143. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[18:27]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil nota tækifærið, þegar komið er að lokum þessarar umræðu, og þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir skýr og greinargóð svör jafnvel þó að þau hafi ekki komið sér mjög vel fyrir hann eða hæstv. ríkisstjórn í þeirri vegferð sem hann heldur í núna og við höfum gert að umtalsefni. Ég ætla ekki að lengja það mál frekar í stuttu andsvari mínu.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur fært niður hagvaxtarspá fyrir heiminn, alveg sama hvort það er Evrópa eða Bandaríkin eða nýmarkaðsríkin, og hefur sagt að verulega sé að hægja á hagvexti og að hagkerfi heimsins verði lengur að ná sér á strik en gert hefur verið ráð fyrir. Þannig er til dæmis aðeins spáð 2,9% hagvexti á heimsvísu árið 2013.

Hér hjá okkur á Íslandi, eins og ég segi í verðbólguþjóðfélaginu Íslandi, er verið að leggja fram fjárlög sem mér skilst að byggi á hagvexti upp á 2,7%. Við vitum af hverju hagvöxtur á Íslandi hefur verið drifinn undanfarin ár, hann hefur að megninu til verið drifinn áfram af einkaneyslu. Það jók hagvöxt að sjálfsögðu og ráðstöfunartekjur heimilanna að heimilað var að taka út séreignarsparnað, það stórjók meira að segja tekjur sveitarfélaga.

Mín spurning til fjármálaráðherra hér í stuttu andsvari er þessi: Hvað breytist mikið? Hefur fjármála- og efnahagsráðuneytið spáð í hvað gerist ef við náum ekki 2,7% hagvexti á næsta ári, eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu, og í tekjuöflunarfrumvörpum og öllu því sem hér er, ef hann fer til dæmis niður í 1% eins og einhverjir settu fram núna nýlega? Því miður man ég ekki hvar ég las þetta en það skiptir ekki máli. Þá kann nú að breytast ansi mikið og þá spyr ég hæstv. fjármálaráðherra: Hvað gerist þá með fyrsta fjárlagafrumvarp nýrrar ríkisstjórnar?