143. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2013.

stimpilgjald.

4. mál
[19:04]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst varðandi þá sem eiga nú sín fyrstu fasteignaviðskipti þá voru lánsskjöl vegna slíkra viðskipta undanþegin stimpilgjaldi. Það hefur þess vegna mjög takmörkuð áhrif fyrir þann hóp að fella þau almennt niður. Hins vegar vil ég segja varðandi Íbúðalánasjóð að áhrifin hafa ekki verið metin sérstaklega fyrir Íbúðalánasjóð og maður spyr sig hvort þetta gjald eitt og sér muni valda aukinni uppgreiðslukröfu hjá sjóðnum. Það ræðst nú væntanlega fyrst og fremst af almennum viðskiptakjörum og síðan því hvort viðkomandi hefur yfir höfuð uppgreiðsluheimild hjá sjóðnum. Svo hefur sjóðurinn verið með sérstaka gjaldtöku yfir ákveðið tímabil á útgefnum bréfum þegar óskað er eftir uppgreiðslu skuldar, þannig að það hefur ekki verið sérstaklega metið. En að því marki sem slík áhrif kynnu að vera neikvæð fyrir sjóðinn þá mundu þau vegast á við hið almenna markmið laganna að auka samkeppni með lán á fasteignamarkaði. Það markmið eitt og sér með lagasetningunni tel ég vera gríðarlega mikilvægt.