143. löggjafarþing — 7. fundur,  10. okt. 2013.

stuðningur við fjárlagafrumvarpið.

[10:36]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Nei, fjárlagafrumvarpið fór í gegnum báða stjórnarflokkana og fékk mjög góðan stuðning og fínar undirtektir. Svo fer frumvarpið til nefndar, nú erum við búin að ljúka 1. umr. og málið komið á forræði þingsins.

Það sem skilur þetta fjárlagafrumvarp frá fyrri fjárlagafrumvörpum er að samhliða því eru lagðar fram allar tekjuöflunarráðstafanir. Við sjáum því núna heildarmyndina og umræðan fer fram á grundvelli þess, m.a. um þá þætti sem hv. þingmaður vísar til, sem eru skattbreytingar, breikkun skattstofna, lægri tekjuskattur á þá sem greiða hann í miðþrepi, breytingar á tryggingagjaldi og annað þess háttar. Þetta held ég að sé mikil framför. Við erum að fara í gegnum þá umræðu í fyrsta skipti því að fram til þessa hafa tekjuöflunarfrumvörpin ekki komið fram fyrr en stundum seint í nóvember.

Ástandið á Landspítalanum er alvarlegt. Fyrri ríkisstjórn skar þar mjög hressilega niður, alveg inn að beini. Í þessu fjárlagafrumvarpi er ekki skorið niður á Landspítalanum. Það geta menn séð ef menn lesa fjárlagafrumvarpið árið 2013 og bera saman við fjárlagafrumvarpið árið 2014. Þá kemur fram að það er enginn niðurskurður til Landspítalans.

Það breytir því ekki að þar er uppi alvarleg staða. Ég hygg að í öllum flokkum sé að finna þingmenn sem eru sammála um að við þurfum að komast í færi til að gera betur þar. Hvernig við síðan gerum það verður úrlausnarefni komandi mánaða og ára, hvernig við komumst í færi til að gera það. Ég tel að mikilvægt sé að örva hagkerfið til frekari vaxtar og skapa þannig ríkinu frekari tekjur, en ég sé ekki fyrir mér að við hverfum frá þeim skattalækkunum sem eru í frumvarpinu. Þvert á móti mundi ég frekar vilja skoða aðrar leiðir.