143. löggjafarþing — 6. fundur,  9. okt. 2013.

mótun stefnu í gjaldmiðilsmálum.

7. mál
[18:00]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir skörulega ræðu. Ég get sagt það hér strax að ég var sammála held ég hverju einasta orði sem hv. þingmaður sagði. Ég er þeirrar skoðunar að alvarlegasta meinið sem er að finna í íslensku efnahagslífi sé myntin. Ég tel að það væri ákaflega farsælt fyrir okkur til framtíðar að skipta um mynt. Hv. þingmaður veit hvaða skoðun ég hef í því efni vegna þess að við höfum áður skipst á skoðunum um það hér. Ég er honum sammála um það. Mér fannst vera niðurstaða í hans máli að það væri farsælt fyrir Ísland að stíga skrefið sem felst í því að halda áfram umsókn um aðild að Evrópusambandinu og komast í fyllingu tímans inn í EMR II og taka síðan upp evruna. Það fannst mér hv. þingmaður vera að segja. Eigi að síður segir hann að hann sé ekkert að troða sinni skoðun upp á aðra. Allt í lagi með það.

Ég las þingsályktunartillögu hv. þingmanns og hans góðu félaga. Þar eru færð rök fyrir því sem hv. þingmaður kristallaði í ræðu sinni áðan, en þar segir líka að þar séu ýmsar leiðir í gjaldmiðilsmálum. Ég spyr hv. þingmenn: Er það rétt? Er það ekki svo að í þeirri skýrslu sem hv. þingmaður vísaði til sem vandaðrar úttektar á stöðu Íslands gagnvart gjaldmiðlum framtíðarinnar kemur í ljós að það eru bara tveir kostir? Það var mín skoðun á niðurstöðum Seðlabankans og þeir eru þessir: Að taka upp evru í bættum herklæðum í fyllingu tímans eða að halda áfram með krónu sem alltaf, um alla framtíð, verður í einhvers konar höftum hvað sem menn kalla það. Eru það ekki kostirnir tveir?