143. löggjafarþing — 6. fundur,  9. okt. 2013.

staða Landspítalans.

[16:07]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra og hv. þingmönnum fyrir umræðurnar og tel rétt að ítreka aðeins nokkrar af spurningum mínum.

Fyrst vil ég minna stjórnarþingmenn á háttstemmd loforð í kosningabaráttunni um forgangsröðun í þágu heilbrigðismála. Hennar sér ekki stað í fjárlagafrumvarpinu. Með þessum loforðum voru skapaðar væntingar. Síðan sýnir sig að efndirnar eru ekki eins og til stóð og það veldur enn meira vonleysi í heilbrigðiskerfinu. Þau stjórnvöld sem nú hafa tekið við virðast ekki geta staðið við orð sín. Margt í umræðunni í dag bendir til þess að á því verði breyting. Fagna ég því.

Ég er ánægð að ráðherra hæstv. ráðherra hefur átt í samtölum við stjórnina um nýjan Landspítala en ég óska eftir því að hann komi með dagsetningu. Hvenær ætlast hann til þess að honum verið skilað slíkri áætlun? Hvenær fáum við að sjá hvaða áætlanir eru uppi um þessi mál?

Ég saknaði þess í máli ráðherra að heyra hann ekki tala um K-bygginguna, hvort hann ætli að vinna að því með stjórnendum sjúkrahússins að hún geti risið og hvernig eigi að taka á halla yfirstandandi árs og tryggja nauðsynlega fjármuni á næsta ári. Ég tel rétt að árétta það í þessari umræðu að að lágmarki þarf árlega 3 milljarða. Það þarf 3 milljarða á næsta ári í sjúkrahúsið og það þarf 3 milljarða árlega héðan í frá.