143. löggjafarþing — 6. fundur,  9. okt. 2013.

staða Landspítalans.

[16:04]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Allt síðasta kjörtímabil var skorið niður til heilbrigðismála. Við í þingflokki Framsóknarflokksins lýstum yfir áhyggjum okkar og töldum að of langt væri gengið. Ég get tekið undir með þeim sem hafa áhyggjur af þessum málaflokki. Við í meiri hlutanum munum að sjálfsögðu reyna allar leiðir til þess að auka framlög til heilbrigðismála.

Eitt af því sem síðustu ríkisstjórn mistókst svo hrapallega var að ná hinum svokallaða hallalausa rekstri ríkissjóðs og ná jöfnuði í ríkisfjármálum. Síðasta ríkisstjórn setti sér háleit markmið um að auka hagvöxt og minnka verðbólgu. Hún var eins langt frá þeim markmiðum og hugsast gat. Hver er staðan? Jú, við sitjum uppi með 90 milljarða vaxtakostnað á hverju einasta ári sem hefði svo sannarlega verið hægt að nota í heilbrigðiskerfið. Þar liggur hundurinn grafinn.

Ég skil ekki þá sem koma hér fram og segja, algjörlega ábyrgðarlaust, að fara eigi í uppbyggingu, byggingu á Landspítalanum, fyrir um 90 milljarða án þess að fyrir liggi hvaðan þeir fjármunir eigi að koma

Ég bendi á það sem hæstv. heilbrigðisráðherra sagði rétt áðan að það hefði komið álit frá fjármálaskrifstofu fjármálaráðuneytisins sem var undir stjórn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs þar sem bent var á að ef yrði farið í þessa framkvæmd yrði ekki hægt að fara í aðrar fyrirhugaðar framkvæmdir hringinn í kringum landið. Vaxtakostnaður mundi aukast en ekki lækka með tilheyrandi skaða fyrir velferðarkerfið okkar og það þyrfti að fara í aukna skattheimtu.

Við verðum að horfa á þessi mál af fyllstu ábyrgð. Þetta tengist, árangur í heilbrigðismálum og uppbyggingu þess og það að ná hallalausum fjárlögum til að ná niður vaxtakostnaði (Forseti hringir.) íslenska ríkisins. (Gripið fram í: Strax.)