143. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[17:36]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Þetta er árlegur fylgifiskur með fjárlagafrumvarpinu, ýmist í einum bandormi eða tveimur. Þetta hefur oft verið kallaður skárri bandormurinn eða sá sem þótti ekki jafn ógeðfelldur og sumir aðrir á umliðnum árum. Ég hef nokkuð gaman af því, satt best að segja, að sjálfstæðismenn undir forustu formanns síns, hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra, leggja hér til að bensíngjald, olíugjald og kílómetragjald hækki til samræmis við verðlag. Þegar umtalsverðar hækkanir urðu á innkaupsverði eldsneytis á árunum 2010–2011 gerðu menn harða hríð að því að ríkið lækkaði álögur sínar til að draga úr hækkun á útsöluverði þessarar vöru. Gott ef það gekk ekki svo langt að hér voru fluttar um það breytingartillögur, alla vega voru þingmál ef ég man rétt hér á ferð um umtalsverðan afslátt af álögum ríkisins á eldsneyti. Sett var nefnd í að skoða þetta mál á sínum tíma sem komst að skynsamlegri niðurstöðu, að það væri afar óráðlegt. Tvísýnt væri um að hvaða gagni slíkt kæmi því að ekki sæju menn fyrir verðlagssveiflur í innkaupsverði á bensíni og olíum. Það væri miklu hyggilegra að búa sig undir þá framtíð að eldsneytisverð yrði hátt, hvað hefur orðið raunin.

Það lætur nærri að útsöluverðið í dag, u.þ.b. 250 kr. á lítrann, er það ekki? sé nálægt því sem það var akkúrat á þessum mánuðum. Ég hygg að það hafi verið á vormánuðum 2011 þegar hvað mest ramakvein var rekið upp út af þessu og sjálfstæðismenn lögðu þá til að ríkið afsalaði sér tekjum til að mæta hærra innkaupsverði.

Það er ekki gert hér heldur þvert á móti lagt til að þessir tekjustofnar fylgi verðlagi, og ég styð það. Það er afar óskynsamlegt að ætla að kaupa sér einhvern skammvinnan frest með því að láta gjöld af þessu tagi ekki fylgja verðlagi ef menn eru á því á annað borð að þau séu stillt af miðað við eitthvert skynsamlegt hóf. Við erum alls ekki fremst í flokki þegar kemur að skattlagningu á eldsneyti, það er hærra í sumum af nágrannalöndunum og hlutfall opinberra gjalda í útsöluverði bensíns og olíu er sennilega vel undir 50% á Íslandi í dag sem er lægra en í flestum, ef ekki öllum, norrænum löndum.

Það væri líka algerlega gegn þróuninni og þeirri hugsun að takast á við hvort tveggja í senn, hátt verð á jarðefnaeldsneyti og loftslagsmálin og annað í þeim dúr, að gefa eftir í þessum efnum. Það er miklu skynsamlegra að mæta þessu með skynsamlegum ráðstöfunum af því tagi að auðvelda fólki að endurnýja bíla sína og nota sparneytnari og umhverfisvænni orkugjafa, efla almenningssamgöngur og takast þannig á við þetta.

Ég fagna því að í aðalatriðum er þeirri stefnu fylgt, þ.e. í því máli sem við ræddum áðan kom fram að allar ráðstafanir af því tagi, að undanþiggja rafmagnsbíla, vetnisbíla, tvígengisbíla o.s.frv. innflutningsgjöldum, að leggja bifreiðagjöld á miðað við koltvísýringslosun og hlúa þannig að umhverfisvænni þróun í samgöngum, halda sér og ekki er gefið eftir með það að eðlilegt er og beinlínis skynsamlegt að skattleggja jarðefnaeldsneyti. Fyrir utan að við skulum ekki gleyma því að þetta er að hluta til markaðar tekjur til uppbyggingar samgöngumannvirkjum sem þurfa að eiga sinn stað í fjárlögunum.

Þetta hefur að sjálfsögðu tiltekin verðlagsáhrif eins og hæstv. ráðherra fór vel yfir í máli sínu, fer nálægt því að éta upp ávinninginn af lægri tekjuskatti í milliþrepi á næsta ári. En það verður ekki bæði sleppt og haldið og ég geri engar athugasemdir við það, þvert á móti frekar fagna því en hitt að ríkisstjórnin sýnir þó þann manndóm að láta þessa tekjustofna ekki drabbast niður.

Það var gert í hinu meinta góðæri þegar menn héldu að þeir væru ægilega ríkir og eitt af því sem var afar þungt í skauti eftir hrunið var að ýmsir tekjustofnar af þessu tagi höfðu rýrnað og rýrnað árum saman og ekki verið hirt um að láta þá fylgja verðlagi. Það var kominn mikill slaki í bensíngjald, olíugjald, áfengis- og tóbaksgjöld og annað í þeim dúr sem kostaði miklar hækkanir að ná aftur upp nokkurn veginn í það horf sem hafði verið. Hér er ekki lagt inn á þá braut og það tel ég vera skynsamlegt.

Þegar kemur hins vegar að ýmsum öðrum liðum frumvarpsins er ég ekki eins sáttur. Ég ætla að staldra aðeins við IX. kafla þar sem farið er í breyting á lögum nr. 152/2009, um stuðning við nýsköpunarfyrirtæki. Þarna finnst mér komið að metnaðarleysi ríkisstjórnarinnar á því sviði sem snýr að atvinnuþróun, nýsköpun, rannsóknum og þróun og ég verð að segja alveg eins og er að þarna skortir mig gersamlega samúð með hæstv. fjármálaráðherra. Við getum ekki verið orðin svo aum núna eða orðið það á árinu 2015 að við þurfum að spara okkur mögulega nokkur hundruð milljóna kr. útgjöld sem mundi leiða af því að óbreytt fyrirkomulag um endurgreiðslu rannsóknar- og þróunarkostnaðar til nýsköpunar og sprotafyrirtækja fengju að halda áfram.

Hér á að lækka endurgreiðsluhlutfallið úr 20% af útlögðum rannsóknar- og þróunarkostnaði í 15%. Þetta var ekki 2013, sem hæstv. ráðherra hefur verið tíðrætt að nota í samanburð, heldur kom þetta til á botni kreppunnar, lögin voru sett 2009 og komu til framkvæmda í fyrsta sinn á árinu 2010 og lítillega betrumbætt eftir það.

Ég skora á hæstv. ráðherra af því að það hefur ekki einu sinni nokkur áhrif á tekjur ríkisins á næsta ári að leyfa þessu bara að vera og henda þessari grein út úr frumvarpinu. Þvert á móti hefði ég sagt og hef gert það opinberlega á þessum vettvangi í samtölum við aðila á sviði atvinnuþróunar og nýsköpunar að um leið og við teljum okkur hafa ráð á því ættum við frekar að rýmka reglurnar í þessu kerfi því það hefur mjög heillavænleg áhrif.

Fyrirkomulagið eins og það er í dag gagnast mjög vel litlu fyrirtækjunum þegar þau eru að leggja af stað en um leið og þau taka að stækka og rannsóknar- og þróunarkostnaður verður umtalsverður rekast menn tiltölulega fljótlega á þökin. Annars vegar er um að ræða hlutfall, menn fá aldrei nema 20% og þá seinna 15% af kostnaðinum endurgreidd upp að tiltekinni fjárhæð sem er 100 eða 150 millj. kr. þegar um samstarfsverkefni er að ræða eða hvað það nú er.

Það er alveg ljóst að ef við viljum styðja við bakið á vaxandi nýsköpunarfyrirtækjum sem eru að ná svolítilli fótfestu og svolítilli stærð er eitt það besta sem við gætum gert að lyfta þessum fjárhæðarmörkum. Þá eltir þessi stuðningur fyrirtækin aðeins lengra upp á æviskeiði sínu. Þegar komið er upp í mjög stór fyrirtæki sem eru með milljarðakostnað í rannsóknir og þróun telur þetta auðvitað lítið þó að muni aðeins um það, en millistóru sprotafyrirtækin benda réttilega á þetta. Það dofnar yfir þessum stuðningi eftir því sem þau komast á legg og fara að ástunda meiri rannsóknir og leggja meira í nýsköpun og þróun.

Ég held að það geti varla orðið svo að menn verði í þvílíkum vandræðum að berja saman fjárlagafrumvarp fyrir árið 2015 að það muni muna einhverjum ósköpum, áætlaðar 300 millj. kr. sem þarna kæmu til sparnaðar með þessu. Mér finnst eiginlega dapurlegt að sjá menn fara aftur á bak í hlutum af þessu tagi sem hafa mælst mjög vel fyrir, er almenn ánægja með og ég vona að hæstv. ráðherra geti staðfest það. Hæstv. iðnaðarráðherra hefur gert það opinberlega, talað um það í þessum ræðustóli og í fjölmiðlum að þetta sé eitt af því besta sem menn hafi gert. Það er þá eins og við höfum stundum leyft okkur að nefna ekki allt ómögulegt sem gert var á fyrra kjörtímabili. Ég get alveg staðfest að viðbrögðin við þessu voru mjög jákvæð. Ég á einhvers staðar í fórum mínum bréf frá litlum nýsköpunarfyrirtækjum sem beinlínis þökkuðu þessum stuðningi það að þau væru á lífi því það hefði munað þau öllu að fá stuðninginn og ekki bara sem slíkan heldur vegna þess að þetta var útgreiðsla, menn fengu fé í hendur til að mæta því sem þeir höfðu sjálfir lagt af mörkum í kostnað á þessu sviði.

Það er talað um að við séum í erfiðri samkeppni við útlönd um að missa sum þessara fyrirtækja frá okkur og það sem við viljum síst af öllu er að missa vaxtarsprotana sem eru að komast á legg með góðar hugmyndir, eru í fremstu röð á einhverjum sviðum í sambandi við innleiðingu nýrrar tækni eða lausna og horfa á eftir þeim úr landi. Eitt af því sem getur hjálpað til við að halda þeim hérna er samkeppnisfært umhverfi að þessu leyti. Þegar við settum lögin komumst við nokkurn veginn í fremstu röð að þessu leyti. Við teygðum okkur upp í að vera vel samkeppnisfær við þau lönd sem almennt eru með stuðningsfyrirkomulag af þessu tagi en það má ekki miklu muna. Af þessu áskil ég mér allan rétt til að fara fram á að við endurskoðum 17. gr. frumvarpsins sem að mínu mati má einfaldlega hverfa þaðan út.

Í sambandi við skráningargjöldin eru þau í sjálfu sér hugsuð sem skráningargjöld og til að mæta þeim kostnaði. Því miður höfðu menn trassað það eins og margt fleira að láta þau fylgja verðlagi. Þess vegna var að við réðumst í það fyrir tveimur árum að hækka þau þó nokkuð. Við fórum þó langt frá því alla leið vegna þess að það var viðkvæmt og er viðkvæmt að hækka í stórum skrefum kostnað stúdenta þegar þeir skrá sig í nám. Hér er gengið nokkuð langt verð ég að segja. Ég hefði talið að menn hefðu getað tekið þetta í tveimur skrefum, farið hálfa leið í fullt verðgildi miðað við kostnað eða upphaflegt verð.

XIV. kafli frumvarpsins er hins vegar með því dapurlegasta sem þar er á ferðinni. Þar er í raun og veru áformum um að byggja upp fæðingarorlofið stútað og lengingin í tólf mánuði í áföngum og rólegum skrefum tekin út eins og hún leggur sig, þar á meðal sú lenging sem átti að koma til framkvæmda á næsta ári upp á hálfan mánuð hjá hvoru foreldri um sig. Það er dapurlegt.

Sú var tíðin að við vorum öll ákaflega stolt af nýja fæðingarorlofsfyrirkomulaginu. Það þótti skólabókardæmi og var skoðað af öðrum þjóðum, ekki síst sjálfstæður réttur feðra sem hér kom nokkuð sterkur til sögunnar. Ágallinn var auðvitað sá að við vorum með styttra fæðingarorlof í heild en t.d. annars staðar á Norðurlöndunum. Þetta er eitt af því sem ungt fólk horfir á þegar það veltir fyrir sér hvar er best að búa og ala upp börn og þarna hallar á okkur. Þess vegna hefði verið ákaflega ánægjulegt ef við hefðum getað sameinast um að vera með í gangi einhverja áætlun um að taka lenginguna í rólegum skrefum á næstu árum en hún er slegin út. Það eru mér mikil vonbrigði.

Ég velti fyrir mér hvort það sé skynsamlegt að hækka þökin, ef það ætti að vera mótleikurinn að hækka þau í áföngum á næstu árum þannig að fæðingarorlofið sé ríkulegra miðað við laun — menn þekkja rökin um að það sé nauðsynlegt ekki síst til að feður taki fæðingarorlof að þau lækki ekki of mikið frá launum — en sætta sig í staðinn við að við hjökkum föst í níu mánaða fæðingarorlofi sem er of stutt. Við þurfum að koma því upp í ár. Það tengist því sem ég nefndi reyndar í umræðum fyrr í dag að við erum með mjög vandræðalegt gat á milli fæðingarorlofsins og leikskólans sem veldur foreldrum erfiðleikum að brúa og er óhagstætt út frá vinnumarkaðslegu tilliti og af fleiri ástæðum.

Ég skil það út af fyrir sig að hæstv. fjármálaráðherra telji sig geta „halverað“ tekjustofn Fæðingarorlofssjóðs ef ekki standa til neinar úrbætur í fæðingarorlofinu á næstu árum og éta upp innstæðuna ef hún er einhver orðin, sem kom fram í svari hæstv. ráðherra í lok síðustu umræðu. En ég hefði frekar viljað að við nýttum þá fjármuni til að komast eitthvað áfram í þessum efnum.

Kirkjan nýtur hins vegar samúðar ríkisstjórnarinnar og fær nokkra úrlausn, ekkert skal ég draga úr því að hún hefur þurft að sætta sig við að þrengja talsvert að sér eins og allir aðrir og nema hvað. Það urðu allir að leggja sitt af mörkum og er enginn undanskilinn. Hér er hins vegar núna verið að skila inn til kirkjunnar.

Að lokum vil ég taka fram um XIX. kafla frumvarpsins um að afnema verðjöfnunar- eða verðmiðlunarkerfið að ég er sammála því og ég held að engin eftirsjá sé af því að það hverfi. Það var hvort tveggja í undirbúningi að taka þetta út sem og að leggja niður fóðursjóð sem er í öðrum stað í þessum pakka hæstv. ráðherra þannig að ég er sammála því og styð það.