143. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2013.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2014.

3. mál
[18:43]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við ákváðum við þessa framsetningu málsins að taka eingöngu ákvörðun núna eitt ár fram í tímann varðandi Fæðingarorlofssjóð. Að sjálfsögðu kom til álita að gera lengri tíma áætlun um það hvernig við mundum fara með annaðhvort lengd orlofsins eða fjárhæðarmörkin. En það er einfaldlega svo að óvissan er það mikil um hvernig slíkt yrði fjármagnað að okkur fannst ekki tímabært að gera það. En það má vel koma fram hér í umræðunni að stefnan er á að gera hvort tveggja, þ.e. hækka fjárhæðarmörkin og að lengja fæðingarorlofstímann.

Varðandi legugjöldin vil ég ekki skilja við umræðuna þannig að menn telji að ég líti svo á að það eigi að vera sjálfgefið að fella út þær sértekjur fyrir sjúkrahúsið. Mér finnst hins vegar eina leiðin til að nálgast þessa umræðu að taka hana í víðara samhengi og benda á hversu mikil greiðsluþátttaka sjúklinga er víðs vegar í kerfinu. Það er gríðarlega mikil rangtúlkun á þessu gjaldi þegar sagt er að með því séu innleiddir sjúklingaskattar vegna þess að hlutfall af heildarkostnaði í heilbrigðiskerfinu sem sjúklingar bera hefur farið vaxandi undanfarin ár.

Margir hverjir hafa undanfarna daga lagt fram dæmi úr eigin reynsluheimi þar sem fram kemur að menn greiði tugi þúsunda árlega í lækniskostnað, í lyfjakostnað, í ýmiss konar heimsóknir og komugjöld. Af þeim ástæðum er nú verið í heilbrigðisráðuneytinu að vinna að úttekt og endurgerð reglna um greiðsluþátttöku sjúklinga þar sem allt þetta verður undir.