143. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[18:34]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður nefnir hér nokkur af stóru atriðunum í efnahagslífinu hjá okkur sem geta skipt sköpum um lífskjörin til skamms og langs tíma. Það er alveg rétt sem mér fannst vera hægt að lesa úr orðum hans að vöru- og viðskiptajöfnuðurinn er allur í járnum, það er rétt svo að við eigum fyrir nauðsynlegum afborgunum af erlendum lánum, ekkert mikið svigrúm til þess að taka á sig viðbótarskuldbindingar. Það er gríðarlega mikið undir því komið að það takist að endurfjármagna stór lán eins og t.d. hjá Landsbankanum til þess að ekki verði óþægilega mikill þrýstingur á gengi krónunnar. Seðlabankinn hefur reyndar rakið fyrir allnokkru síðan í Peningamálum að það væri stærsta einstaka ógnin til skamms tíma við stöðugt gengi ef það þyrfti að safna þetta miklum gjaldeyri til að standa í skilum.

Þetta tengir auðvitað inn á umræðuna um þrotabúin og möguleikann á uppgjöri þeirra en sama hvernig þeir hlutir veltast allir sjáum við í hendi okkar að við eigum gríðarlega mikið undir því að útflutningsatvinnuvegirnir eflist, að okkur takist að styrkja og styðja við greinar sem eiga framtíðina fyrir sér. Við þurfum að fjölga stoðunum í atvinnulífinu og í hagkerfinu almennt. Þar hafa, í fjárlagaumræðunni, oftlega verið nefnd til sögunnar fyrirtæki sem geta vaxið inn á nýja markaði og það eru að opnast nýir markaðir hingað og þangað. Ég vænti þess að á haustmánuðum ræðum við t.d. fríverslunarsamning við Kína og þar komi fram heildarsamhengið við þær breytingar sem eru að eiga sér stað í efnahagskerfum heimsins. Vonandi felast í því einhver tækifæri fyrir okkur til þess að auka útflutningstekjurnar. (Forseti hringir.) Það leiðir allt saman beint inn í lífskjörin þegar útflutningstekjur dragast saman eða þegar þær eru í vexti.

Ég vil þakka fyrir þessa umræðu hérna í blálokin og óska eftir góðu samstarfi.