143. löggjafarþing — 7. fundur,  10. okt. 2013.

bráðaaðgerðir til að efla leigumarkað á Íslandi.

5. mál
[11:18]
Horfa

Flm. (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um bráðaaðgerðir til að efla leigumarkað á Íslandi, sem með mér flytja aðrir þingmenn Samfylkingarinnar.

Þessi tillaga er efnislega samhljóða tillögu sem flutt var hér á hauststubbnum í septembermánuði og var þá send út til umsagnar á vegum velferðarnefndar. Hún er nú endurflutt óbreytt en í greinargerð höfum við tekið tillit til nokkurra athugasemda og ég ætla í framsöguræðu minni að beina sjónum einkanlega að þeim þáttum.

Í tillögunni er gert ráð fyrir sex aðgerðum þar sem Alþingi feli ríkisstjórninni að grípa til aðgerða til að auka eins hratt og kostur er framboð leiguhúsnæðis til að bregðast við því alvarlega ástandi sem upp er komið á húsnæðismarkaði.

Í fyrsta lagi verði fjármála- og efnahagsráðherra og velferðarráðherra falið að leggja fyrir Alþingi strax nú á haustþingi frumvarp til laga um nýjar húsnæðisbætur sem taki mið af fjölskyldustærð og tekjum og tryggi sambærilegan stuðning við leigjendur og eigendur.

Það er ljóst af umsögnum umsagnaraðila að þetta mál er gríðarlega mikilvægt og þolir ekki bið. Það er nauðsynleg forsenda frekari uppbyggingar leigumarkaðar að almennar húsnæðisbætur verði til og aðstöðumunurinn milli leigjenda og eigenda verði jafnaður. Það kemur fram í umsögnum fjöldamargra umsagnaraðila að þetta atriði er algjört lykilatriði til að hægt sé að stíga ný skref á leigumarkaði. Það er athyglisvert að það er sama hvort það eru aðilar vinnumarkaðarins sem fjalla um málið eða lífeyrissjóðirnir eða sveitarfélögin, alltaf horfa menn til þess að þetta hljóti að vera lykilatriði. Ég held að við komumst ekkert undan því að stíga þetta skref til fulls ef okkur er einhver alvara með að breyta aðstæðum á leigumarkaði og auka framboð á leiguhúsnæði til langframa.

Í annan stað er í tillögunni gert ráð fyrir að ríkið gangist fyrir samkomulagi við sveitarfélögin og aðila vinnumarkaðarins um veitingu stofnstyrkja til leigufélaga sem skuldbindi sig til langtímareksturs á leiguhúsnæði. Þessir stofnstyrkir gætu numið allt að 20% af byggingarkostnaði nýrra leiguíbúða. Ríki og sveitarfélög geti veitt fyrirgreiðslu í formi lóða á kostnaðarverði eða annarrar eftirgjafar opinberra gjalda, sem hluta af stofnstyrk. Styrkveiting yrði háð því að leigufélag lyti ýmiss konar skilmálum, svo sem um langtímaútleigu, takmarkanir á arðgreiðslum, bann við sölu einstakra íbúða sem styrkveiting taki til og að fyrst um sinn fari tiltekið hlutfall íbúða til fólks með tekjur undir tilteknum tekju- og eignamörkum.

Um þennan þátt tillögunnar er að segja að umsagnaraðilar voru jákvæðir gagnvart þessum þætti en höfðu uppi ýmsar athugasemdir. Það er sérstaklega vert að geta þess að af hálfu lífeyrissjóðanna voru nokkrar efasemdir vegna þess að þarna er vikið að takmörkunum á arðgreiðslum. Ég tel að í umsögninni gæti ákveðins misskilnings af hálfu Landssamtaka lífeyrissjóða því að í takmörkunum á arðgreiðslum felst ekki bann við arðgreiðslum heldur að þær lúti ákveðnum hámörkum — ekki sé hægt að tæma félögin, ekki sé hægt að borga óeðlilegan arð út. En það er alveg ljóst að ef lífeyrissjóðir eiga að geta rekið leigufélög til langframa verða þeir að geta greitt sér eðlilegan arð út úr félögunum og þar af leiðandi verða þeir að geta rekið leigufélag í arðsemisskyni.

Ég held hins vegar að eðli lífeyrissjóðanna og samfélagslegt hlutverk þeirra valdi því að það eigi að vera auðvelt að ná samkomulagi um einhvers konar umgjörð um slíkar arðgreiðslur í leigufélögum sem lífeyrissjóðir mundu reka. Ég held þess vegna að hægt sé að ná þarna saman um umgjörð. Hitt er líka alveg ljóst af umsögn Landssamtaka lífeyrissjóða að þeir telja mjög mikilvægt að af hinu almenna kerfi nýrra húsnæðisbóta verði til þess að það verði raunverulegur möguleiki fyrir lífeyrissjóðina að fara inn á þennan markað og bjóða upp á leiguhúsnæði til langtíma.

Í þriðja lagi er gert ráð fyrir því í tillögunni að fjármála- og efnahagsráðherra bjóði ónýttar lóðir ríkisins fram til byggingar leiguíbúða til leigufélaga.

Við sjáum núna frumkvæði af hálfu Reykjavíkurborgar í þessa veru þar sem horft er mjög til skipulagsmála og spurt hvar séu ónýttar, lítt nýttar lóðir sem hægt væri að nýta til uppbyggingar leiguhúsnæðis. Það er í sjálfu sér hægt að fá ákveðna fyrirmynd þar. Meðal þeirra lóða sem bent hefur verið á af hálfu borgaryfirvalda að gæti verið hægt að nýta betur er lóð Ríkisútvarpsins sem ríkið á, en er allt of, allt of stór miðað við þá starfsemi sem þar er og mjög auðvelt að finna möguleika þar fyrir frekari uppbyggingu leiguhúsnæðis. Það er því með þessum hætti sem við erum að horfa til þess að fjármála- og efnahagsráðherra skoði einfaldlega eignasafn ríkisins og endurmeti fullkomlega frá grunni hvar eru lóðir sem við getum mögulega séð af. Getum við minnkað einhverjar lóðir sem ríkið á og afhent borginni aftur til endurúthlutunar eða öðrum sveitarfélögum til þess að greiða fyrir uppbyggingu á leiguhúsnæði?

Í fjórða lagi er gert ráð fyrir að félags- og húsnæðismálaráðherra setji Íbúðalánasjóði skilyrði um að sjóðnum verði gert að koma íbúðum í útleigu, eða selja þær til leigufélaga, svo fljótt sem verða má eftir að sjóðurinn eignast þær.

Nú mun það vera svo og hefur komið í ljós í umfjöllunum um tillöguna að á sjötta hundrað íbúða, ef ég man rétt, hafi þegar verið felldar inn í nýtt leigufélag Íbúðalánasjóðs. Engu að síður er það þannig að víða um land heyrir maður athugasemdir í þessa veru og áhyggjur af því að of mikið sé um húsnæði í eigu Íbúðalánasjóðs sem gangi mjög hægt og illa að fá til útleigu. Þetta skiptir máli sérstaklega víða um land þar sem eina húsnæðið sem er mögulega til útleigu er í eigu Íbúðalánasjóðs í dag. Ég tel þess vegna að full ástæða sé til að hafa vakandi auga með þeim þætti.

Í fimmta lagi er gert ráð fyrir að umhverfis- og auðlindaráðherra verði falið að gangast fyrir endurmati á byggingarreglugerð til að greiða fyrir byggingu minni íbúða til útleigu.

Komið hefur fram í umræðu um tillöguna á haustþingi að umhverfis- og auðlindaráðherra hefur þegar hafist handa við þetta verkefni og það er fagnaðarefni. Það þarf auðvitað að horfa á hina nýju byggingarreglugerð gagnrýnum augum, skoða hvort þar sé of langt gengið í því að gera kröfur um rými. Það er ýmislegt sem bendir til þess að eftir síðustu breytingar á byggingarreglugerð sé orðið illmögulegt að byggja litlar íbúðir sem er mikilvægt að sé val um að byggja. Ég fagna því að umhverfis- og auðlindaráðherra skuli þegar hafa hafist handa um þetta verkefni.

Í sjötta lagi gerum við ráð fyrir að fjármála- og efnahagsráðherra leggi fyrir Alþingi lagafrumvarp sem undanþiggi tekjur vegna útleigu einnar íbúðar fjármagnstekjuskatti. Einnig verði tryggt að slíkar tekjur skerði ekki bætur almannatrygginga. Skilyrði verði að leigan sé til almennrar húsaleigu til a.m.k. tólf mánaða.

Nokkir umsagnaraðilar gerðu þessa hugmynd að umtalsefni og vildu jafnvel að skilyrt yrði að leigan yrði til lengri tíma en tólf mánaða. Það er að mínu viti þess vegna mjög mikilvægt að hafa í huga hvaða markmiði við erum að reyna að ná með þessari breytingu. Við viljum gera það auðveldara fyrir fólk sem á eina íbúð að leigja hana út frá sér til almennrar íbúðar, ekki til ferðamanna. Við vitum auðvitað að það er mikil hagnaðarvon sem felst í því að leigja til ferðamanna á besta stað á höfuðborgarsvæðinu. Við vitum líka að framboð á íbúðum til almennrar útleigu hefur minnkað mikið. Þetta er til dæmis orðið mikið vandamál meðal stúdenta sem eru núna oft að leigja til átta til níu mánaða og eru svo á götunni á sumrin þegar íbúðirnar eru ekki lengur til reiðu til almennrar útleigu.

Við erum ekki að gera ráð fyrir því með þessari breytingu eða þessari hugmynd að það verði einstaklingar sem bjóði upp á íbúðir sem verði leigðar til margra ára í senn. Auðvitað munu sérhæfð leigufélög þurfa að koma inn á markaðinn og bjóða langtímaleigu. En við viljum gera það arðsamara fyrir fólk sem á eina íbúð að leigja hana út frá sér til almennrar búsetu, að það velji þann kost frekar en að leigja til ferðamanna. Og það er sérstaklega tekið þarna til að tekjur af útleigu einnar íbúðar ættu ekki að skerða bætur almannatrygginga. Það er hugsað gagnvart eldri borgurum sem búa kannski þannig að þeir geta búið til eða eiga í húsnæðinu litla íbúð sem þeir gætu leigt út frá sér.

Þetta er fyrst og fremst hugsað til þess að vinna gegn þeirri þróun sem hefur verið á undanförnum árum í að íbúðum til almennrar útleigu er að fækka og fleiri og fleiri eru að fara inn á þennan markað fyrir ferðamenn. Ég hef ekkert á móti því að við gerum vel við ferðamenn en við verðum líka að tryggja ákveðið magn íbúða og það skiptir máli að gera það strax og sem fyrst meira aðlaðandi að leigja til almennrar búsetu. Þessi tillaga hér er hugsuð til að minnka aðeins bilið sem er á milli arðsins af því að leigja til ferðamanna í dag og því sem felst í því að leigja til almennrar búsetu þannig að fólk beri aðeins meira úr býtum ef það kýs að leigja íbúðina sína til almennrar búsetu.

Virðulegi forseti. Ég vil í ljósi aðstæðna allra leggja til að málinu verði vísað til hv. velferðarnefndar og ég vil líka í ljósi þeirrar samstöðu sem hefur verið um meginmarkmið þessarar tillögu óska eftir því að við náum saman þvert á flokka um afgreiðslu hennar í einu formi eða öðru á næstu vikum. Í umræðum um tillöguna í september var henni almennt tekið með jákvæðum hætti og það var líka ljóst að af hálfu þingmanna stjórnarmeirihlutans var henni vel tekið og hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra tók vel í tillöguna.

Ég vil þess vegna leggja til að við ásetjum okkur að reyna að nýta þá stöðu sem uppi er, við höfum fengið góðar umsagnir umsagnaraðila, þær liggja fyrir þannig að ekki þarf að senda tillöguna svo breytta til umsagna. Það ætti að vera hægt að vinna í henni frekar hratt í velferðarnefnd og nýta lagið núna því að við erum stödd í upphafi þings og ekki mörg mál sem liggja fyrir í nefndinni þannig að tillaga mín væri sú að við mundum reyna að ná saman um niðurstöðuna. Við þingmenn Samfylkingarinnar erum fullkomlega tilbúnir til að ræða síðan við stjórnarmeirihlutann um breytingar á málinu ef menn vilja gera einhverjar breytingar til að ná betri samstöðu um það, en ég held að það væri góður bragur á því, líka í ljósi ítrekaðra yfirlýsinga meiri hlutans um breytt vinnubrögð og að menn vilji vinna saman þvert á flokka, að reyna að vinna þetta þjóðþrifamál áfram í góðri samstöðu nú í upphafi þings.