143. löggjafarþing — 6. fundur,  9. okt. 2013.

staða Landspítalans.

[15:41]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. málshefjanda fyrir að taka þetta brýna og mikla mál til umræðu hér. Það var sjálfsagt að verða við þeim óskum að eiga orðastað við hv. þingmann um málefni Landspítalans.

Það liggur fyrir, af því að hér er spurt um áform varðandi nýbyggingar, að engin breyting hefur verið gerð á þeim áformum sem sett voru af stað með lagasetningunni í fyrravor. Ég vek athygli þingheims á því að þau lög tóku gildi fyrir réttum mánuði. Þau voru tímasett þannig að þau tækju gildi 1. september sl. og það er ekki langur tími síðan sem gefist hefur til að vinna í þeim efnum. Einnig er ástæða til að vekja athygli á einhverri allra ítarlegustu umsögn fjárlagaskrifstofu fjármála- og efnahagsráðuneytisins sem fylgt hefur nokkru frumvarpi þegar þau lög voru samþykkt síðasta vor.

Þar sagði að um yrði að ræða langstærsta fjárfestingarverkefni sem hið opinbera hefði nokkurn tímann ráðist í og að einnig væri ljóst að það gæti líka haft afgerandi áhrif á þróun rekstrarkostnaðar við heilbrigðiskerfið.

Áfram segir:

„Slík áform kalla á að fram fari vönduð greiningarvinna af hálfu stjórnvalda í tengslum við viðeigandi stefnumörkun en ekki einungis út frá sjónarhóli þeirra sem mundu starfa í nýjum húsakosti eða annast um byggingu hans. Ljóst er að verkefni af þessari stærðargráðu rúmast ekki innan núverandi ríkisfjármálaáætlunar, hvorki til skemmri tíma litið hvað varðar markmið um að ná afgangi á heildarafkomu ríkissjóðs né til lengri tíma litið …“

Þetta var álit manna síðasta vor og þá var verið að gera grundvallarbreytingu á því verkefni sem áður hafði verið samþykkt 2010 þar sem gert var ráð fyrir því að allar byggingarframkvæmdir, hver og ein einasta, færi fram eftir því sem kallað var samstarfsverkefni, ekki einkafjármögnun. Síðasta vor var stóra verkefninu, sem er meðferðarkjarninn, aftur á móti breytt og áskilið að það færi að lögum um opinberar framkvæmdir. Ég skal viðurkenna það heils hugar að ekki hefur unnist langur tími til að vinna með þetta mál síðan. En þó hef ég átt viðræður við formann byggingarnefndar nýja Landspítalans og hef staðið í viðræðum við aðra stjórnarmenn þar um það að þetta mál þurfi að útfæra og er kallað eftir hugmyndum í þá veru að fela stjórninni að stilla upp sundurliðuðum möguleikum á framkvæmdinni bæði varðandi aðalbygginguna og ekki síður varðandi smærri þætti í þessu verki. Ég vek athygli á því við hv. þingheim að gerð var grundvallarbreyting á atriðum sem snúa að fjármögnun þessa mikilvæga verkefnis fyrir örfáum mánuðum. Það er eðlilegt að áskilja sér hæfilegan og tiltekinn frest til að bregðast við því.

Það sem spurt er hér um í fyrirspurn hv. málshefjanda, að ekki liggi fyrir skilningur á þörf fyrir byggingu og endurnýjun húsakosts Landspítalans, er ekki rétt. Ég tel að sá skilningur liggi tvímælalaust fyrir og er fullur vilji til að mæta þessu með viðeigandi hætti. Hér er líka spurt hvernig hægt sé að tryggja fjármuni til tækja- og búnaðarkaupa. Það liggur fyrir yfirlýsing frá þeim sem hér stendur, ásamt fjármálaráðherra, um að lögð verði fyrir tímasett áætlun til fjögurra ára um tækja- og búnaðarkaup fyrir Landspítalann. Sú fjárveiting sem vitnað er til, þessar 600 milljónir, var tímabundin. Hún kom inn við 2. umr. fjárlagagerðar fyrir árið 2013 þannig að það er ekkert nýtt í því. Ég vil undirstrika að ekkert samkomulag hefur borið fyrir mín augu milli heilbrigðisráðuneytisins og Landspítalans um frekari fjármögnun. Það er yfirlýsing og þær eru af mörgum toga sem liggja fyrir í velferðarráðuneytinu og það má telja í milljörðum þær yfirlýsingar sem gefnar voru um fjárútlát og stendur upp á okkur að efna með einhverjum hætti, en engin fjármögnun liggur fyrir í þeim efnum. Þær voru flestar undirritaðar undir lok apríl á þessu ári.

Ég hef ekki átt annað en gott samstarf við formann fjárlaganefndar, veit af fullum vilja þess hv. þingmanns til að mæta þeim óskum um (Forseti hringir.) fjárveitingar sem kallað er eftir við Landspítalann. Ég ítreka enn og aftur (Forseti hringir.) að ég hvet þingheim allan til að standa (Forseti hringir.) með Landspítalanum í þeim verkefnum sem fram undan eru varðandi fjárlagagerðina.