143. löggjafarþing — 6. fundur,  9. okt. 2013.

staða Landspítalans.

[15:52]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ástandið er grafalvarlegt hjá okkur, við gerum okkur öll grein fyrir því, en það er ekki nýtilkomið, það hefur verið viðvarandi niðurskurður frá því á níunda áratug síðustu aldar. Skorið hefur verið niður í heilbrigðiskerfinu og það kemur niður á því öllu.

Samkvæmt upplýsingum sem við fengum á fundi velferðarnefndar í morgun með stjórnendum Landspítalans mun á næsta ári vanta 3 milljarða til reksturs og uppbyggingar Landspítalans ef vel á að vera. Á sama fundi kom einnig skýrt fram að stjórnendur eru lausnamiðaðir og vilja hugsa verkefnin í áföngum og það held ég að sé vinkill sem við þurfum að horfa á.

Ég held að við ættum líka aðeins að breyta umræðunni, við eigum að hætta að tala um nýtt hátæknisjúkrahús, við eigum að tala um eðlilegt viðhald á gömlum húsum, við eigum að tala um hátæknideild við Landspítalann. Landspítalinn er hjartað í heilbrigðisþjónustu okkar en um leið og við tökum hann í gegn þurfum við að horfa á heilbrigðisþjónustuna um allt land. Hún á að styðja Landspítalann og þetta á allt að vinna saman. Ef við ætlum að finna leiðir til hagræðingar á Landspítalanum þurfum við líka að finna leiðir til hagræðingar úti um landið.

Núna eru 40–50 rými upptekin af einstaklingum sem ekki er hægt að koma fyrir annars staðar, sem gætu hæglega verið í ódýrari rýmum og nýtt ódýrari lausnir, en á móti koma veikustu einstaklingarnir inn og þurfa jafnvel að liggja á göngunum. Þetta er ótækt ástand og ég held að við séum öll sammála um það.

Þess vegna fagna ég því núna að komin er fram tillaga til þingsályktunar um heilbrigðisáætlun til ársins 2020. Þar vona ég að við berum gæfu til að taka heildstætt á málunum og vinna að þessu þarfa máli saman og byggjum upp heilbrigðisþjónustuna um allt land.