143. löggjafarþing — 6. fundur,  9. okt. 2013.

mótun stefnu í gjaldmiðilsmálum.

7. mál
[18:44]
Horfa

Flm. (Guðmundur Steingrímsson) (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir ræðuna. Mér heyrist að hin upplýsta umræða um kosti Íslands í gjaldmiðilsmálum sé hafin hér og nú og við ættum að geta haldið henni áfram. Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að æskilegt væri að við værum búin að gera það upp hjá þjóðinni hvort við viljum halda áfram aðildarviðræðum við Evrópusambandið, það er auðvitað nauðsynlegt skilyrði fyrir einum stórum valkosti Íslendinga í gjaldmiðilsmálum að við séum aðilar að Evrópusambandinu. Veruleikinn er sá að búið er að gera hlé á þeim viðræðum, þó ekki slíta þeim sem er fagnaðarefni.

Ég held að það megi alveg nálgast þetta úr annarri átt og segja að gjaldmiðilsmálin eru mjög stór og mikilvægur þáttur í því fyrir þjóðina að ákveða hvort við eigum að fara inn í Evrópusambandið eða ekki og því megi alveg hefja og taka alvarlega umræðuna um gjaldmiðilsmálin bara eina og sér og þetta er tillaga sem gengur út á það.

Ég velti fyrir mér hvort hv. þingmaður geti ekki að hluta til tekið undir þá nálgun að það sé skynsamlegt að frammi fyrir þjóðinni í opinni umræðu veltum við upp öllum þeim kostum sem fyrir liggja í gjaldmiðilsmálum og tökum ákvörðun í því.

Svo er þingsályktunartillagan líka lögð fram af ákveðinni forvitni. Það liggur fyrir stefna ríkisstjórnarinnar, hún segist ætla að nota krónu, a.m.k. í fyrirsjáanlegri framtíð. Þá biðjum við um rökstuðning og mér heyrist hv. þingmaður vera svolítið svag fyrir því að nota krónu líka. Þá langar mig að spyrja hann í þágu hinnar opnu, upplýstu (Forseti hringir.) umræðu: Sér hann fyrir sér að króna verði notuð á Íslandi án hafta í frjálsu viðskiptalífi?