143. löggjafarþing — 6. fundur,  9. okt. 2013.

mótun stefnu í gjaldmiðilsmálum.

7. mál
[17:44]
Horfa

Flm. (Guðmundur Steingrímsson) (Bf):

Virðulegur forseti. Við í Bjartri framtíð aðhyllumst hið almenna viðhorf til ríkisvalds að það sé hlutverk þess að reyna að skapa sem bestan grundvöll og ramma fyrir einstaklinga og samtök þeirra til að gera það sem þau og þeir kjósa. Til þess að blómlegt atvinnulíf geti þrifist og til þess að heimilin geti stundað heilbrigðan rekstur þurfi grundvöllurinn að vera góður. Ég held að margir aðhyllist þetta viðhorf til ríkisvalds, að þetta sé grundvallarhlutverk þess. En það er ekki hægt að horfa fram hjá því að svo virðist sem í íslenskum efnahagsmálum og í íslenskum stjórnmálum hafi þetta verkefni verið höndlað af talsverðri léttúð.

Það hafa til dæmis verið lausatök í ríkisfjármálum þó að það hafi held ég batnað á undanförnum árum. Það eru átök á vinnumarkaði á Íslandi sem leiða auðvitað til óstöðugleika. Síðan er það gjaldmiðillinn og hversu erfitt það hefur verið að ræða gjaldmiðilinn í íslenskum stjórnmálum og í þessum sal á undanförnum árum þrátt fyrir hrun á gengi hans nánast á nokkrum dögum árið 2008. Það segir mér og okkur í Bjartri framtíð að við eigum dálítið langt í land með að geta rætt hispurslaust allar hliðar þess mikilvæga verkefnis að reyna að skapa traustan grundvöll á Íslandi. Það hefur einfaldlega verið erfitt að ræða hvaða gjaldmiðill hentar Íslendingum best.

Mjög margt bendir til þess að krónan sem gjaldmiðill og ég tala nú ekki um frjáls fljótandi króna á gengismörkuðum henti Íslendingum illa. Sumir segja vissulega að krónan feli í sér sveigjanleika fyrir atvinnulífið og hjálpi þar með vissulega sumum útflutningsgreinum. Aðrir segja að ef hún er meðal þá sé meðalið verra en sjúkdómurinn, hún skapi óstöðugleika. Hún hefur nánast rýrnað stöðugt að verðgildi frá því að hún var tekin upp. Hún leiðir til ógagnsærra flutninga á eignum í samfélaginu. Við getum bara skoðað það með einföldu dæmi. Ef stórfyrirtæki eða sveitarfélag á Íslandi þarf að greiða af stóru erlendu láni á gjalddaga þá leiðir það til þess vegna smæðar krónunnar að krónan fellur í verði, verðlag hækkar og í verðtryggðu íslensku lánaumhverfi hækka lán íslenskra heimila og útflutningsatvinnuvegir græða hugsanlega. Hér á sér stað hvað eftir annað stórbrotin eignatilfærsla sem er óréttlát og ógagnsæ.

Allt þetta umhverfi sem er ófyrirsjáanlegt leiðir til þess að áhættan í hagkerfinu er meiri en hún þarf að vera. Við búum við háa vexti, hátt verðlag og kjarabætur eru erfiðar. Það er erfiðara hér að auka kaupmátt en í nágrannalöndunum vegna óstöðugleika.

Stærsta viðfangsefni í íslensku efnahagslífi held ég að sé að koma á stöðugu efnahagsumhverfi. Auðvitað er gjaldmiðillinn ekki það eina sem þarf að skoða í því. Það þarf að ríkja ábyrg stefna í ríkisfjármálum. Vinnumarkaðurinn þarf líka að vera ábyrgur. Það þarf að efla útflutningsatvinnugreinar, auka útflutningstekjur þannig að það er í mörg horn að líta.

Hér leggjum við þingmenn Bjartrar framtíðar til að einn stór þáttur í því mikilvæga verkefni að skapa efnahagslegan stöðugleika á Íslandi til langs tíma verði skoðaður sérstaklega og að mótuð verði stefna í gjaldmiðilsmálum. Stefna sem felur í sér svör við spurningunni: Hvaða gjaldmiðil á að nota á Íslandi til framtíðar og hvaða umgjörð á að ríkja um hann? Það er hægt að fara í þessa vinnu á grunni gríðarlega efnismikillar skýrslugerðar sem þegar hefur farið fram í íslensku samfélagi. Seðlabanki Íslands gaf út mjög yfirgripsmikið sérrit fyrir ári síðan um valkosti Íslands í gjaldmiðils- og gengismálum, 500 blaðsíður eða svo. Það sem í raun og veru vantar er að taka afstöðu til þeirra kosta sem Seðlabanki Íslands segir að fyrir hendi séu í gjaldmiðilsmálum. Það vantar hið pólitíska skref. Þessi tillaga gengur út á það að taka hið pólitíska skref og við leggjum til að það verði ekki bara mótuð stefna heldur teljum við lykilatriði að stefnan byggi á ákveðnum rökum, á ákveðinni afstöðu til vissra lykilspurninga.

Íslenskt efnahagslíf glímir við miklar ógöngur núna. Ef við málum upp svarta mynd, jafnvel þá svörtustu, getum við sagt að við séum láglaunaland í höftum. Við erum láglaunaland í höftum og það er engu logið með það. Þannig er staðan. Það eru einhver áform um að reyna að losa okkur úr höftunum. Þau eru óljós. Það sem vantar svo ótrúlega mikið inn í umræðuna er: Hvað svo? Þá hljótum við að koma að þessari spurningu sem er einn liður í rökstuðningnum: Hvað á að auka traust á íslensku efnahagslífi til langs tíma? Gjaldeyrishöftin endurspegla vantraust. Svo margt sem við höfum þurft að gera eftir hrun eins og samstarfið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og efnahagsstefnan sem af því hlaust snerist um það að reyna að byggja aftur upp traust.

Skiljanlega eru mjög margir sem hafa ekki trú á því að fljótandi króna eins og við bjuggum við frá 2001 og endaði með miklum skakkaföllum sé fýsilegt umhverfi eftir að gjaldeyrishöftum hefur verið aflétt. Hvernig ætlum við að auka traust?

Ég heyri í umræðunni núna að það er ekki bara talað um erlendar krónueignir og erlendar kröfur sem snjóhengju heldur líka innlendar og af hverju skyldu menn ekki gera það? Af hverju skyldu innlendar krónueignir ekki líka leita út í aðra gjaldmiðla ef höftum verður aflétt?

Við sjáum líka tilhneiginguna í íslensku viðskiptalífi, íslensku atvinnulífi að leita í aðra gjaldmiðla. Fjölmörg fyrirtæki gera upp í öðrum gjaldmiðlum. Íslenskur almenningur leitar í lífeyrissparnað í erlendum myntum. Við sáum það auðvitað á bóluárunum að við fórum með annan fótinn inn í evrusvæðið, íslenskur almenningur og fyrirtæki fóru að taka lán í erlendri mynt og mjög ríkulega í evrum. Tilhneigingin er því til staðar í innlendu efnahagslífi, atvinnulífi að leita í aðra mynt. Þetta endurspeglar skort á trausti.

Við í Bjartri framtíð viljum meina að það sé lykilatriði að svara því hvaða gjaldmiðil við ætlum að nota til þess að reyna að efla traust og færa þá efnisleg, góð rök fyrir því að hægt sé að treysta þeim gjaldmiðli. Fyrsta spurningin sem við gerum kröfu um að gjaldmiðilsstefnan svari er: Hvernig eykur gjaldmiðilsstefnan traust?

Önnur spurning af sjö sem við vonumst til og leggjum til að gjaldmiðilsstefnan svari er hvernig gjaldmiðillinn og gjaldmiðilsstefnan gagnist í því að bæta lífskjör. Ég held að við höfum verið í langvarandi ógöngum með núverandi gjaldmiðil, krónuna, hvað þetta varðar. Við erum með verðtryggð lán sem er einstök staða. Verðtryggð lán eru einfaldlega endurspeglun á því að fjármálakerfið treystir ekki umgjörð efnahagslífsins, treystir ekki krónunni. Fjármálaumhverfið notast því við verðtryggða krónu. Við erum í raun og veru með tvo gjaldmiðla í landinu. Það er ekki æskilegt til langs tíma þótt við höfum búið við það í langan tíma. Við verðum að komast út úr því umhverfi til þess að lækka vexti, til þess að við getum tekið upp óverðtryggð lán með lágum vöxtum eins og í nágrannaríkjunum. Við verðum að geta aukið kaupmátt, hann má ekki vera étinn upp sífellt af verðlagshækkunum. Þannig að við þurfum að svara því hvernig gjaldmiðill og umgjörð hans getur nýst til að bæta lífskjör. Almennt erum við að tala um tól. Við erum að tala um tæki og við erum að tala um hvað sé besta tækið.

Frjáls viðskipti. Við búum ekki við frjáls viðskipti. Við búum við gjaldeyrishöft. Við þau getum við ekki búið til lengdar. Þegar fjármálakerfið hrundi 1930 eða svo voru tekin upp gjaldeyrishöft sem vörðu í 50 ár um það bil. Erum við að stefna í það sama? Það hvernig við eflum og komum á frjálsum viðskiptum þarf að vera lykilatriði í gjaldmiðilsstefnu. Gjaldmiðilsstefna þarf að svara því hvernig við eyðum kerfisáhættunni sem í því felst núna að flytja til og frá landinu stórar upphæðir, hvernig slíkar alþjóðlegar hreyfingar eiga ekki að koma niður á kjörum almennings.

Gjaldmiðilsstefnan þarf að koma til móts við hagsmuni atvinnulífsins. Þar eru vissulega tvenn sjónarmið. Sumir segja að sveigjanleg króna henti atvinnulífinu. Mér sýndist Seðlabankinn af skýrslu hans að dæma komast að annarri niðurstöðu, að það að fara inn á evrusvæðið gæti aukið útflutning sem mundi leiða til þess að landsframleiðsla gæti aukist um allt að 11% á hvern íbúa Íslands. Stöðugleikinn sem af því hlytist að fara inn á evrusvæðið gæti komið fjölbreyttari útflutningsgreinum til góða en nú, aukið þar með útflutning og verðmæti útflutnings.

Það þarf líka að skoða hvaða gjaldmiðill hentar best til áætlunargerðar í atvinnulífinu. Það kemur líka við heimilin og stöðu þeirra. Hvaða gjaldmiðill felur í sér mesta fyrirsjáanleika hvað varðar verðgildi? Hvaða gjaldmiðill hentar best til hagstjórnar? Því má halda fram að saga íslenskrar hagstjórnar sé ekki mjög glæsileg. Það gekk ekki vel að ná verðbólgumarkmiðum Seðlabankans með fljótandi krónu, það gekk afskaplega illa. Ætlum við að endurtaka þá tilraun eins og hún var einhvern tíma kölluð af núverandi seðlabankastjóra, að ég held?

Samanburður. Gjaldmiðilsstefnan þarf að fela í sér samanburð. Auðvitað er enginn gjaldmiðill fullkominn fyrir Íslendinga. Ef við til dæmis tækjum upp evru þá eru auðvitað fjölmargar hættur því samfara. Bara það að vaxtastig lækki getur leitt til mikillar þenslu, sérstaklega í umhverfi þar sem fólkið og atvinnulífið að mörgu leyti þyrstir í skuldbreytingar. Við sáum þetta í raun og veru gerast upp úr árinu 2004, langþreytt atvinnulíf og íslensk heimili skuldbreyttu yfir í ódýrari lán og upphófst mikil bóla. Þetta þarf að passa ef við förum inn í hagstæðari kjör í lánum með því að taka upp aðra mynt. Það eru fjölmargar leiðir til þess að passa þetta. Það þarf að passa atvinnustig. Það þarf eftir sem áður ef farið er inn á stærra myntsvæði að efla útflutning. Það þarf að gæta aðhalds í ríkisfjármálum.

Þá kem ég að síðasta liðnum sem við vonumst til að við fáum svör við í rökstuddri gjaldmiðilsstefnu. Það er framkvæmanleiki, gjaldmiðilsstefnan þarf að vera framkvæmanleg. Við í Bjartri framtíð viljum meina að það sé framkvæmanlegt að fara inn í ERM II, þ.e. gjaldmiðilssamstarf við Evrópu, og taka með tíð og tíma upp evru. Við teljum það fýsilegan kost. Hann þarfnast ýmissa annarra stjórnvaldsaðgerða og samningaviðræðna. Ef menn vilja einhverja aðra kosti í gjaldmiðilsmálum eins og að hafa krónu þá förum við fram á að það sé þá tiltekið hvaða aðrar stjórnvaldsaðgerðir þarf til þess að viðhalda heilbrigðu umhverfi með krónu. Þarf til dæmis áframhaldandi gjaldeyrishöft?

Fyrst og fremst leggjum við til með þessari tillögu að fram fari upplýst umræða um þessi mál. Við í Bjartri framtíð höfum í sjálfu sér okkar skoðanir á því hvað væri fýsilegasta fyrirkomulagið í gjaldmiðilsmálum en við fjöllum ekki um það hér. Við leggjum ekki til að okkar leið verði farin heldur leggjum við (Forseti hringir.) það einungis til að við efnum til upplýstrar umræðu um hver sé (Forseti hringir.) besta stefna Íslands í gjaldmiðilsmálum á grunni upplýsinga og raka.