143. löggjafarþing — 6. fundur,  9. okt. 2013.

störf þingsins.

[15:29]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla að deila með ykkur áhyggjum mínum af því hvert þetta land stefnir, ekki bara á þessu kjörtímabili heldur á lengri vegferð. Mér finnst að við séum farin að ganga að því sem gefnum hlut að þetta land eigi til frambúðar að vera láglaunaland. Hér gerðist það í þingsal á haustdögum að talið var mjög eðlilegt að nota gengisfellingar, þ.e. íslensku krónuna og lágt gengi hennar, sem samkeppnistæki til að laða hingað ferðamenn. Heilbrigðisráðherra telur að Ísland sé ekki lengur samkeppnishæft við önnur lönd um vinnuafl. Það er einungis birtingarmynd á því að íslenskur vinnumarkaður er líklega orðinn að láglaunamarkaði.

Hér er ég búinn að hlusta á nokkrar hugnæmar ræður um þá gífurlegu möguleika sem kunna að vera í sauðfjárbúskap án þess að það séu nokkrar hömlur á því að hleypa þeim framförum í gegn. Eitt gladdi mig þó í öllu saman, það var þegar hv. þm. Árni Páll Árnason sagði frá því að ekki væri hægt að flytja út skyr á Evrópumarkað. Í hvert skipti sem ég heyri að við þurfum ekki að niðurgreiða mat í aðrar þjóðir sem eru vel megandi þá gleðst ég.

Ég bið þingmenn að huga að því hvort landið sé virkilega orðið láglaunaland og hvort framtíðarþjóðsöngurinn verði eins og Halldór Kiljan Laxness orti í ljóði sínu:

Það eru erfiðir tímar,

það er atvinnuþref,

ég hef ekkert að bjóða,

ekki ögn sem ég gef,

nema von mína og líf mitt

Herra forseti. Ég leyfi mér að lesa þetta. (Gripið fram í: Áfram!) [Hlátur í þingsal.] Ég lýk máli mínu.