143. löggjafarþing — 7. fundur,  10. okt. 2013.

bráðaaðgerðir til að efla leigumarkað á Íslandi.

5. mál
[11:45]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka félagsmálaráðherra fyrir þetta svar þó svo að ég verði líka að játa að mér brá mjög að heyra að fasteigna- eða leigufélagið sem hefur þetta ágæta nafn Klettur — og á sennilega að vera eins og klettur í hafinu á leiguíbúðamarkaði, vel til fundið nafn — er ekki enn þá farið að starfa. Það vantar enn þá efnahagsreikning og reglugerð enn þá á lokametrunum eins og hæstv. ráðherra segir.

Nú beinist þessi gagnrýni ekki eingöngu að núverandi hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra heldur að kerfinu í heild, hinu opinbera kerfi. Mikið óskaplega finnst mér þetta ganga hægt. Ég er sæmilega óþolinmóður en ekki mjög, en miðað við þá þörf sem er og vöntun er með ólíkindum hvað þetta tekur langan tíma. Eins og ég sagði áðan ætla ég að ræða á eftir dæmi sem ég hef um eignir Íbúðalánasjóðs sem mér finnst mjög undarlegt hvernig farið er með. Og dæmið frá Akranesi sem ég sagði frá áðan, að eignirnar skuli loksins núna að vera að koma í sölu.

Það kann vel að vera að Íbúðalánasjóður hafi einhverjar málsbætur hvað þetta varðar aðrar en þær að kerfið sé þungt í vöfum. En aðalatriðið er að það eru liðin fimm ár frá hruni. Það hafa margir misst húsnæði sitt og margir eru á götunni og miklir erfiðleikar hjá mörgum. Þetta gengur ekki að hið opinbera kerfi sé jafn hægvirkt eins og hér er talað um. Hér verður að spýta í lófana og gefa í og ég treysti hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra vel til þess að ýta vel á eftir hvað þetta varðar, sama hvort það er að klára að koma Kletti á laggirnar og koma þessu öllu í gang eða gefa hraðar í með að selja þann fjölda íbúða sem Íbúðalánasjóður hefur eignast.