143. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2013.

tekjuaðgerðir fjárlagafrumvarps 2014.

2. mál
[16:52]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að játa að ég hef stundum gaman af útskýringum hv. þingmanns eins og þegar hann fer í að túlka þau orð sem maður lætur falla, hvort sem er í ræðustól eða í viðtölum. Það hefur ekkert með afstöðu Framsóknarflokksins að gera að hér sé ekki verið að lækka virðisaukaskatt á barnaföt eða barnavörur, bara ekki neitt. Ég hins vegar vakti athygli á því í umræddum þætti að þegar menn fara í stjórnarsamstarf þurfa þeir að koma sér saman um alla hluti. Það birtist ákveðin forgangsröðun í þeim frumvörpum sem við erum að ræða í dag.

Varðandi þá vinnu sem er í gangi hefur hún meðal annars snúist um hvernig við getum tryggt við tollafgreiðslu þessarar vöru að hún sé með sérstakt tollnúmer og að möguleg lækkun á virðisaukaskattinum skili sér áfram til neytenda í landinu, hvaða ytri mörk eigi að setja á þann varning sem geti fallið undir hugtakið. Eigum við bara að hafa barnafötin? Eigum við að hafa einhvern annan varning? Svo auðvitað skiptir líka máli hversu miklar tekjur er verið að gefa eftir og að leggja mat á að hve miklu leyti menn geta með þessu tekið varning eða tekið viðskipti með vörurnar, verslun með barnavörur, aftur heim í landið og sparað með því gjaldeyri. Til þess að komast betur til botns í öllum þeim álitaefnum hef ég sett af stað vinnu í ráðuneytinu.

Ég fæ hér spurningu um hvort það standi til að fara í einhverjar aðrar sérstakar lagalegar ráðstafanir til að tryggja innheimtu bankaskattsins. Ég legg áherslu á að við notum tímann í þinginu til að tryggja að álagður skattur verði innheimtur og er opinn fyrir því að ræða það ef menn telja þörf á að gera það.

Aftur varðandi skattprósentuna. Við sjáum þetta, ég og hv. þingmaður, með ólíkum hætti. Ég horfi til þess hvernig skattkerfið var áður en byrjað var að breyta því upp í þrjú þrep. Ég sé fyrir mér það skattþrep sem var 23,5%. Þeir sem greiða í lægsta þrepinu í dag fengu prósentulækkun. Þeir sem eru fyrir ofan það þrep fengu (Forseti hringir.) prósentuhækkun. Þeir eru núna að fá leiðréttingu.