143. löggjafarþing — 6. fundur,  9. okt. 2013.

mótun stefnu í gjaldmiðilsmálum.

7. mál
[18:02]
Horfa

Flm. (Guðmundur Steingrímsson) (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er hárrétt að Seðlabankinn kemst að þeirri niðurstöðu. Hún kom mér ekki á óvart. Ég er sammála því að tveir kostir séu í gjaldmiðilsmálum, þ.e. að hafa krónu með þeirri umgjörð sem er nauðsynleg til þess að hafa krónu eða að fara inn á evrusvæðið. Ég hef talið það fýsilegan kost og við í Bjartri framtíð teljum það fýsilegan kost að fara inn á evrusvæðið. Í öllu falli teljum við mjög ófýsilegt að loka þeim möguleika núna. En það eru auðvitað aðrir kostir í gjaldmiðilsmálum. Þeir eru reifaðir og farið yfir þá í skýrslu Seðlabankans þótt þeir séu ekki metnir fýsilegir, t.d. einhliða upptaka á kanadadollar eða evru, bandaríkjadollar. Það getur vel verið að það séu einhverjir talsmenn slíkrar stefnu hér í þingsal. Lykilatriðið er að við erum að reyna að nálgast þetta mikilvæga viðfangsefni með það að markmiði að opna umræðuna, fá fram rökstuðning fyrir þeirri stefnu sem menn ætla að taka, setja bestu upplýsingarnar upp á borðið. Því er auðvitað ekki að leyna að ég leyfi mér að vona og trúi því að í kjölfar slíkrar upplýstrar umræðu og rökstuðnings og samræðu muni menn almennt komast að sömu niðurstöðu og ég í gjaldmiðilsmálum.