143. löggjafarþing — 7. fundur,  10. okt. 2013.

rekstur Íbúðalánasjóðs.

[11:00]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Íbúðalánasjóður snertir okkur beint í ríkisfjármálalegu tilliti og þess vegna er staða hans til skoðunar í fjármálaráðuneytinu en rekstur hans heyrir að öðru leyti undir félagsmálaráðherra. Ég get fullvissað hv. þingmann um að málefni sjóðsins eru til skoðunar í báðum þessum ráðuneytum. Við deilum áhyggjum af rekstrartapi sjóðsins, sérstaklega í ljósi ríkisábyrgðarinnar, en mér fannst fyrri ríkisstjórn aldrei vilja horfast í augu við þennan vanda vegna þess að tap sjóðsins kom yfirleitt ekki fram fyrr en komið var að gerð ríkisreiknings. Það virtist aldrei vera gert ráð fyrir því, jafn augljóst og það átti að vera öllum, að gera þyrfti ráð fyrir framlögum til sjóðsins í fjárlögum auk þess sem afskriftir af framlögum til sjóðsins virtust alltaf koma fyrri ríkisstjórn á óvart, jafn augljósar og þær tölur voru þegar menn rýndu í skýrslurnar sem komið hafa fram á undanförnum árum.