143. löggjafarþing — 6. fundur,  9. okt. 2013.

mótun stefnu í gjaldmiðilsmálum.

7. mál
[18:19]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Mig langar að þakka fyrir umræðuna og sérstaklega fyrir ósk hv. Bjartrar framtíðar og hv. þm. Guðmundar Steingrímssonar sem kalla eftir svokölluðum hófstilltum stjórnmálum, hófstilltri umræðu um þessi mál. Mig langar að byrja á því að segja að ég held persónulega ekki að það sé mögulegt hér. Það er kannski mögulegt í sjónvarpi, hugsanlega, eða með öl á bar einhvers staðar eða eitthvað því um líkt en ég held ekki að það sé mögulegt hérna vegna þess að samkvæmt umræðuhefðinni og því hvernig Alþingi virkar er ætlast til þess að menn standi í pontu og séu með fullmótaðar skoðanir sem þeir séu búnir að hugsa algerlega til enda og geta varið fram í rauðan dauðann ellegar þegi. Ég held að það sé ekki mögulegt þegar kemur að gjaldeyrismálum og ég er ekki viss um að það sé við hæfi þegar kemur að efnahagsmálum vegna þess að eitt hef ég lært um peningakerfið og fjármál og það er að þetta er flókið, þetta er ofboðslega flókið, þetta er ofboðslega mikið og það eru margar kenningar. Oft lendir maður í þeim aðstæðum að það eru engar góðar fréttir og í alvöru, hver ætlar að standa hér og segja þjóðinni, tyggja stanslaust ofan í þjóðina vondar fréttir, hversu hræðileg krónan er og að við verðum samt með hana? Líkar ykkur illa við það? Er það erfitt? Hver ætlar að flytja slíka ræðu? Ekki ég, ekki í dag alla vega og ég efast um að nokkur annar ætli að gera það. En það er samt einn af möguleikunum, því miður, að við verðum áfram með krónuna til framtíðar þrátt fyrir alla vankanta.

Ef við ætluðum að eiga hófstillta opinskáa umræðu um málin þyrftum við að geta gert það og á sama tíma stigið út fyrir pólitíska vettvanginn. Ég tel það ekki vera mögulegt. Ég er ekki einu sinni viss um að það sé við hæfi. En á hinn bóginn er ég Pírati þannig að ég þarf ekki endilega alltaf að gera það sem er við hæfi og hver veit nema maður sé til í smá rifrildi við annars ágæta vini hér og vissulega hv. þingmenn.

Þar sem enginn stjórnarliði ætlar að koma upp og ræða málin ætla ég bara að láta vaða. Þrátt fyrir að trúa því sjálfur að vissulega væri betra að hafa evruna, að betra væri að hafa stóran gjaldmiðil sem er ekki íslenska krónan, leyfi ég mér að varpa fram þeirri fullyrðingu, bara að gamni, jafnvel bara til að hrista upp í mönnum og fá þá til að koma í andsvör, að íslenska krónan hafi reddað okkar í hruninu. Kannski gerði hún það að verkum að hér gengu hlutirnir talsvert mikið betur en á horfðist fyrst um sinn. Hvað þá? Ég veit það ekki. Hver sem er má leiðrétta mig. Eins og ég segi eru þetta stór og erfið mál og lausnirnar eru ekki augljósar, þær eru alla vega ekki augljósar mér, og það finnst mér sjálfsagt að allir viðurkenni, hvað þá undir þessum kringumstæðum þegar menn virðast hvorki geta fengið evru né haft krónuna. Það er fullt af vandamálum við báða kostina. Eins sjarmerandi og það hljómar að taka upp kanadadollar eða eitthvað þannig þá þyrftum við að kaupa kanadadollara fyrir allar íslenskar krónur sem er bara brjálæði, við gætum það ekki. Ég held að það sé alger klikkun, eins gaman og það væri að geta það ef út í það er farið.

Ég er sammála Seðlabankanum að því leyti að hér séu bara tvær mögulegar leiðir. Það er annars vegar stærri og betri gjaldmiðill eða krónan. Ef við erum föst með krónuna vil ég leggja til að við förum hugsa okkar eigin aðstæður inn í þau módel sem við notum þegar við tölum um efnahaginn. Það eru notaðar gamlar klassískar, sumir vilja meina vel prófaðar, kenningar í hagfræði og peningastefnu almennt. Ég held að við þurfum að breyta þeim kenningum mjög mikið ef við ætlum að halda áfram með krónuna vegna þess að eitt er víst með krónuna: Það verður verðbólga. Ég skal veðja peningum upp á það með glöðu geði. Ekki að maður eigi endilega að gera það en ég skal gera það, það er minnsta málið, og græða fullt á því vegna þess að það verður verðbólga hérna. Það sem meira er þá verður sennilega eitthvert form af verðtryggingu vegna þess að án verðtryggingar verða engin lán. Ef það eru engin lán verður engin peningasköpun sem er ákveðin mótsögn, mundi maður halda, við verðbólgu en svo virðist ekki vera. Þetta er langt frá því að vera allt saman einfalt.

Mér þykir þó alveg ljóst að ef við ætlum að halda áfram með krónuna, sem lítur út fyrir að við munum, fyrirgefið, þurfa að gera með einum eða öðrum hætti, þurfum við að fara að endurskoða fullt af klassískum hugmyndum, t.d. vaxtastefnuna. Þar sem er verðbólga þurfa að vera vextir. Það þurfa að vera raunvextir þannig að þeir þurfa að að vera meiri en verðbólga svo að þeir þurfa að vera hvað? [Þingmaðurinn smellir fingrum.] Háir vextir. Sem þýðir hvað? Jú, að það er alltaf pressa á íslenska hagkerfinu og við munum alltaf hafa bólumyndun og hún mun alltaf springa.

Leyfið mér að stinga upp á öðru líka, jafnvel þótt það sé bara til að hvetja til andsvara. Kannski ættum við að hætta að reyna að komast hjá kreppunum og venja okkur frekar á að búast við þeim. Svolítið eins við lifum með veðrinu. Við gerum ekki ráð fyrir því að það verði ekki eldgos, við reynum ekki að stöðva þau, við reynum bara að byggja þannig og búa þannig um að við ráðum sem best við þau. Kannski er það dómur íslensku þjóðarinnar til framtíðar, kannski. Það er ekki gaman að spá svona en ef við ætlum að vera ábyrg og ef við ætlum að hafa opna upplýsta umræðu um þetta þá eru það möguleikar sem við þurfum að gefa gaum í það minnsta og hér má hver sem er vera ósammála.

Ég gleymdi að nefna í upphafi ræðunnar að þetta er ekki opinber stefna Pírata og ég skal segja ykkur hvers vegna. Það er vegna þess að í þessari umræðu verðum við eiginlega að láta það í friði. Við verðum eiginlega að stíga út fyrir pólitíkina ef við ætlum að ræða málin með opnum huga. Annað held ég að sé ekki mögulegt og ef við ætlum að ræða þetta í einhverri pólitík, sem virðist reyndar ekki ætla að gerast, það virðast ekki margir stjórnarliðar ætla að taka þátt í umræðunni yfir höfuð, legg ég til að við gerum það á öðrum vettvangi. En ég býð hvaða hv. þingmanni sem er að skjóta þessar hugmyndir í spað.