143. löggjafarþing — 7. fundur,  10. okt. 2013.

fæðingarorlofssjóður.

[10:48]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegi forseti. Eitt af því sem ég hef alltaf talið að ríkti mikil samstaða um í íslenskum stjórnmálum og meðal þjóðarinnar er að hafa öflugan Fæðingarorlofssjóð. Það er eitt af því sem hefur tekist vel í íslenskum stjórnmálum, að hafa og byggja upp Fæðingarorlofssjóð sem hefur stuðlað að jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði og öryggi barnafólks. Hér er auðvitað um að ræða mjög brýnt hagsmunamál vinnumarkaðarins og þjóðarinnar allrar. Við viljum að það geti gengið átakalaust fyrir sig að fólk eignist börn og það er auðvitað mjög mikilvægt fyrir vinnumarkaðinn að hér verði til framtíðarvinnuafl. Hugsunin á bak við fjármögnun Fæðingarorlofssjóðs er líka sú að það er atvinnulífið, launþegar og atvinnurekendur, sem fjármagnar sjóðinn í gegnum tryggingagjald. Það er ákveðinn hluti hins almenna tryggingagjalds sem rennur í Fæðingarorlofssjóð.

Það var ömurlegt í eftirleik hrunsins að skera þurfti niður til Fæðingarorlofssjóðs. Ég taldi það óþarfa vegna þess að Fæðingarorlofssjóður er fjármagnaður af sérstökum tekjustofni sem kemur úr atvinnulífinu. Það er hægt að áætla frekar áreiðanlega fjárþörf sjóðsins og við getum ákveðið í samráði við atvinnulífið hvernig við viljum hafa hann. Það er að mörgu leyti óþarfi að skera niður í Fæðingarorlofssjóði.

Í fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi er farið í miklar leikfimiæfingar með tryggingagjaldið. Það er sagt að verið sé að lækka það um 0,1% en ef maður rýnir í tölurnar sér maður að hér er verið að lækka hlutdeild Fæðingarorlofssjóðs í almenna tryggingagjaldinu úr 1,28% í 0,65%, nánast um helming. Ég get ekki skilið þetta öðruvísi en að þetta sé stefnubreyting. Það er verið að bakka með það að efla sjóðinn, hækka hámarksgreiðslur lítillega, en ég spyr hæstv. félagsmálaráðherra: Er þetta ekki stefnubreyting og hver er framtíðarsýnin með Fæðingarorlofssjóð?