143. löggjafarþing — 6. fundur,  9. okt. 2013.

störf þingsins.

[15:34]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Tími gefst til að ræða betur um málefni Landspítalans hér í sérstakri umræðu næst á eftir þessum dagskrárlið. Ég get þó ekki sleppt því að taka strax undir með hv. þm. Brynjari Níelssyni, þ.e. ræðuna sem hann flutti hér áðan. Ég get sagt það eitt að ég er alveg viss um að stjórnarandstaðan styður öll þær tillögur sem hann færir hér fram og ég hvet hann til að beita sér fyrir að þessar tillögur verði fluttar. Meira um það á eftir.

Virðulegi forseti. Ástæða þess að ég kem hingað upp í sérstakri umræðu er sú að í umræðu í gær um tekjuöflunarfrumvarp ríkisstjórnarinnar sagði hæstv. fjármálaráðherra að ráðstöfunartekjur heimilanna mundu aukast um 5 milljarða kr. vegna 0,8% skattalækkunar í miðskattþrepinu. Það væri gott ef svo væri. En í næsta frumvarpi þar á eftir, sem hann flutti, komu fram frá fjárlagaskrifstofu skattahækkanir upp á að minnsta kosti 3 milljarða. Við frekari lestur frumvarpsins fer ég að nálgast aftur þessa 5 milljarða sem voru boðaðir í skattalækkuninni á miðskattþrepinu.

Virðulegur forseti. Það er því kannski eðlilegt að hæstv. fjármálaráðherra hafi ekki beðið um, eins og oft gerist, að þessi tvö frumvörp yrðu flutt saman og rædd samtímis. Þarna ætluðu menn sér að skauta fram hjá þessu frumvarpi, sem ég óska framsóknarmönnum og sjálfstæðismönnum til hamingju með. Ég held að hv. þm. Össur Skarphéðinsson hafi lagt það á sig að telja að 73 skattahækkanir hafi verið boðaðar í þessu frumvarpi.

Ég minnist þess á síðasta kjörtímabili að framsóknarmenn og sjálfstæðismenn höfðu hæst um þær hækkanir sem nú eru boðaðar, þ.e. þegar síðasta ríkisstjórn gerði það. En það heyrðist ekkert í þeim í gær. Virðulegi forseti, ég vil vekja athygli á því að þessi ímyndaða (Forseti hringir.) 5 milljarða kr. skattalækkun á aukningu ráðstöfunartekna heimilanna er horfin í (Forseti hringir.) frumvarpinu sem mælt var fyrir tíu mínútum eftir fyrri framsöguræðu hans.