143. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2013.

tekjuaðgerðir fjárlagafrumvarps 2014.

2. mál
[16:23]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er þó þannig, hvað sem menn segja um tekjuhlið þessa fjárlagafrumvarps, að skattar, heildartekjur af sköttum eru hærri en hefði verið ef menn hefðu ekki lækkað veiðigjaldið á yfirstandandi ári og yfir á það næsta, ekki lækkað virðisaukaskatt á gistiþjónustu og látið annað óbreytt. Það hefði skilað lægri skatttekjum á næsta ári en þær breytingar sem við erum að mæla fyrir hér, fyrst og fremst vegna bankaskattsins.

Ef við berum saman þær hugmyndir sem eru viðraðar í umræðunni um það hvernig þetta ætti að vera öðruvísi en ríkisstjórnin leggur til þá nefna menn raforkuskattinn á stóriðjuna sem á að falla niður frá og með árinu 2016, hann hefur ekkert að gera með næsta ár í sjálfu sér og ekki heldur þarnæsta vegna þess að hann er á lagður út árið 2015 eða ákveðinn fyrir þann tíma. Menn eru sem sagt að segja hérna í umræðunni að það hefði átt að framlengja hann. Hann var kynntur sem tímabundinn skattur en nú vilja menn taka ákvörðun um að framlengja hann enn frekar. Með því eru menn að svíkja það sem um var rætt þegar skatturinn var lagður á á sínum tíma í samtölum við stóriðjuna og Samtök atvinnulífsins.

Það er sagt með auðlegðarskattinn, sem var líka kynntur sem tímabundinn skattur, hann hefði átt að framlengja að sjálfsögðu, ekki í fyrsta sinn heldur í annað sinn af því að síðast þegar hann var framlengdur var hann líka framlengdur tímabundið og reyndar hækkaður töluvert hressilega í sömu andrá. Það er ágætt að hafa það í huga vegna þess að menn ræða oft um fasteignir varðandi auðlegðarskattinn. Þær eru einungis að 1/4 hluta til í skattstofninum í Noregi sem oft er nefndur til viðmiðunar.

Ríkisstjórn vinstri flokkanna hefði sem sagt haldið áfram að hækka veiðigjöldin, það liggur þá fyrir. Það er ekki stefna nýrrar ríkisstjórnar. Millitekjufólkið sem er að fá lækkunina með því að við lækkum miðþrepið hefði ekki verið í forgangi hjá þeirri ríkisstjórn. Það hefði verið í forgangi að hlífa áfram þeim allra (Forseti hringir.) tekjulægstu umfram millitekjufólkið, það er greinilegt, þó höfðu þeir sem voru í millitekjuhópnum tekið á sig allar byrðarnar af hruninu. Það er fyrst núna sem menn eru farnir að opna fyrir það í opinberri umræðu að skattleggja bankana.