143. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2013.

tekjuaðgerðir fjárlagafrumvarps 2014.

2. mál
[15:20]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég ætla að byrja á því sem ég er ánægður með í frumvarpinu. Það er ýmislegt svo sem eins og það sem fram kom í máli hæstv. ráðherra að áfram verður óheimilt að skuldajafna barnabótum og vangoldnum meðlögum, en það var ráðstöfun sem við tókum upp til þess að í mestu þrengingunum væri ekki verið að elta fólk út af slíku. Sömuleiðis að framlengja átakið Allir vinna sem ég held að það finnist nú ekki nokkur maður orðið í landinu sem ekki er ánægður með þá ráðstöfun, hún hefur skilað miklu og á að halda áfram, a.m.k. enn um sinn. Ef menn draga úr henni á komandi árum væri hyggilegt að gera það í mjög vægum skrefum þannig að ekki kæmi bakslag í það.

Í aðalatriðum heldur hæstv. ríkisstjórn við grundvallarfyrirkomulag skattkerfisins óbreytt. Það er áfram þrepaskiptur tekjuskattur. Viðhaldið er öllum þeim umhverfisgjöldum og sköttum sem komið var á í tíð fyrri ríkisstjórnar, sem og þeim hvötum sem eru til að innleiða vistvæna orkugjafa. Þannig mætti áfram telja.

Fjármagnstekjuskatturinn er áfram í óbreyttu fyrirkomulagi frá árinu 2009, þ.e. fjármagnstekjuskattur með frítekjumarki sem reyndar er nokkuð hækkað. Að sjálfsögðu hefði þurft á einhverju stigi að hækka það, færa það upp í átt að verðlagi, það er búið að standa óbreytt lengi. Sama má segja um frádrátt vegna barna, þ.e. frítekjumark barna sem er búið að standa óbreytt mjög lengi. Þannig í grunninn er um að ræða óbreytta skattframkvæmd. Það er ég að sjálfsögðu ákaflega sáttur við, enda málið nokkuð skylt. Hefði einhver kannski búist við öðru miðað við sumt sem maður fékk að heyra hér á árunum þegar verið var að umbylta meira og minna öllu skattkerfinu á Íslandi, enda ekki annars völ.

Varðandi tekjuskattinn er ég á svipuðum nótum og fyrri ræðumenn bæði í ræðum og andsvörum. Úr því að ríkisstjórnin metur það svo að hún geti afsalað ríkinu 5 milljörðum kr., skilið eftir 5 milljarða hjá heimilunum eins og menn segja þegar þeir vilja setja það fram með jákvæðum formerkjum — hin hliðin er náttúrlega að við höfum 5 milljörðum minna í lífsnauðsynleg verkefni og útgjöld ríkisins — er ég svolítið hryggur yfir því að það skuli ekki vera látið ná til alls neðri hluta tekjustigans. Úr því að hæstv. ríkisstjórn velur að fara í hlutfall og lækka hlutfallið í miðþrepinu, af hverju hún láti ekki þá lækkun ganga niður yfir tekjulága þrepið líka. Það hefur ekki veruleg útgjaldaáhrif. Trúlega hefði mátt lækka tekjuskattsprósentuna um 0,7 eða 0,65 á lágtekju- og miðþrepinu og það hefði komið út á sléttu hjá ríkinu.

Það er önnur og miklu nærtækari aðgerð til þess að gera þetta. Hún er einfaldlega sú að færa upp tekjumörkin milli lægsta þrepsins og miðþrepsins. Nú er það auðvitað þannig að á pappírunum kemur tekjuskatturinn inn í miklum stöllum, núll, 22 komma eitthvað og 25 komma eitthvað. Þá er reyndin kúrfa sem leggur af stað í skattleysismörkum frá núlli sem hlutfall af tekjum og hækkar svo rólega upp. Þetta er allt spurning um það hvernig sú kúrfa er best úr garði gerð þannig að hún dreifi skattbyrðinni eðlilega.

Ég spyr: Eru ekki rök til þess að skoða, ef við segjum bara hlutlaust að það kosti ríkið 5 milljarða, að fara frekar með tekjumörkin milli fyrsta þreps og annars þreps, úr 240 þús. upp í 300, 350 þús. kall, eða hvað það nú væri sem þarf til til þess að útkoman verði á sléttu? Ég held að það muni sennilega færa okkur betri dreifingu og kúrfan verði áferðarfallegri þannig. En auðvitað má skoða þetta allt saman.

Ég tel sem sagt eindregið að það eigi að láta tekjulægsta hópinn njóta þessa. Að vísu eru færð þau rök hér fram að ríkisstjórnin hyggist fækka skattþrepum, þess vegna sé hún að byrja að draga saman bilið milli fyrsta og annars þreps. Þá spyr ég um eitt túlkunaratriði sem mér er ekki ljóst af lestri: Er framtíðarsýn ríkisstjórnarinnar tvö skattþrep eða eitt? Er verið að segja okkur þarna í textanum að þetta sé gert til að færa lágþrepið og miðþrepið saman í prósentum þannig að það verði styttra í að sameina þau eða eru menn að tala um að fara með allan tekjuskattinn yfir í flatt eitt þrep?

Varðandi tryggingagjaldið sem er fyrirferðarmikið í frumvarpinu eru þar stórir hlutir á ferð sem ég gerði lítillega að umræðuefni við 1. umr. um fjárlagafrumvarpið og ég ætla að staldra aðeins betur við. Ég er eiginlega alveg hissa á því hvað lítil umræða hefur orðið um að þarna er á ferðinni gríðarleg tilfærsla frá hinum mörkuðu útgjaldaþáttum innan tryggingagjaldsins yfir í ríkissjóð. Ég skil manna best þörfina og átta mig á því hvað fjármálaráðherra er að reyna að gera þarna, að loka hjá sér gatinu.

Þannig er, virðulegur forseti, að tryggingagjaldið er samsett úr atvinnutryggingagjaldi og almennu tryggingagjaldi og inn í almenna tryggingagjaldinu hefur Fæðingarorlofssjóður verið eyrnamerktur með tiltekinn hlut. Svo kemur Ábyrgðasjóður launa þar í viðbót og leggst á sama skattstofn.

Atvinnutryggingagjaldið lækkar um 0,6%, um 6 þús. milljónir, um 6 milljarða, því það vill svo vel til að hvert prósentustig í tryggingagjaldi eru u.þ.b. 10 milljarðar.

Gjaldið í Ábyrgðasjóð launa lækkar um heil 0,20% — það er verulegt. Hann hefur braggast allhressilega frá því við þurftum að rétta hann við ef ég man rétt fyrir um ári síðan.

Það sem hefur kannski farið fram hjá einhverjum, enda er ekki verið að hampa því beinlínis í fylgiskjölum, hvorki í fjárlagafrumvarpinu né annars staðar, er að fæðingarorlofshluti almenna tryggingagjaldsins fer úr 1,28% niður í 0,65%. Það er lækkun þar um nánast helming, um 0,63 prósentustig færast frá því að vera sérmerktur hluti af tryggingagjaldi til Fæðingarorlofssjóðs yfir í ríkissjóð.

Þetta er þá, ef ég kann orðið eitthvað að leggja saman, heil 1,38 prósentustig af þessum gríðarlega skattstofni sem er tæpir 1 þús. milljarðar, launasumman í landinu. Með öðrum orðum, á mannamáli, er ríkið að færa inn í sínar hirslur tæpa 14 milljarða samtals úr tryggingagjaldinu.

Þarna er tilfærsla upp á 1,38%, en smáskammtalækkanir eru, mér liggur nú við að segja að sumum hljóti að finnast næstum því eins og ögrun að lækka ekki tryggingagjaldið í heild nema um 0,1% þegar ríkið er að færa yfir til sín frá Atvinnuleysistryggingasjóði, frá Ábyrgðasjóði launa og frá Fæðingarorlofssjóði samtals 1,38% á næsta ári, eða tæpa 14 milljarða. Það er hraustlega gert. Við kroppuðum aðeins í þetta í fyrra og þá var rekið upp ramakvein, því aðilar vinnumarkaðarins sögðu auðvitað með vissum rétti: Við kyngdum því að atvinnutryggingagjaldið stórhækkaði með vaxandi atvinnuleysi, en við treystum líka á að við fengjum það niður aftur þegar atvinnuleysið minnkaði. Það er nú heldur betur töf á þessu því ef Atvinnuleysistryggingasjóður hefur ráð á því núna að lækka tekjustofn sinn um 0,6%, þá er það ekki bara á næsta ári heldur með áframhaldandi minnkandi atvinnuleysi enn meira sem ríkið mun færa yfir í sínar hirslur á árinu 2104, 2015 og 2016, þó þar komi aftur örlítil lækkun inn.

Þetta vildi ég segja um tryggingagjaldið. Ég hef einhvern veginn þá tilfinningu að ekki sé víst að við séum búin að heyra það síðasta af því máli.

Ég spyr sérstaklega um stöðu Fæðingarorlofssjóðs. Það kemur mér mjög á óvart ef hann þolir það núna að „halvera“ tekjur sínar. Hvað er að breytast? Reiknar ríkisstjórnin með því að menn hætti að taka fæðingarorlof í stórum stíl? Eru barneignir að helmingast í landinu? Það er örstutt síðan við urðum að rétta Fæðingarorlofssjóð af. Vissulega hækkuðum við þakið í fyrra um 50 þús. kr. og ríkisstjórnin bætir 20 þús. kr. þar við núna, úr 300 í 350 þús. kr., svo aftur í 370 — það eru útgjöld. Það hlýtur þá eitthvað stórt að gerast einhvers staðar annars staðar á móti ef Fæðingarorlofssjóður á ekki að fara í bullandi mínus. Ég skora á ráðherra og síðan á fjárlaganefnd að fara rækilega ofan í saumana á þessu. Fjárlaganefnd verður að byrja á því að fá vandaðar greinargerðir um stöðu Atvinnuleysistryggingasjóðs, Ábyrgðasjóðs launa og Fæðingarorlofssjóðs áður en lengra verður haldið.

Það er dapurlegt að í frumvarpinu eru allar umbætur í fæðingarorlofinu eins og þær leggja sig slegnar af. Við komumst ekki hænufet í þá átt að lengja fæðingarorlofið í eitt ár. Í áformum fyrri ríkisstjórnar ætluðu menn að sætta sig við að gera á árabili með litlum skömmtum í einu. Hálfur mánuður átti að bætast við á næsta ári hjá hvoru foreldri um sig o.s.frv.

Þetta er samfélagslegt og vinnumarkaðslegt mál, vegna þess að gatið á milli fæðingarorlofs og leikskólans verður æ tilfinnanlegra. Það er gat sem þarf að brúa og mörg sveitarfélög eru í miklum vandræðum með, svo maður tali nú ekki um foreldrana, en líka vinnumarkaðurinn sem er stífari og óþjálli vegna þessa. Það á að vera sameiginlegt baráttumál ríkisins, sveitarfélaganna og aðila vinnumarkaðarins að hafa einhverja framtíðarsýn varðandi fæðingarorlofið og síðan það sem við tekur og yfir í leikskóla. Helst á að loka þessu gati þannig að þarna sé ekki hálfs árs eða árs vandræðatímabil í raun og veru eins og þetta er í mörgum sveitarfélögum þar sem menn þurfa að standa í alls konar reddingum til að finna gæslu fyrir börn sín þangað til leikskólinn tekur við. Það ástand er að vísu betra víða úti á landi því þar taka leikskólarnir jafnvel inn börn strax ársgömul, dæmi jafnvel um enn yngri en það.

Þá að bankaskattinum sem er ákaflega áhugavert mál, bæði tæknilega og lagalega, þ.e. þessi skattstofn sem menn hyggjast nú leggja á sem er kröfur eða skuldir búanna. Gott og vel. Það kann að vera, þrátt fyrir fréttir um annað, að þessi skattstofn liggi nú orðið það skýrt fyrir að ekki séu stórkostleg tæknileg vandamál við það. Það er grunnregla í allri skattlagningu að skattandlagið verður að vera þekkt. Það er auðvitað orðin miklu skýrari mynd á því núna vegna þess að búið er að safna inn kröfum, það er búið að taka afstöðu til þeirra, búið að skera úr um eða samþykkja kröfur eða hafna þeim og mörg dómsmál hafa gengið í gegn sem hafa smátt og smátt skýrt hvað eru lögmætar og réttar kröfur í búin. Enn munu þó einhver mál vera í gangi. Ég hafði einmitt velt því fyrir mér á svipuðum nótum og hæstv. fjármálaráðherra gerði hér í svari að til þrautavara mætti væntanlega hugsa sér að leggja skattinn á miðað við þegar samþykktar og óumdeildar kröfur eins og þær stæðu í bókhaldi búanna við næstliðin áramót. En þetta er eitt af því sem þarf að vera skýrt.

Í öðru lagi verður að hafa það í huga að hér er um afar kvikan og mögulega mjög tímabundinn skattstofn að ræða, en honum er ætlað stórt hlutverk í að loka fjárlagagatinu. Hvað gerist ef til dæmis stóru bankarnir tveir af þremur fá samþykkta nauðasamninga á næsta ári? Þá hverfur skattstofninn, þá hverfa kröfurnar. Í staðinn fyrir bú í skiptum verður til lögaðili með efnahagsreikning og fjárhag og engar kröfur, þeim er umbreytt í eigið fé þangað til fyrirtækið er orðið „solvent“.

Er þá líka verið að senda viss skilaboð um að menn reikni ekki með neinum nauðasamningum í bönkunum næstu tvö árin? (Gripið fram í: Neikvæður hvati.) Og kominn neikvæður hvati af ríkisins hálfu að samþykkja slíkt.

Meðferð skattkröfunnar — það væri fróðlegt að vita hvað ráðherra skattamála segir um það. Venjulega eru skattkröfur forgangskröfur, en eru þær eins og aðrar forgangskröfur í búið? Eru þær jafnsettar öðrum forgangskröfum? Hvað segir Landsbankinn þá í skilningi skiptaréttarins? Já, við erum búin að borga út rétt rúmlega helminginn af forgangskröfunum, allt í lagi, við borgum helminginn af skattinum. Eða hvað? Mega þeir taka skattinn fram fyrir og borga hann að fullu á næsta ári þótt þeir séu ekki búnir að borga nema tæpan helming eða rúmlega helming af forgangskröfum?

Ef skatturinn á allur að skila sér úr búi eins og hjá Landsbankanum verður skattkrafan að vera súperforgangskrafa, framar öllu öðru. Það verður mjög fróðlegt að sjá hvernig þetta leysist út í skilningnum á tvennu; annars vegar er það að sjálfsögðu óskorað vald löggjafans til að leggja á skatta og hins vegar skiptarétturinn, bæði innlendur og erlendur, og eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Ég er mjög spenntur fyrir þessu viðfangsefni.

Ef við lítum aðeins á skattstofninn er hann geysistór, 7.800 milljarðar. Svo er það bara sinnum 0,00145, þá koma út þessir 11 komma eitthvað milljarðar. Afar einfalt reikningsdæmi. En það er ekki víst að þetta reynist alveg svona einfalt í framkvæmd. Þetta er í eðli sínu mjög sérstakt og frumlegt vegna þess að til greiðslunnar hafa búin ekki 7.800 milljarða heldur um 2.640, þ.e. í reynd er skattprósentan ekki 0,145 heldur nær því að vera um 0,435 á eignina sem hlýtur alltaf að verða það sem borgar skattinn. Þá er þetta orðin ansi hressileg eignarskattlagning ef við lítum svo á vegna þess að búið borgar ekki með skuldum, búið borgar með eignum, peningum sem það á. Og búin eiga rúma 2.600 milljarða en ekki 7.800 sem eru kröfurnar. Þannig að hér er lagður skattur á útbólginn skattstofn, kröfur, en búin hafa eignir sínar til að borga með. Prósentan verður (Forseti hringir.) þannig að skoðast svolítið í því ljósi.

Frú forseti. Ég kom ekki helmingnum að sem ég ætlaði að ræða þannig að ég bið um að verða settur aftur á mælendaskrá.