143. löggjafarþing — 6. fundur,  9. okt. 2013.

sjúkraskrár.

24. mál
[16:39]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það háttaði svo til við umræður um fyrra málið að ekki voru margir á mælendaskrá, einungis einn hv. þingmaður, Össur Skarphéðinsson, sem fór slíku hóli um það frumvarp að ég skal viðurkenna fyrir hinu háa Alþingi að ég varð algjörlega agndofa yfir þeim orðaflaumi sem var svo ríkur af gleði og ánægju með texta frumvarpsins. Mér varð orða vant og sé ástæðu … (ÖS: Verðskuldað lof.) Verðskuldað lof, segir hv. þingmaður. Ég þakka hólið. Ég tek undir að það er á góðu máli. Vissulega eru atriði þar inni sem mega örugglega betur fara og má styrkja eins og komið hefur komið fram í umræðunni.

Varðandi frumvarpið sem hér liggur fyrir tek ég undir með hv. þingmanni, og þakka honum hans málefnalegu og góðu ræðu, virkilega góð ræða, varðandi orðalagið „mæli ríkar ástæður“. Það er matskennt orðalag. Við eigum að reyna að forðast það sem mest. Þetta er hins vegar samhljóða ákvæði sem er í gildandi lagatexta, en að sjálfsögðu réttlætir það ekki að ekki sé hægt að ræða breytingar á því. Ég tek undir að full ástæða er til þess að reyna að skýra það og hugsanlega þrengja.

Þar sem ég heyri að hv. þingmaður hefur verulegar áhyggjur af því að aðstandendur hans komist í sjúkraskrár hans þegar svo háttar til er undirstrikað í því ákvæði sem um ræðir í 3. gr. að verið er að draga fram það atriði að vilji hins látna verði einnig að ráða í þeim efnum.

Ég hef þann skilning að fremur sé verið að reyna að þrengja ákvæðið frá núgildandi lögum, en það kann vel að vera að það þurfi að hnykkja betur á því eins og sagt er og þá efast ég ekki um að við munum fá fram þær athugasemdir (Forseti hringir.) og þær breytingar hjá þinginu í meðförum á frumvarpinu sem um ræðir.