143. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2013.

tekjuaðgerðir fjárlagafrumvarps 2014.

2. mál
[15:38]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg rétt. Þegar við breyttum úr flata skattinum yfir í þrepaskattinn náðum við því að lækka örlítið prósentuna á lægstu laun. Mig langaði til að lækka hana meira. Ég lét reikna út dæmi alveg niður í 20% vegna þess að markmið þeirra breytinga var m.a. það að hlífa algerlega tekjulægsta fólkinu við skattahækkunum. Það tókst. Frá og með því að við innleiddum þrepaskattinn að hluta til á miðju ári 2009 og síðan að fullu 2010 hefur tekjulægsti hlutinn á Íslandi borgað lægra hlutfall ráðstöfunartekna sinna eða heildartekna sinna í skatt en hann gerði áður. Nákvæmlega eins og til var ætlast.

Þess vegna er mér annt um að það sökkvi ekki í einhverjum svona breytingum. Ég er reyndar algerlega ósammála því að við séum í einhverjum vandræðum með endaprósenturnar í skattkerfi okkar. Hæsta skattprósenta á laun í háþrepi er 46,22%. Það er sennilega annað lægsta hlutfall á Norðurlöndunum. Almennt fara skattar á mjög há laun eða ofurlaun hærra í mjög mörgum löndum í kringum okkur en þetta. Þannig að allt bull um að við séum komin þarna í ófærur á ekki stoð.

Ef við hefðum viljað láta allan neðri hluta skalans og langt upp í millitekjur og jafnvel svona tiltölulega háar millitekjur njóta að einhverju leyti góðs af breytingum núna, sem kostuðu ríkið um það bil 5 milljarða, hugsa ég að besta dreifingin hefði komið út úr því að hækka einfaldlega tekjumörkin í lágtekjuþrepinu. Það kemur að sjálfsögðu miðjuhópnum til góða, en það dofnar yfir ávinningnum eftir því sem ofar kemur. Þannig að það eða lækkun á prósentum á báðum þrepum hefði mér hugnast mikið betur.