143. löggjafarþing — 6. fundur,  9. okt. 2013.

mótun stefnu í gjaldmiðilsmálum.

7. mál
[19:05]
Horfa

Flm. (Guðmundur Steingrímsson) (Bf):

Virðulegi forseti. Bara örstutt í lokin. Ég fagna þessari umræðu. Hér hefur stórar spurningar borið á góma og að mörgu leyti er þessi umræða sem við erum að kalla eftir með þingsályktunartillögunni byrjuð þótt vissulega hefði verið gaman að heyra sjónarmið einhverra stjórnarliða í þessari umræðu. Við fáum væntanlega að heyra þau sjónarmið í nefnd.

Ég legg áherslu á að það er ekkert einfalt í þessu. Stundum bregður því við í umræðu um gjaldmiðilsmálin að til dæmis þeir sem aðhyllast það að taka upp evru eru sagðir aðhyllast einhvers konar töfralausnir. Því er haldið fram að þeir álíti að það að taka upp evru muni leysa allt, bara það að taka upp annan gjaldmiðil á Íslandi.

Það er ekki þannig. Það eru líka gallar samfara því að taka upp evru. Leiðin að því er mörkuð ýmsum hindrunum. Þetta snýst um að vega og meta kosti. Þetta snýst líka og ekki síst um að skoða umgjörðina um gjaldmiðilinn. Það skiptir engu máli hvernig gjaldmiðillinn lítur út. Það skiptir miklu meira máli hvað við gerum við hann. Þetta er bara tæki sem við beitum rétt og við þurfum að hafa rétt umhverfi utan um notkun á slíku tæki.

Við getum haft krónu í frjálsu umhverfi. Við getum haft krónu í höftum. Við getum haft krónu tengda ERM. Þá notuðum við krónuna en hún væri beintengd með vikmörkum við gengi evru. Við getum tekið upp evru. Þetta eru allt kostir sem við þurfum að vega og meta.

Það er rosalega mikið í húfi að mínu mati. Hv. þm. Páll Valur Björnsson fór ágætlega yfir það hvernig hagstjórnin hefur verið, hvernig kjarabætur hafa verið étnar upp með gengisfellingum í gegnum tíðina og hvernig fólk hefur jafnvel í þrígang misst eigur sínar út af verðbólguskotum. Þetta er veruleikinn sem íslenskur almenningur hefur mátt búa við og þær eignatilfærslur sem af þessu hafa hlotist eru einfaldlega óréttlátar.

Það getur vel verið að langþreytan birtist einnig í því að margur Íslendingurinn sé á einhvern hátt farinn að sætta sig við þetta ástand, en það má aldrei verða. Við megum ekki gleyma hvert markmiðið er með þessu. Við viljum stöðugt efnahagsumhverfi. Við viljum frjáls viðskipti. Við viljum geta tekið óverðtryggð húsnæðislán á Íslandi eins og í Danmörku á 3% vöxtum eða svo og geta treyst því að þeir haldist. Við viljum geta treyst verðlaginu. Við viljum geta gert langtímaplön þegar við stofnum ný fyrirtæki eða einfaldlega í heimilisrekstrinum.

Um þetta snýst málið. Við viljum geta treyst efnahagslífinu.

Ég virði það og við í Bjartri framtíð erum fyllilega reiðubúin að hlusta á það að þeir sem vilja halda krónu sem gjaldmiðli telji sig geta rökstutt að við náum þessu markmiði með krónunni, verðtryggingarlausu stöðugu efnahagslífi. Við erum ein eyru. Ég hef lýst því áður í umræðunni að við erum beinlínis forvitin að heyra þau rök og við munum í umræðunni um gjaldmiðilsmál halda fram okkar skoðun í þessu sem er sú að það sé sigurstranglegra, það séu meiri kostir fólgnir í því, að tengjast stóru myntbandalagi sem er okkar stærsta markaðssvæði sem er evrusvæðið. En megi umræðan fara fram og ég vona að þessi þingsályktunartillaga verði samþykkt svo við komumst í öllu falli að skynsamlegri niðurstöðu í þessu máli.