143. löggjafarþing — 6. fundur,  9. okt. 2013.

mótun stefnu í gjaldmiðilsmálum.

7. mál
[19:01]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Virðulegi forseti. Ég ætlaði upphaflega ekkert að koma í ræðu en varð of seinn, og kenni um reynsluleysi mínu, að fara í andsvar. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon er náttúrlega hokinn af reynslu í þessum málum og virkilega gaman að hlusta þegar hann talar um þetta. Það hefur komið fram í umræðunni, og þessi ríkisstjórn er alveg með þá föstu stefnu, að hér verði krónan til framtíðar. Það er ekkert sem virðist breyta því hjá henni. Það hefur komið skýrt fram að það virðist einhvern veginn eins og þessi króna verði hér til framtíðar.

Formaður minn, hv. þm. Guðmundur Steingrímsson, hefur farið í gegnum það hvers vegna þessi tillaga kemur til. Auðvitað þurfum við að horfa til framtíðar í gjaldmiðilsmálum, það er alveg ljóst, vegna þess að við höfum þurft að bera ótrúlega miklar byrðar af þessari krónu. Maður heyrði í kosningabaráttunni í vor í fólki sem var að missa allt sitt í þriðja skipti á ævinni og vildi kenna krónunni um og kannski líka lélegri hagstjórn. Við virðumst einhvern veginn ekki geta stjórnað okkur sjálf.

Nú virðist liggja fyrir að krónan verði gjaldmiðillinn okkar og þá langar mig að vita hvort hún verður þá ekki að vera gjaldmiðill allra í landinu, virðulegi forseti. 250–300 stærstu fyrirtæki landsins gera upp í evrum. Mér finnst svo óheyrilega ósanngjarnt að fyrirtæki geti gert upp í evrum en þau borga svo fólkinu sínu í krónum.

Mig langaði að vita, ef Steingrímur gæti farið í andsvar og svarað því: Er þetta sanngjarnt? (Gripið fram í: Háttvirtur.) Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, fyrirgefið, maður gleymir þessu stundum, ég er mjög nýr. Getur hann svarað spurningunni: Hvernig stendur á því að þau geta þetta þegar það á að vera með krónu á Íslandi?

Mér finnst þetta alveg óheyrilega ósanngjarnt. Einhvern tímann á síðasta ári las ég í blaði að fyrirtæki sem var með verulegt tap á rekstri sínum, eina 6 milljarða, skuldbreytti öllu í evrur og það kom út með 4 milljarða hagnað eftir þær æfingar allar. Þetta brennur á mér og ég vildi vita hvernig getur staðið á þessu, að þetta sé hægt hér en við sitjum uppi með krónuna.

Ég er nú ekkert mjög klár í fjármálum, ég skal alveg viðurkenna það, en ég hef lesið ýmislegt um þetta. Ein setning eftir mann sem mig minnir að hafi heitið Vilmundur Jónsson, vonandi fer ég rétt með, landlæknir eða eitthvað, hefur setið í mér alveg ótrúlega lengi. Hann sagði einhvern tímann að íslenska krónan væri nauðsynleg fyrir okkur til þess að geta náð til baka óæskilegum launahækkunum án blóðsúthellinga. Gagnvart dönsku krónunni hefur hún að minnsta kosti fallið um fleiri þúsund prósent og mér verður oft hugsað til þessa þegar ég rifja upp og tala um þessi gjaldmiðilsmál.

Ég man eftir því í gamla daga þegar verkalýðsforkólfar voru vikum saman að berjast fyrir bættum hag verkafólks nær dauða en lífi sofandi fram á borðin. Loksins náðust samningar og út brutust mikil fagnaðarlæti, tertur og ég veit ekki hvað og hvað, en þrem dögum seinna var búið að ná þessu til baka með verðhækkunum og skella þessu öllu út í verðlagið. Til þess var allur ávinningurinn.

Ég ætla ekkert að hafa þetta lengra. Við styðjum þetta og förum með þessa tillögu fram því að við viljum sjá til framtíðar í gjaldmiðilsmálum Íslendinga. Svona getur þetta ekki gengið lengur.

(Forseti (ÞorS): Forseti metur við hv. þingmann að hann skyldi átta sig á ávarpinu með góðra manna hjálp.)