143. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2013.

tekjuaðgerðir fjárlagafrumvarps 2014.

2. mál
[15:52]
Horfa

Margrét Gauja Magnúsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég væri að ljúga ef ég segði að mig hefði ekki dreymt um þessa stund í langan tíma, að fá að standa í þessari fallegu pontu og flytja ræðu um mín hjartans mál, en ég skal viðurkenna að ég átti ekki von á því að jómfrúrræða mín mundi fjalla um bleiur, verandi búin að fagna því í tæpt ár að vera laus við þann þátt úr lífi mínu fyrir fullt og allt. Þegar heildarmyndin er skoðuð þegar kemur að fjárlögum 2014 og tekjustofnum þess árs skiptir stóra bleiumálið gríðarlega miklu máli. Í haust las ég grein þar sem fullyrt er að hjón með þrjú börn á Íslandi þurfi að vera með samanlagt 1,2 milljónir í laun á mánuði fyrir skatt. Nú tel ég mig geta fullyrt að ég þekki engin hjón með þær tekjur og vil ég því taka dæmi til að útskýra mál mitt betur.

Við erum með par, þau eru bæði kennarar, þau eru með tvö börn, eitt í grunnskóla og eitt í leikskóla. Þau fá ekki mikla yfirvinnu en þau eru með umsjónarbekk og yfir 25 nemendur í bekk sem þýðir að samanlagt eru þau með rétt yfir 700 þúsund á mánuði. Eftir skatt sitja eftir um 460 þúsund krónur. Þau eiga þá eftir að borga af verðtryggða íslenska húsnæðisláninu sínu á þriggja herbergja íbúðinni sinni, námslánum, bílnum og alla aðra reikninga. Sveitarfélagið sem þau búa í hefur þurft að hækka álögur eins og fasteignagjöld, leikskólagjöld og frístundaheimilið til að ná utan um reksturinn eftir hrun og geta boðið upp á góða nærþjónustu. En eins og allir vita er ekki í boði nein 110%-leið fyrir íslensk sveitarfélög eða afskriftir.

Þessi hjón eiga ekki eftir mikið af launum sínum til að kaupa í matinn, borga æfingagjöld fyrir börnin, tannlækni og aðra læknaþjónustu, kaupa kuldagalla og jafnvel leyfa sér eina sparbíóferð með krakkana. Í raun hafa hjónin verið með kvíðahnút í maganum núna í 59 mánaðamót og eru búin með allt sem heitir séreignarlífeyrissparnaður og þau hafa aldrei átt sumarbústað til að selja. Hjónin eiga ekki barn á bleiu. En það virðast ekki allir átta sig á því að kostnaðurinn við að eiga börn er ekki fyrstu árin á meðan á bleiuskiptum stendur, þau fara að taka verulega í budduna einmitt þegar því tímabili lýkur en þá bætast við leikskólagjöld, sundnámskeið, tónlistarskóli, fimleikar, tannlækningar, rör í eyrun og viðeigandi fatnaður fyrir öll tilefni dagsins. Fyrir utan stanslausa svengd.

Að lækka virðisaukaskatt á bleiupakkanum er upphæð upp á tæpar þúsund krónur á mánuði sé farið í gegnum þrjá til fjóra bleiupakka. Sú gríðarlega kjarabót fyrir íslenskar barnafjölskyldur mun kosta ríkissjóð tæpar 200 milljónir króna á ári. Það er ekki skynsamleg forgangsröðun.

Ég vil einnig í því samhengi minna á að reynsla almennings af lækkun virðisaukaskatts á nauðsynjavörum hefur ekki verið sérlega góð. Hvað entist hin langþráða lækkun virðisaukaskatts á mat fyrir pyngju landsmanna? Þrjá mánuði? Hvernig ætlar hæstv. fjármálaráðherra að sjá til þess að lækkun virðisaukaskatts úr 24,5% í 7% skili sér í pyngju ungbarnafjölskyldna til lengri tíma litið? Þegar virðisaukaskattur á taubleiur var lækkaður fyrir um ári síðan fannst mér það sniðug aðgerð sem átti að vera hvetjandi fyrir íslenskar barnafjölskyldur til að íhuga að nota taubleiur sem í dag eru mjög handhægar, sniðugar og umhverfisvænar. Sérstaklega í ljósi þess að til dæmis í Álfsnesi þar sem urðuð eru um 400 tonn á viku af heimilissorpi frá höfuðborgarsvæðinu og Suðurlandi eru pappírsbleiur um 10% eða 40 tonn á viku. En það virðist ekki skipta máli. Það á að létta undir með íslenskum barnafjölskyldum með því að lækka virðisaukaskatt á pappírsbleium.

Ég vil hrósa stjórnarmeirihlutanum fyrir að standa vörð um þá miklu hækkun sem varð 2013 á barnabótum í þeim niðurskurði sem hann stóð í. Barnabæturnar hækka þó ekki. Þær standa í stað og því má segja að þær lækki í raunvirði því allt annað hækkar. Af hverju ekki að hækka barnabæturnar um 200 milljónir öllum íslenskum barnafjölskyldum til bóta og þá sérstaklega þeim sem minni tekjurnar hafa líkt og kennaraparið sem ég minntist á hér á undan? Þá halda barnabætur verðgildi sínu frá árinu 2013. Hver króna fyrir þessa fjölskyldu skiptir máli og getur verið náðarhöggið varðandi það hvort hægt sé að æfa fótbolta, jafnvel vera í tónlistarskóla líka, eða kaupa kuldagallann.

Íslenskar barnafjölskyldur standa höllum fæti í íslensku samfélagi og Seðlabankinn hefur staðfest það með því að lýsa yfir áhyggjum af minnkandi greiðslugetu og þeim fjárhagslega þunga sem þær bera. Barnabætur eru það tæki sem ríkisvaldið hefur til að auka jöfnuð barna í íslensku samfélagi og því er nauðsynlegt eftir 59 mánaðamót að koma til móts við allar barnafjölskyldur þessa lands, ekki bara þær sem eiga börn á bleiu. Þetta er ekki spurning um að mikill vilji meira, þetta er ekki spurning um að stækka sumarbústaðinn eða fara í verslunarferð til Boston, því hefur kennaraparið mitt alls ekki efni á en þráir fátt heitar en að geta leyft börnunum sínum að finna hæfileikum sínum farveg og blómstra óháð þeirri háskólamenntun sem þau kusu sér og starfsvettvang.

Virðulegur forseti. Ég geri mér fulla grein fyrir því að þessi ræða hefur verið flutt margoft úr þessum ræðustól í 69 ára lýðveldissögu okkar. Ég veit að margur þingmaðurinn á undan mér hefur lýst yfir miklum áhyggjum yfir stöðunni og kallað á aðgerðir.

Virðulegur forseti. Ég veit líka að margir hugsa: Af hverju gerði hennar flokkur ekki meira fyrir íslenskar barnafjölskyldur á meðan hann gat? (Gripið fram í: Akkúrat.) En það eru léleg vinnubrögð og tímaeyðsla að vera að horfa endalaust í baksýnisspegilinn eins og ég hef horft upp á þá tæpu viku sem ég hef setið á þingi. Í vor voru kosningar. Þá sóttust margir eftir starfinu, að fá að létta undir með íslenskum heimilum með ýmsu móti og fengu þeir flokkar sem lögðu höfuðáherslu á þá þætti glæsilegt umboð til þess að sýna sig og sanna. Því miður finnur sú sem hér stendur ekkert um það í mjög svo óheppilega uppsettu plaggi, hvað þá fyrir byrjendur að þræla sér í gegnum, sem kallast Fjárlög 2014, nema lækkun virðisaukaskatts á bleium um 10,5% og lækkun tekjuskatts um 0,8% sem gæti þýtt fyrir kennaraparið mitt um 2.500 krónur á mánuði í heildina, þ.e. ef þau eiga barn á bleiu.

Ég veit að það er mjög mikilvægt að stöðva halla ríkissjóðs og byrja að greiða niður lánin okkar í stað þess að eyða mörgum milljörðum á ári í vexti. Blæðingin var stöðvuð og er það vel en íslenskum barnafjölskyldum er ekki að blæða út. Þær eru með langvinnan sjúkdóm, ef svo mætti kalla, og hann mætti kalla íslensku krónuna.

Virðulegur forseti. Ég skora á íslensk stjórnvöld að endurskoða forgangsröðun sína í fjárlögum fyrir árið 2014. Ég skora á ríkisstjórnina að setja í forgang íslensku barnafjölskylduna og heilbrigðiskerfið sem við stólum öll á, með öllum tiltækum ráðum. Ég skora á hana að hrinda í framkvæmd öllu því sem hún lofaði til að bæta hag almennings í landinu og jafna stöðu íslenskra barna og ég vil minna hana á að því miður er tíminn naumur. Það eru nefnilega ekki mörg mánaðamót til viðbótar sem fjölskyldan þolir.