143. löggjafarþing — 7. fundur,  10. okt. 2013.

lögfesting Norðurlandasamnings um almannatryggingar.

22. mál
[11:13]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna og líka orð hennar um að þetta mál verði afgreitt hratt. Ég tók líka mjög alvarlega hvatninguna sem ég fékk á fundi velferðarnefndar í gær um að reyna að koma málum inn sem fyrst og hvatningu virðulegs forseta sama efnis. Við erum núna að fara yfir hvaða mál við getum komið með sem allra fyrst og gerum okkur vel grein fyrir tímarammanum og takmörkunum hvað það varðar.

Þau vandamál sem hafa verið að koma upp hjá íslenskum námsmönnum hafa tengst breytingum sem gerðar voru á sænska almannatryggingakerfinu. Þessi samningur á einmitt að taka á hluta af þeim vandkvæðum sem komu upp við þær breytingar. Hins vegar er það þannig — og ég ætla að taka fram að það er náttúrlega ánægjulegt að standa hér sem samstarfsráðherra Norðurlanda samhliða því að vera félagsmálaráðherra og flytja þetta mál — að það er að sjálfsögðu alltaf viðvarandi verkefni okkar sem viljum standa að norrænu samstarfi að taka á þeim landamærahindrunum sem koma upp. Á undanförnum árum hafa Íslendingar ekki bara verið að fara til náms á Norðurlöndum heldur hafa þeir líka í auknum mæli verið að vinna í einu landi og verið búsettir hér, verið að vinna í Noregi og „pendlað“ svona á milli.

Þess vegna er mjög mikilvægt að við hugum að því að reyna að samræma eins og hægt er og taka á þeim vandamálum sem geta reynst gífurlega stór og mikil fyrir einstaklinga sem verða fyrir þeim hindrunum sem geta komið upp á milli landa.