143. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[18:32]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir þessa vangaveltu um hagvöxt sem hann setur hér fram. Ég ætla rétt að vona að spá Seðlabankans gangi eftir og að sú svartsýnisspá sem einhver setti fram geri það ekki. Víst er það rétt varðandi ýmsar fjárfestingar sem við sjáum en það eru aðrar fjárfestingar sem við söknum, eins og t.d. framkvæmdir við álver í Helguvík sem maður er orðinn frekar óþreyjufullur eftir og kann verð á áli á heimsmörkuðum að hafa þar áhrif.

Það sem hefur kannski einna mest áhrif á okkur, vegna þess hve innflutningsþörfin í landið er mikil og vegna þessa veika gjaldmiðils sem við höfum — við sjáum það t.d. eftir þetta sumar að sá ofboðslegi fjöldi ferðamanna sem kom til landsins hafði það ekki þau styrkingaráhrif á krónuna sem við gerðum okkur vonir um eins og gerðist t.d. í fyrra. Þá kemur tog á móti, það þarf ekki nema stóra afborgun hjá Orkuveitu Reykjavíkur eða hjá sveitarfélögunum eða ríkissjóði, þá vantar fé og gengið heldur áfram lækka. 173–175 kr. á evrunni í dag eftir þennan mikla ferðamannastraum sem verið hefur í sumar er allt annað en var í fyrra. Það hefur mjög slæm áhrif á verðbólgu hér á Íslandi vegna þess hvað við erum háð innflutningi. Og bara við það að fara í allar þær miklu framkvæmdir sem vonandi verða, sama hvort það er hótelbygging eða bygging álversins í Helguvík eða hvað við nefnum hér, þá þýðir aukinn innflutningur að gjaldmiðillinn fellur og lækkar. Þá hefur það þessi áhrif á verðbólgu. Þar af leiðandi kemur það inn í alla þessa hringiðu vegna þess að það sem þó náðist hjá síðustu ríkisstjórn með 5,6% verðbólgu á fyrstu átta mánuðum í fyrra versus það að vera núna 3,9% er árangur sem ekki er mikið rætt um en er rétt að hafa í huga. En þessi atriði öll eru í raun stórhættuleg (Forseti hringir.) í þessu brothætta efnahagskerfi sem við höfum sem m.a. leiðir af flöktandi gjaldmiðli sem sveiflast eins og korktappi.