143. löggjafarþing — 7. fundur,  10. okt. 2013.

stefna ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum.

[10:41]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Á dögunum var á Íslandi Stefan Rahmstorf, haffræðingur og sérfræðingur um loftslagsmál, og fjallaði meðal annars um nýjustu skýrslu vísindamanna um hlýnun jarðar af mannavöldum sem gefur ekki ástæðu til bjartsýni. Það liggur fyrir hvað þarf að gera en það liggur líka fyrir að áhrifin ganga ekki til baka þótt við náum tökum á losun gróðurhúsalofttegunda.

Samkvæmt Umhverfisstofnun Evrópu losaði meðal-Íslendingur 15,5 tonn af gróðurhúsalofttegundum á mann árið 2008 og fyrir utan Evrópu eru einungis Ástralía og Bandaríkin sem losa meira á mann en Íslendingar. Í grein sem birtist í morgun um norðurslóðamál í brennidepli fjallar hæstv. ráðherra ekki einu orði um ógnina sem stafar af loftslagsbreytingum. Hæstv. ráðherra nefnir hraðfara breytingar á náttúrufari í greininni og ég spyr: Hver er framtíðarsýn hæstv. ráðherra fyrir norðurslóðir? Hvernig samrýmist sú framtíðarsýn því stefnumáli ríkisstjórnarinnar að vera til fyrirmyndar í utanríkismálum á alþjóðavísu? Hver er stefna utanríkisráðherrans í loftslagsmálum og hver telur ráðherrann að eigi að vera sá megintónn sem Ísland slær í þeim efnum gagnvart alþjóðasamfélaginu?