143. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2013.

tekjuaðgerðir fjárlagafrumvarps 2014.

2. mál
[16:33]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Þetta hefur verið fróðleg umræða sem staðið hefur hér í dag. Ég vil bæta því við að fyrir utan það sem ég sagði í dag að ég væri sammála þeirri stefnu sem fram kemur í frumvarpi hæstv. fjármálaráðherra um að skoða breikkun á virðisaukaskatti og lækka prósentuna, þ.e. efri mörkin, er ýmislegt fleira sem ég get tekið undir í frumvarpinu. Ég er t.d. sammála því að það eigi að freista þess að leggja svokallaðan bankaskatt á fjármálafyrirtæki sem eru í slitameðferð. Ég er þeirrar skoðunar að eignir og kröfur séu orðnar það vel skilgreindar að það sé orðið að raunverulegu andlagi og að kominn sé tími til þess að gera það. Ég er kannski ekki algjörlega sammála þeirri röksemdafærslu sem fram kemur í greinargerð með frumvarpi hæstv. ráðherra. Hæstv. ráðherra segir þar að vegna þess mikla kostnaðar sem hrun bankanna felldi yfir íslenska samfélagið sé sanngjarnt að taka þennan skatt. Ef við ætlum að fara að leggja mat á það hversu gríðarlegt ok var lagt á íslenskar herðar með bankahruninu væri það svo margfalt hærri upphæð að mér finnst eiginlega umhendis að taka svo til orða eins og gert er í frumvarpi hæstv. ráðherra.

Það breytir engu um að jafnframt því sem ég styð að menn freisti þess að fara þessa leið hef ég svolitlar áhyggjur af því hvort hæstv. ráðherra og hans góða lið hafi hugsað þetta til þrautar. Að vísu má segja að þær upplýsingar sem hv. þm. Steingrímur Jóhann Sigfússon færði inn í umræðuna áðan hafi róað mig örlítið, þ.e. ég skildi það á máli hans þegar hann las upp úr skiptalögum að þessar kröfur, þessar tegundir skattkrafna, yrðu jafnstæðar launum þeirra sem vinna fyrir búið. Þó er það svo að það er ekki lengra síðan en í dag sem þeir sem hafa umsjón búanna með höndum bera brigður á þetta. Fram kom í dag að menn telja að þetta sé í besta falli lagalegt álitaefni. Ég óttast það auðvitað að af þessu spretti lagalegt þrætuepli.

Ég spyr hæstv. fjármálaráðherra hvort ekki hafi komið til greina og hvort ekki sé tæknilega kleift að slá þetta í gadda með því að breyta lögum með þeim hætti sem mér fannst einhver í umræðunni tæpa á fyrr í dag, að kröfur sem þessar hefðu „súperforgang“, eins og það var orðað. Með þeim rökum sem fram koma í greinargerð með frumvarpinu finnst mér það koma mjög til greina.

Í öðru lagi, frú forseti, finnst mér að það sem standi upp úr í þessari umræðu í dag sé sú staðreynd að hv. þingmenn Framsóknarflokksins koma ekki í þessa umræðu. Það hefur enginn þingmaður Framsóknarflokksins lýst stuðningi við frumvarp hæstv. fjármálaráðherra. Einn þeirra situr að vísu hér og þrumir í sal án þess að segja neitt og hefur sá ágæti hv. þm. Frosti Sigurjónsson þó yfirleitt ekki þurft mikla hvatningu til þess að tjá sig um efni þessa frumvarps. Ég undrast það t.d. að hv. þingmaður skuli ekki koma hér upp og segja álit sitt á akkúrat því ákvæði sem ég gerði að umræðuefni, sem er skattlagning á fjármálafyrirtæki í slitameðferð. Við vorum alla vega sammála um það, ég og hv. þingmaður á sínum tíma í sjónvarpsþætti að það ætti að fara snöggtum hærra í skattlagningu en hér er farið þrátt fyrir þær ágætu reikningskúnstir sem fyrrverandi fjármálaráðherra fór með hér í dag, sem sýndu fram á að í reynd er skattlagning á hinar virku eignir í búunum snöggtum hærri en sú tala sem upp kemur í frumvarpinu.

Það hefði verið fróðlegt að heyra mál hv. þm. Frosta Sigurjónssonar um þetta m.a. til þess að komast að því hvort það kunni að vera að enn einn hv. þingmaður Framsóknarflokksins stigi fram og lýsi andstöðu við einstök ákvæði í þeim frumvörpum sem hæstv. fjármálaráðherra hefur borið hér fram.

Það eru ekki nema nokkrir dagar síðan tveir ef ekki þrír þingmenn Framsóknarflokksins komu hér og lýstu beinlínis andstöðu við það ákvæði í fjárlagafrumvarpinu sem hæstv. ráðherra talaði fyrir af hvað mestum ástríðuþrótti, því að aldrei kviknaði jafn sterklega og heitt á hæstv. ráðherra og þegar hann var að verja hér það allra versta í því frumvarpi sem er auðvitað leguskatturinn á sjúklinga. Þá komu hér tveir hv. þingmenn Framsóknarflokksins og lýstu andstöðu við það. Sjálfur formaður flokksins, hæstv. forsætisráðherra, bætti um betur og sagði um þá tillögu hæstv. fjármálaráðherra að hún væri hugmynd, sem sagt umdeildasta tillagan í fjárlagafrumvarpinu sem hæstv. fjármálaráðherra á erfiðast með að verja. Hæstv. forsætisráðherra kemur í bakið á hæstv. fjármálaráðherra og segir að það sé ekkert annað en hugmynd. Síðan býður hann stjórnarandstöðunni ásamt þingmönnum Framsóknarflokksins bókstaflega til burtreiða til þess að breyta frumvarpinu, til þess að koma út þessu vonda ákvæði, eins og hæstv. fjármálaráðherra sagði nánast. Ég velti því þess vegna fyrir mér hvort hv. þm. Frosti Sigurjónsson sé líka í þeim leik.

En auðvitað vekur athygli sá ágreiningur sem uppi er millum einstakra þingmanna Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins annars vegar, en líka millum toppanna, því að komið hefur fram að það mál sem Framsóknarflokkurinn byggir sína pólitísku tilveru bókstaflega á og grundvallaði sinn mikla kosningasigur á, þ.e. leiðréttingaleiðin, nýtur ekki meiri athygli og alvöru af hálfu hæstv. fjármálaráðherra en svo að hann leyfði sér um daginn að kalla það vangaveltur. Hvað segir hv. þm. Frosti Sigurjónsson við því? Er hann sáttur við að sá maður sem hann hefur falið forsjá í ríkisfjármálum kalli það vangaveltur sem hv. þingmaður barðist fyrir alla kosningabaráttuna? (Gripið fram í.) Ég hefði gaman af því að hlusta á viðhorf hv. þingmanna Framsóknarflokksins til þess.

Ég man ekki eftir því að svona snemma á kjörtímabili hafi bókstaflega glitt í eld á millum stjórnarflokka tveggja um það sem hlýtur að vera kallað undirstaða stjórnarsamstarfsins.

Þetta var nú formálinn að efnislegri ræðu minni um frumvarpið.

Fyrir utan það að lýsa stuðningi við skattlagningu á fjármálafyrirtæki í slitameðferð og hugmyndir hæstv. fjármálaráðherra um breytingar á virðisaukaskattskerfinu — ég tek fram að hann fær engan blankótékka fyrir því frá mér — líst mér vel á það að hann skoði þetta og vísa honum á hugmyndir sem koma fram í skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem mér fundust á sínum tíma allrar athygli verðar.

Þar fyrir utan er hugsanlegt að ég hafi farið of langt hér í dag í fyrri ræðu minni þegar ég sagði að það glitti ekki í gamla Sjálfstæðisflokkinn í fari hæstv. fjármálaráðherra. Þegar grannt er hlustað slær þó eitthvað enn þá sem hægt er að kalla hjarta meðaumkvunar með þeim sem erfitt eiga. Það jákvæða og það besta í þessu frumvarpi er að hæstv. fjármálaráðherra heldur áfram þeirri stefnu sem fyrri ríkisstjórn markaði. Eins og hann ítrekaði í framsögu sinni fyrr í dag er haldið áfram ýmiss konar verndandi skjólaðgerðum fyrir þá sem standa höllum fæti, eins og t.d. sérstökum barnabótum, sérstökum vaxtabótum, fyrir utan það að ýmsum atvinnuörvandi áætlunum sem við hrundum af stað, eins og t.d. endurgreiðslu á virðisaukaskattsskyldu viðhaldi húsa, er haldið áfram. Það er mjög jákvætt.

Það sem mér fannst algjörlega bresta hjá hæstv. ráðherra var tilraun hans til þess að færa rök fyrir því eða gegn því sem við höfum fært inn í þessa umræðu, að þeir 5 milljarðar sem nota á til þess að lækka tekjuskatt skuli með engu móti ná til þeirra sem verst eru settir, þ.e. þeirra sem eru með tekjur undir 242 þús. kr. Það eru 15% tekjuskattsgreiðenda. Það eru þau 15% sem erfiðast eiga. Ef á annað borð á að verja 5 milljörðum til þess að lækka tekjuskattsgreiðslur þjóðarinnar, af hverju eru þeir sérstaklega valdir og settir út undan? Er það t.d. það sem hv. þm. Willum Þór Þórsson barðist fyrir í sinni kosningabaráttu? Að sjálfsögðu ekki. Ástæðan fyrir því að félagshyggjuarmur Framsóknarflokksins, eða það sem píratarnir mundu kalla „hinir húmanísku framsóknarmenn“, mæta ekki hér til umræðunnar í dag er auðvitað sú að þeir eru ósáttir við þetta.

Nú ætla ég ekki að halda því fram að hv. þm. Frosti Sigurjónsson sé ekki húmanisti, en ég mundi seint kalla hann húmanískan félagshyggjuframsóknarmann, en þeir mæta hins vegar hér til umræðunnar.

Hæstv. ráðherra kom að því í lok rökfærslna sinna og andsvara við okkur nokkra, hann sagðist einfaldlega vera á móti því að lækka tekjuskattshlutfallið hjá þessum hópi af því að það væri nú þegar svo lágt. Hann færði líka fyrir því ýmis hliðarrök. Að lokum sagðist hann bara vera á móti því.

Hvernig getur hæstv. ráðherra verið á móti því fyrst hann ætlar á annað borð að verja 5 milljörðum í þetta, að láta þetta ná yfir alla, að láta þetta ná fyrst og fremst yfir lægsta þrepið? Þá njóta allir þess. Það finnst mér afskaplega umhendis og ég á bara erfitt með að skilja það. Mér finnst bara að það sé ekki í takti við hæstv. fjármálaráðherra. Mér þætti vænt um ef hann reyndi að skýra það pínulítið betur.

Að öðru leyti finnst mér að framsetning hæstv. ráðherra, bæði á máli sínu hér í dag og líka á þessu frumvarpi sé staðfesting á því hversu góðu búi hæstv. ráðherra tekur við. Hann reif sig niður í rass hér fram eftir sumri yfir því að hann stæði andspænis gapi ginnunga, 30 milljarða gati sem þyrfti að stoppa upp í, hæstv. forseti — og er nú hæstv. forseta málið skylt.

Það er samt sem áður þannig að búið sem hæstv. fjármálaráðherra tekur við gerir honum fært að leggja af auðlegðarskatt að loknu næsta ári upp á 9,3 milljarða. Hann er búinn að leggja af virðisaukaskatt á ferðaþjónustu upp á 2 milljarða. Hann er búinn að leggja veiðigjald upp á 4–6 milljarða. Hann finnur rými til þess að lækka tekjuskatt um 5 milljarða. Ég veit það að ef sá sem er talnagleggstur í þessum sal og situr fyrir aftan mig legði þessar tölur saman kæmist hann að þeirri niðurstöðu sem ég komst að líka hér í dag, að búið sem verið er að skila í hendur hæstv. ráðherra skapar honum í reynd ekki gat upp á 30 milljarða, heldur svigrúm upp á 21–22 milljarða. Þannig er það.

Síðan geta menn velt því fyrir sér hvernig í laginu sú framtíð er sem blasir — eða á ég að segja gnapir við hæstv. fjármálaráðherra ef við flytjum okkur tvö ár fram í tímann. Þá er hann búinn að missa auðlegðarskattinn. Þá er hann búinn að missa líka tekjurnar af ferðaþjónustunni. Hann er búinn að missa sérstaka veiðigjaldið. Hann er þá sömuleiðis búinn að missa væntanlega 10 milljarðana sem hann tekur núna með skrifborðsæfingu af seðlabankabréfinu. Og miðað við áætlanir hæstv. ríkisstjórnar, a.m.k. eins og hæstv. forsætisráðherra talar, þá er það heldur enginn skattur sem hægt er að taka af fjármálafyrirtækjum í slitameðferð. Þetta eru 35 milljarðar sem hæstv. fjármálaráðherra þarf að brúa þegar til framtíðar kemur.

Það þarf vaska menn til þess að stökkva yfir slíka gjá. Hugsanlega getur hæstv. ráðherra það en við eigum eftir að sjá það.

Ég tel sem sagt að það sé mikið óráð með hvaða hætti hæstv. fjármálaráðherra hefur hafið sína för í embætti. Ég tel að það hafi verið rangt miðað við stöðuna að taka af þá skattheimtu sem ég nefndi hérna áðan. Ég ætla ekki frekar út í það.

Ein teknísk spurning að lokum:

Hæstv. ráðherra ræddi hér fyrr í dag um skilmálabreytingar á seðlabankabréfinu sem gera það að verkum að lækka vaxtagjöld ríkisins bókhaldslega um 10 milljarða. Þó er bara verið að færa úr einum vasa yfir í annan, eins og seðlabankastjóri benti á. En mátti skilja mál hæstv. ráðherra þannig að þetta sé einhvers konar æfing sem verði endurtekin með einhverjum hætti? Hyggst hæstv. fjármálaráðherra heimta meira úr sjóðum Seðlabankans með öðrum hætti en í formi hefðbundinna arðgreiðslna? Mig fýsir að vita hvort þetta verður varanlegur tekjuauki, orðum það svo, fyrir ríkissjóð í framtíðinni.