143. löggjafarþing — 6. fundur,  9. okt. 2013.

leikskóli að loknu fæðingarorlofi.

6. mál
[17:03]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég hef áhuga á að leggja aðeins orð í belg um þessa ágætu tillögu sem ég tel vera og við flytjum þingmenn Vinstri grænna. Hér er mjög mikilvægt fjölskyldu- og vinnumarkaðsmál á ferð sem varðar samfélagið miklu og í raun má tengja inn á það mjög mörg af þeim viðfangsefnum sem við erum að fást við og snúa að högum fjölskyldnanna í landinu, einkum yngra fólksins sem er að eignast og ala upp börn. Þetta tengist auðvitað því umhverfi sem við viljum búa uppvaxandi kynslóðum í landinu. Þetta hefur tengingu í samkeppnisstöðu Íslands, að við getum búið hér til heilnæmt, öruggt og þroskandi umhverfi fyrir unga og upprennandi Íslendinga og er eitt af því sem hefur umtalsverð áhrif á það hvar fólk velur sér búsetu og er sátt við að búa sér sitt framtíðarlíf.

Það sýna meðal annars rannsóknir, sem gerðar hafa verið bæði hér á landi og annars staðar, að öfugt við það sem ýmsir skyldu ætla þá eru það ekki í fyrsta sæti launin sem fólk horfir á þegar þessir hlutir eru til skoðunar hjá fjölskyldunum og það er ekki endilega spurningin um að búa í stórri borg með allri þeirri þjónustu og lystisemdum sem þar er að hafa. Það getur alveg eins verið að búa í góðu samfélagi, ekkert endilega mjög fjölmennu eða stóru, sem stendur vel að hlutum sem varða hið daglega líf fjölskyldnanna mest. Þetta hafa til að mynda Danir stúderað nokkuð og rannsakað og ég man eftir því að fyrir allmörgum árum komst ég í pappíra sem fyrirtækið Bang og Olufsen gerði opinbera þegar þeir voru að velta því fyrir sér hvar þeir ættu að staðsetja tiltekna hluta starfsemi sinnar, og gott ef ekki höfuðstöðvar. Ýmsum kom á óvart að fyrirtækið valdi að byggja upp stóran hluta starfseminnar á Jótlandi en ekki í Kaupmannahöfn eða á Sjálandi.

Niðurstaðan var sem sagt sú að menn höfðu lagst í nokkrar greiningar og rannsóknir á því hvar ungt og hæfileikaríkt fólk væri tilbúið til að setja sig niður, hvar það vildi búa, hvað það væri sem skipti það mestu máli. Það kom á óvart að það var ekki síst fjölskylduvænt umhverfi, gott umhverfi fyrir börn, öruggt, heilnæmt og þroskandi, og gjarnan var hægt að búa vel um þá hluti þó annars staðar væri en í Stór-Kaupmannahöfn. Þar af leiðandi komust þeir að þeirri niðurstöðu að Jótland væri góður staður fyrir svona starfsemi.

Ég tek undir það sem fram kom í máli framsögumanns, þingflokksformanns okkar, að við lítum auðvitað á þetta í stærra samhengi en bara því einu — sem er þó aðalefni tillögunnar — að reyna að takast á við það að brúa þetta bil eða gat sem er frá fæðingarorlofi og upp að leikskóla. Þetta tengist að sjálfsögðu líka fræðsluþættinum og skólaskipulaginu, eins og hér var nefnt, og baráttumálið um gjaldfrjálsan leikskóla er að sjálfsögðu áfram ofarlega á okkar forgangslista. Efnahagsþrengingar og hrun og erfiðleikar í fjármálum ríkis og sveitarfélaga hafa engu breytt um það að það er sú framtíð sem við teljum að stefna eigi að, enda stingur það mjög í augu að umtalsverður kostnaður fylgi því að hafa börn í leikskóla, á neðsta skólastiginu, sem ekki sé svo til staðar þegar komið er upp í grunnskólann.

Því miður er ekki hægt að ræða þetta öðruvísi en í samhengi við stöðu fæðingarorlofsmála og við vorum hér einmitt í gær, í umræðum um frumvarp fjármálaráðherra, að ræða það bakslag sem í þau áform er komið í bili að minnsta kosti ef það verður niðurstaðan hér á Alþingi að sætta sig við það metnaðarleysi sem ég tel felast í áherslum nýrrar ríkisstjórnar að þessu leyti. Það væri skömminni skárra ef fyrir lægi þá einhver ný tímasett áætlun um áfangana sem menn yrðu að sætta sig við að kæmu hægar inn í lengingu fæðingarorlofs en niðurstaðan varð á síðasta kjörtímabili. En það er ekki boðlegt að mínu mati að skilja þessi mál eftir öll í fullkominni óvissu um það hvenær og hvernig við getum vænst þess að þessi mál verði komin í eðlilegt horf. Að sjálfsögðu á fæðingarorlofið að brúa bilið fyrsta árið að minnsta kosti og þá er styttra í mark með leikskóla sem geti tekið við.

Hæstv. fjármálaráðherra nefndi það sérstaklega að þeir hefðu valið að hækka þakið í greiðslum um 20 þús. kr., úr 350 í 370 þús. kr., sem er að vísu ekki mikið, rétt rúmlega verðlag, ef svo má að orði komast, og mun minni áfangi en tekinn var á þessu ári þegar fæðingarorlofsþakið hækkaði úr 300 í 350 þús. kr. En í raun var spurningunni ekkert svarað um það hversu lengi þetta ætti að vera forgangsverkefnið og hversu hátt menn vildu þá fara með þetta þak áður en menn tækju áfanga í því að lengja fæðingarorlofið, sem auðvitað kostar líka.

Ég vil segja það fyrir mitt leyti að ég tel að ekki eigi að einblína á það eitt að hækka þetta þak, þar séu einhver efri mörk sem menn eiga að staðnæmast við og velja þá þess í stað, þegar þeim mörkum er náð, að stíga fyrstu skrefin í að lengja fæðingarorlof. Það er nú ekki mikið þó að við bættist hálfur mánuður fyrir hvort foreldri eins og áformað var að gerðist á næsta ári. Látum vera ef eitt ár tapast í þessari glímu en það yrðu þá árin 2015, 2016 og 2017 sem kæmu inn með þessa þrjá viðbótarmánuði í staðinn fyrir 2014, 2015 og 2016 eins og áformað var. Einhver framtíðarsýn verður að liggja fyrir í þessum efnum. Ef ríkið skilar auðu fyrir sitt leyti er ekki líklegt að það reynist létt að fá sveitarfélög og aðila vinnumarkaðarins og aðra sem til þarf til að leggja á móti þannig að þetta bil verði brúað.

Nú er það reyndar þannig að framtíðin er ekkert sérlega björt heldur ef horft er til þess ákvæðis frumvarps hæstv. fjármálaráðherra sem næstum helmingar tekjustofn Fæðingarorlofssjóðs og færir yfir til ríkisins næstum því helminginn af tekjunum sem Fæðingarorlofssjóður hefur haft undanfarin ár. En þannig er um hnútana búið í forsendum fjárlagafrumvarpsins og fylgifrumvörpum að tekjustofninn, sem hefur verið eyrnamerktur Fæðingarorlofssjóði, upp á 1,28% af tryggingagjaldi, fer niður í 0,65%. Það veldur manni ekkert síður ugg en það hvernig ríkisstjórnin að öðru leyti skilar auðu, það er greinilega ekki reiknað með því að Fæðingarorlofssjóður taki á sig auknar byrðar á næstunni úr því að menn ganga svona vasklega til verks að næstum helminga tekjustofn hans. Nú getur vel verið að hann ráði við næsta ár og þess vegna einhver út á innstæður sem þar hafi myndast en þær verða þá ekki notaðar í annað, þær innstæður. Og það mun kosta átak að hífa tekjustofn Fæðingarorlofssjóðs upp aftur þegar ríkið verður búið að venjast því að fá tekjurnar beint til sín.

Síðan varðandi skólastigin voru hér fróðlegar hugleiðingar í máli síðasta ræðumanns um hluti sem ég tel alveg gilt að hafa með í þessari vinnu og verður væntanlega gert þar sem sveitarfélögin verða aðalsamstarfsaðilarnir um málið og þeir fara með leikskólann og grunnskólann. Allmörg sveitarfélög hafa nýtt sér möguleikana sem eru opnir í lögum í dag til þess að samreka og sameina meira og minna leikskóla og grunnskóla. Ég kom höndum yfir nýlega mastersritgerð á dögunum þar sem gerð er úttekt á því hvernig þetta hafi tekist í þeim sveitarfélögum sem þegar hafa nýtt sér þennan möguleika og niðurstaðan er nánast einróma jákvæð, að þetta hafi gefið mjög góða raun. Ég held að það sé líka sú nálgun sem við eigum ekkert síður að hafa í huga en endilega að velta fyrir okkur hvort við eigum að færa mörkin niður um eitt ár — einfaldlega að vinna bara að því að þessi landamæri hverfi í miklu ríkari mæli þannig að þau verði ekki til staðar með sama hætti.

Reyndar er ég þeirrar skoðunar að þau ættu meira og minna að hverfa líka ofan við grunnskólann og þetta eigi ekki að vera svona hólfað milli skólastiga eins og við höfum lent í að gera þetta. Það hefði mikla kosti í för með sér ef menn færu að líta meira á þetta sem eitt samfellt lærdóms- og þroskaferli alveg frá því að töku fæðingarorlofs lýkur og börnin fara í leikskóla o.s.frv.

Herra forseti. Ég vona að þessi tillaga fái góðar undirtektir og hún fer þá aftur í sinn umsagnarferil og það er jákvætt að heyra að undirtektir hafa verið góðar frá þeim sem fengu hana til skoðunar eftir vorþingið. Ég bind því talsverðar vonir við (Forseti hringir.) að hið háa Alþingi taki á sig rögg og samþykki þetta mál ekki síðar en á vorþinginu.