst mér grundvallaratriði að okkur takist að afgreiða fjárlagafrumvarpið með afgangi. Það sem helst getur ógnað því markmiði er að forsendurnar breytist eitthvað.

Ég hef á vissan hátt sömu áhyggjur og hv. þingmaður vegna næsta árs. Við höfum í sjálfu sér ekki við neitt annað að styðjast en þær forsendur sem Hagstofan lætur okkur í té. Mér er ekki kunnugt um hvað kemur frá þeim í nóvember. En ég bendi á að á þessu ári eru t.d. tekjur af virðisaukaskatti 5 milljörðum lægri vegna þess að hagvaxtarhorfurnar eru lakari á árinu en menn töldu þegar fjárlög voru afgreidd fyrir árið. Þar sjáum við hversu miklu það getur breytt (Forseti hringir.) ef hagvöxtur stefnir í að vera minni á næsta ári en áður hefur verið spáð.