143. löggjafarþing — 7. fundur,  10. okt. 2013.

lögfesting Norðurlandasamnings um almannatryggingar.

22. mál
[11:16]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, það er rétt að hér er verið að lögfesta samning sem er búið að undirrita og það er búið að álykta um þá undirritun frá hendi Alþingis.

Ísland mun taka við formennsku í norrænu ráðherranefndinni á næsta ári og samhliða því er verið að gera ákveðnar breytingar á því fyrirkomulagi hvernig tekist hefur verið á við landamærahindranir í norðurlandasamstarfinu. Það verður stofnað sérstakt landamærahindrunarráð sem mun fylgja formennskunni í norrænu ráðherranefndinni. Við munum því núna í fyrsta skipti skipa formann þessa nýja ráðs og það verður tækifæri til að reyna einmitt að fylgja eftir annars ágætri vinnu sem hefur verið í gangi undanfarin ár á vettvangi Norðurlandasamstarfsins, að kortleggja þær landamærahindranir sem eru til staðar. En það er ekki nóg að kortleggja þær, það þarf líka að takast á við þær og gera þær nauðsynlegu lagabreytingar sem við teljum rétt að gera til að reyna að samræma og styðja við norrænan vinnumarkað.