143. löggjafarþing — 6. fundur,  9. okt. 2013.

geislavarnir.

23. mál
[16:15]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Eins og hæstv. ráðherra sagði er hér um að ræða mjög gagnmerkt þingmál. Ég sakna þess að þegar tímamótamál á sínu sviði er lagt fyrir þingið skuli hæstv. ráðherra sem er málsnjall og glöggur ekki fara dýpra í ýmislegt sem er mjög merkilegt í þessu frumvarpi.

Hins vegar vil ég segja það strax í upphafi minnar stuttu ræðu að ég kem hér aðallega til þess að hrósa þessu frumvarpi fyrir tvennt. Í fyrsta lagi tekur það á sviði sem liggur í láginni og fáir gera sér grein fyrir að er mjög mikilvægt. Þessi stefnumörkun hérna er mjög góð. Þetta er framsýnt frumvarp að mörgu leyti. Það sem er sérstaklega eftirtektarvert við það er hversu vel það er skrifað. Það er ekki oft sem maður les frumvörp sem eru jafn tær og skrifuð á jafn góðu máli og þetta. Ég verð að hryggja hæstv. ráðherra með því að frumvarpið sem hann mælir fyrir á eftir, um sjúkraskrár, er því miður af allt öðrum toga, þ.e. miklu illskiljanlegra en þetta sem er tært og hreint. Ég tel til dæmis, af því að menn eru með samkeppni í gangi um fegursta orð íslenskrar tungu, að kandídat til þess sé að finna í þessu frumvarpi, hið fallega orð geislalind.

Að hrósi mínu slepptu fagna ég því til dæmis að í þessu frumvarpi er í fyrsta skipti hugað að þeirri hættu sem segja má að stafi með náttúrulegum hætti sums staðar að fólki, þ.e. í náttúrunni er að finna geislavirk efni. Við þekkjum það, a.m.k. þau sem hafa komið að þessu fyrr, að efni eins og radon sem verður til við hrörnun úrans sem er alltaf að finna í berggrunni — þetta er það sem við lærðum í eðlisfræðinni í gamla daga — heitir eðalgas, hvarfast ekki við neitt og smýgur þess vegna upp. Þetta er stórhættulegt efni, sérstaklega hættulegt þeim sem reykja. Að því leytinu til er betra að nota reyklaust tóbak ef menn vilja vera algjörlega óhultir með það. Þarna er sem sagt tekið í fyrsta skipti tillit til þessa.

Ég tek eftir því að í 12. gr. er mælt fyrir um að gripið skuli til viðeigandi aðgerða til að verja fólk gegn slíkri geislun.

Spurning mín til hæstv. ráðherra er þessi:

Þýðir greinin, þá sérstaklega c-liður hennar vegna þess að það er ekki skýrt í greinargerðinni, að hæstv. ráðherra mun í fyrsta skipti stíga það skref að setja sérstök mörk í reglugerð um það hversu mikil slík náttúruleg geislun megi vera?

Af því að ég sé þögul fagnaðarlæti í salnum er það að vísu svo að við höfum enga sérstaka ástæðu til þess að vera hrædd um okkar hag. Ísland er jarðfræðilega þannig gert að landið er á basaltgrunni og þar er mikið minna af úrani og fóríni sem líka verður að radoni með tímanum.

Verður sett reglugerð um þetta? Hverjar eru hinar viðeigandi ráðstafanir sem menn ætla að grípa til ef styrkur fer yfir þau mörk?

Að síðustu, herra forseti, ætla ég líka að hrósa þessu frumvarpi fyrir það að hér er gert ráð fyrir því að settar verði upp viðbúnaðaráætlanir við geislaslysum. Menn brosa kannski að því. Við búum á Íslandi og teljum engar hættur á slíku en mér hefur sem handhafa framkvæmdarvalds í fortíðinni orðið nokkuð ljós sú skylda sem hvílir á handhöfum framkvæmdarvaldsins, þeir eiga að gera ráð fyrir því sem engum kemur til hugar að geti gerst. Það vill svo til að Íslendingar hafa stundum haft framsýni til þess og það hefur komið sér vel.