143. löggjafarþing — 6. fundur,  9. okt. 2013.

mótun stefnu í gjaldmiðilsmálum.

7. mál
[18:25]
Horfa

Flm. (Guðmundur Steingrímsson) (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar að reyna að komast til botns í því hvort ég skildi hv. þingmann rétt. Er hann sem sagt svona svartsýnn á það að langtímastefnumörkun geti farið fram í stjórnmálum? Er það þá bundið við Ísland sérstaklega og þá eitthvað sérstaklega í íslenskri stjórnmálamenningu eða er þetta bara almennur eiginleiki mannskepnunnar eða hvernig er það?

Ég túlkaði orð hans þannig að gallinn við tillöguna sem við leggjum hérna fram væri sá að við værum að fara fram á opna umræðu og ákvarðanatöku byggða á upplýsingum og rökum. Við viljum vissulega meina að slík umræða hafi oft gengið brösuglega á Íslandi. Ég held nú samt, ef horft er á veröldina af sanngirni, að slík stefnumörkun og slíkur þankagangur fari fram um allt samfélagið. Seðlabankinn hefur skilað yfirgripsmikilli skýrslu um valkosti í gjaldmiðilsmálum og þar er mjög góður rökstuðningur fyrir ákveðinni leið eða leiðum eftir því hvernig menn líta á það. Í atvinnulífinu hafa ASÍ, SA, Samtök iðnaðarins farið í yfirgripsmikla vinnu við að skoða kosti og galla í gjaldmiðilsmálum og í alls konar málum. Um allt samfélag er slík langtímahugsun. Nágrannalöndin og önnur lönd í heiminum gera þetta í ríkari mæli en við. Er einhver ástæða til þess að útiloka það fyrir fram að við getum farið í slíka vinnu, sérstaklega á nýju þingi?