143. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2013.

tekjuaðgerðir fjárlagafrumvarps 2014.

2. mál
[17:15]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu þar sem okkur hefur tekist að varpa ljósi á, að ég hygg, öll helstu álitamálin sem til umræðu hafa komið frá því að málið var lagt fram.

Ég vil fyrst nefna í tilefni af ræðu hv. þm. Kristjáns L. Möllers að í fjárlagafrumvarpinu og við kynningu á því voru tekin saman heildaráhrif fjárlagafrumvarpsins og tengdra mála. Áætluð áhrif eins og þau eru þar kynnt eru til hækkunar á kaupmætti ráðstöfunartekna upp á um 0,3%. Þetta er áætlun fjármálaráðuneytisins, á endanum kannski ekki mjög nákvæm vísindi en þar koma til frádráttar áhrif af hækkun krónutölugjalda og skatta alveg eins og hv. þingmaður rakti hér áðan. Þau koma til frádráttar á hækkun kaupmáttar ráðstöfunartekna sem fylgja þessu frumvarpi sem felur í sér talsvert miklar skattalækkanir hér og hvar. Þegar þetta er lagt saman er niðurstaðan engu að síður sú að kaupmáttur ráðstöfunartekna vex og hljóta það að teljast mjög jákvæð tíðindi.

Hér í umræðunni hefur verið komið aðeins inn á breytingar á tryggingagjaldinu. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon rakti það hvernig einstakir markaðir liðir tryggingagjaldsins taka breytingum, en sumir þeirra hækkuðu nokkuð árið 2012. Þá voru hinir ýmsu undirliðir gjaldsins í talsvert neikvæðri stöðu gagnvart ríkissjóði og í þessu frumvarpi hér er lagt upp með lækkun á mörkuðum prósentum tryggingagjaldsins til Fæðingarorlofssjóðs, Atvinnuleysistryggingasjóðs og Ábyrgðasjóðs launa, en sjóðirnir eru komnir með talsvert uppsafnaðar kröfur á tekjustofninn. Þannig er áætlað að Fæðingarorlofssjóður sé kominn með um 6,5 milljarða í uppsafnaða kröfu, Atvinnuleysistryggingasjóður í kringum 9,5 milljarða og Ábyrgðasjóður launa um 1,8 milljarða sem gefur færi til þess að lækka þessa stöðu jafnt og þétt á næstu árum. Þess vegna er gjaldið lækkað núna og það er ekki talið hafa nein neikvæð áhrif á umrædda sjóði.

Hér hefur verið spurt um það hvaða framtíð sé boðuð þegar kemur að skattkerfinu, hvort við hyggjumst fara með skattkerfið í eitt þrep eins og áður var eða tvö. Um það hefur í sjálfu sér engin ákvörðun verið tekin. Ég hef hins vegar áður mælt fyrir því að einfalda kerfið og ég sé fyrir mér sem fyrsta skref í frekari breytingum á kerfinu að stefna að því að fækka þrepunum niður í tvö. Í þessari umræðu verður að taka allt kerfið með í umræðuna, það er ekki hægt að einblína eingöngu á þrepin og fjárhæðarmörk þeirra, heldur verður að hafa með í umræðunni hvert frítekjumarkið er og hvernig þróun persónuafsláttarins er. Ef við ætlum að vera með sérstakt hátekjuþrep finnst mér skipta máli að það sé þá á raunverulegar hátekjur en þróist ekki eins og áður varð yfir í sérstakan skatt á það sem voru rétt rúmlega millitekjur.

Í umræðunni í dag hefur mikið verið gert úr því að ný ríkisstjórn skuli sérstaklega lækka miðþrepið en láta það eiga sig að lækka lægsta þrepið. Ég ætla bara að ítreka hér undir lok umræðunnar, sem ég hef nokkrum sinnum komið inn á, að hér er horft til þess hvernig kerfið hefur breyst á undanförnum árum, nýlega. Tekjuskattshlutfallið var 23,5% og í einu þrepi en þegar ég segi eitt þrep er auðvitað ekki tekið tillit til þess að með háum persónuafslætti og þessari tekjuskattsprósentu verða í raun og veru til endalaus þrep eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon kom inn á. Það verður til ákveðin kúrfa sem leiðir til þess að stigvaxandi hlutfall tekna greiðist í skatt.

Þessar nýlegu breytingar leiddu til þess að það varð til þriggja þrepa kerfi og laun í lægsta þrepinu fengu eftir breytinguna lægri tekjuskattsprósentu. Laun fyrir ofan, rétt um 240 þús. kr. í dag og upp undir rúmlega 700 þús. kr., fengu á sig hærri prósentutölu. Þessi ríkisstjórn hyggst lækka þá prósentutölu til baka. Þá segja menn að þetta ætti allt að fara í neðsta þrepið, en síðasta ráðstöfun sem var gripið til var einmitt til þess fallin að hlífa því tekjubili sérstaklega og það þrep nýtur þess áfram þrátt fyrir að miðjuþrepið fái til baka eitthvað af hækkuninni sem ákveðin var við síðustu stóru kerfisbreytinguna. Menn sjá þetta bara með ólíkum augum og ég skil það ágætlega.

Ég segi bara varðandi þá sem verst hafa kjörin að það er fleira í þessu en tekjuskattsbreytingar. Það eru miklar hækkanir á greiddum bótum á næsta ári, rúmlega 8 milljarðar þegar allt er tekið með, þegar teknar eru með bæði kerfislægar breytingar vegna fjölgunar og verðlagsbreytinga, en utan þess eru hreinar hækkanir í bótakerfunum til örorkulífeyrisþega og eldri borgara upp á um 5 milljarða. Það eru kerfisbreytingar sem þessi ríkisstjórn tók ákvörðun um í sumar. Aðrar kerfisbreytingar sem taka gildi um áramótin leiða til þess að þessir hópar, sem hljóta að teljast til þeirra sem hafa bágust kjörin, njóta þeirra aðgerða sem við erum hér að kynna til sögunnar.

Því til viðbótar kemur síðan það sem ég hef áður sagt um breytingar í vaxtabótakerfinu sem hefði að óbreyttu leitt til mun lakari kjara hjá tekjulágu fólki, en við framlengjum sem sagt sérstakan stuðning við tekjulágt fólk með breytingum á þeim lögum, og í barnabótakerfinu hafa nýlega orðið mjög miklar hækkanir sem eru varðar sérstaklega í þessu fjárlagafrumvarpi.

Ég ætla ekki að endurtaka það sem fram hefur komið í umræðunni og í andsvörum mínum í dag sem snýr að bankaskattinum. Bankaskatturinn hefur fram til þessa skilað um það bil 1 milljarði frá stóru bönkunum en tekjustofninn verður um 14 milljarðar á næsta ári. Komi til þess að nefndin telji ástæðu til að gera einhverjar sérstakar ráðstafanir til að tryggja betur innheimtu skattsins hvet ég menn einfaldlega til að vanda sig í þeim verkum. Miðað við umræðuna sem átt hefur sér stað hér í dag heyri ég ekki annað en að þingmenn allra flokka hyggist sameinast um að tryggja að þessi skattur skili sér.

Ég ætla ekkert að fara að lengja umræðuna með því að tala um það að lokum að mér finnst stundum misvísandi skilaboð í umræðunni. Annars vegar segja menn að hér sé ný ríkisstjórn greinilega að taka við gríðarlega góðu búi og í hina röndina segja menn að þetta sé allt á mjög veikum grunni reist. Kannski eru menn þar fyrst og fremst að vísa til þess að ríkisstjórnin hyggst ekki innheimta alla þá skatta sem fyrri ríkisstjórn hugðist gera. Þá er tvennt í málinu, annars vegar það að margir af þeim sköttum voru einmitt tímabundnir, eins og auðlegðarskatturinn sem rennur út um áramót. Hann hafði verið samþykktur þannig af síðustu ríkisstjórn að hann rynni út um áramót, það var eftir að hann hafði verið framlengdur einu sinni. Nú auðvitað fullyrða menn í umræðunni að hann hefði að sjálfsögðu verið framlengdur, meira að segja fyrrverandi fjármálaráðherra sem hafði þó látið taka við sig viðtal og lýst því þar yfir að hún hygðist ekki styðja framlengingu þess skatts.

Hugmyndir um að stórhækka veiðigjaldið á útgerðina eru orðaðar hér sem glatað tækifæri, að menn kasti frá sér tekjum, eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson orðaði það, ef ég tók rétt eftir. Hann orðaði það með einhverjum slíkum hætti að menn köstuðu frá sér tekjumöguleikum með því að innheimta ekki það veiðigjald sem var í kortunum hjá fyrri ríkisstjórn. En þarna er einfaldlega undirliggjandi pólitískur ágreiningur um það hversu langt eigi að ganga í því að innheimta sérstakt gjald á þessa atvinnugrein. Menn geta bara huggað sig við það að útgerðin greiðir á næsta ári væntanlega hæstu gjöld og skatta sem nokkru sinni hafa verið greiddir.

Afkoman er góð, já, hún er vissulega mjög góð. Það eru góð tíðindi, það gefur færi á að endurnýja tæki og tól, sækja fram til frekari vinninga á erlendum mörkuðum í framtíðinni, tryggja enn betur orðspor Íslands á öðrum mörkuðum sem þess lands sem skilar bestum afurðum út á markaðina. Það eru ný lönd til að vinna í því samhengi eins og við sjáum að markaðir eru að opnast í Asíu fyrir okkur Íslendinga, ekki bara á sjávarútvegssviðinu heldur öðrum. Þar verður síaukin eftirspurn eftir hágæðavöru eins og þessari og áfram munum við eflaust takast á um það í þinginu hvað er hófleg, eðlileg, sanngjörn skattlagning. Það er án vafa að útgerðin nýtur góðs af þeirri hagræðingu sem lagabreytingar hafa gert henni kleift að ráðast í. Veiðileyfin upphaflega, kvótasetningin, frjálsa framsalið, aðrar slíkar opinberar aðgerðir hafa gert mönnum kleift að safna saman heimildum og auka hagræðið í útgerðinni sem menn smám saman njóta góðs af í betri afkomu.

Í grunninn er enginn ágreiningur um það að fyrir þennan forgangsrétt að nýtingu auðlindarinnar eigi að greiða gjald en því miður finnst mér að okkur hafi lítið miðað í átt til þess að komast að sameiginlegri niðurstöðu um það hvert það gjald ætti að vera. Ekki einu sinni virðist vera samstaða um það hvort gjaldið ætti yfirleitt að vera mjög hátt eða hvað sé yfir höfuð hátt. Menn virðast vera komnir frá því sem almennt var rætt um þegar auðlindanefndin starfaði á sínum tíma og skilaði skýrslu sinni, að gjaldið ætti að vera hóflegt. Það er búið að yfirgefa þá hugmyndafræði, heyrist mér, hóflegt gjald er sjaldan nefnt í tengslum við veiðigjöldin í dag heldur er bara vísað í góða afkomu og að það eigi að réttlæta mjög háa gjaldtöku. Ekki verður bent nógu oft á það að þessi fyrirtæki greiða alla skatta og öll gjöld og veiðigjöldin þar til viðbótar. Þau munu skila um það bil 10 milljörðum á næsta ári ef spár ganga eftir. Þetta verður áfram hluti af umræðunni. Sama hvað líður þessu frumvarpi og samþykkt fjárlagafrumvarpsins munu menn áfram takast á um fyrirkomulag stjórnar fiskveiða og innheimtu auðlindagjalda, hvort sem menn munu þá kalla það auðlindarentu, veiðigjöld eða eftir atvikum fara í einhvers konar aðra útfærslu, eins og að skoða sérstakan tekjuskatt sem möguleika til að ná þessari auknu framlegð sem menn geta sótt á grundvelli þeirra kerfisbreytinga sem gerðar hafa verið og forgangs til nýtingar á auðlindinni.

Ég óska eftir því að málið gangi til nefndar og síðan 2. umr. eins og ég hef áður komið inn á og vonast eftir góðu samstarfi við nefndina eftir því sem þörf krefur. Við munum að sjálfsögðu veita allar upplýsingar og ég óska nefndinni góðs gengis í störfum sínum.