143. löggjafarþing — 6. fundur,  9. okt. 2013.

sjúkraskrár.

24. mál
[16:24]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er meira með fyrirspurn en beinlínis andsvar. Ég velti fyrir 5. gr. Nú hef ég verið einn af þeim tæknimönnum í um 14 ár sem sinna alls kyns uppfærslum, sérstaklega á ýmiss konar hugbúnaði. Ég velti fyrir mér hvort þetta teljist nóg til að tryggja að tæknimenn hafi ekki óþarfan aðgang. Ég skil þetta mætavel, maður þarf oft aðgang að gögnum, það er hluti af starfinu, en það hefur í gegnum tíðina verið borin frekar lítil virðing fyrir þeirri staðreynd að tæknimenn hafa almennt gríðarlegan aðgang. Í gamla daga gengum við í bol sem á stóð, með leyfi forseta: „I read your email“ — á íslensku: Ég les póstinn þinn. Það er vegna þess að margir tæknimenn geta það. Þetta er hvimleitt vandamál sem hefur komið með tækniþróuninni.

Ég sé að í frumvarpinu stendur, með leyfi forseta, að umsjónaraðila sjúkraskrár sé heimilt „að veita starfsmönnum sem vinna að þjónustu við tölvu- og upplýsingakerfi nauðsynlegan aðgang að sjúkraskrárkerfum í þeim tilgangi að sinna vinnslu, uppfærslu og viðhaldi kerfisins“.

Gott og blessað. Ég velti fyrir mér hvort það hafi verið rætt, hvort það standi til eða komi til greina að setja inn smá aukaklausu sem væri eitthvað á þá leið að meta skuli sérstaklega hvaða aðgang að gögnum tæknimenn þurfa raunverulega. Yfirleitt er hægt að vinna þessa vinnu án þess að hafa gögnin sjálf. Yfirleitt dugar að hafa bara einhver dæmagögn, gervigögn sem líkja eftir alvörugögnum. Ég velti fyrir mér afstöðu hæstv. ráðherra til slíkrar breytingar.