143. löggjafarþing — 7. fundur,  10. okt. 2013.

bráðaaðgerðir til að efla leigumarkað á Íslandi.

5. mál
[11:47]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel að starfsmenn Íbúðalánasjóðs hafi verið að reyna að gera sitt besta við mjög erfiðar aðstæður. Sjóðurinn hefur þurft að fullnusta mjög margar eignir. Um 1.100 íbúðir eru í leigu hjá sjóðnum eins og er og af þeim er áætlað að 500–600 íbúðir fari inn í Klett.

Sem dæmi um þetta stóra verkefni sem sjóðurinn hefur verið að fást við, t.d. ef við nefnum Akranes þá skilst mér að tæpur helmingurinn af þeim íbúðum hafi raunar verið óíbúðarhæfur þegar sjóðurinn tók þær yfir. Það mundi fela í sér mikinn kostnað fyrir sjóðinn að fara í lagfæringar á öllu þessu húsnæði. Það hefur verið tekin ákvörðun um að lagfæra eins margar íbúðir og sjóðurinn treystir sér til, en þetta hefur hins vegar verið mjög stórt verkefni.

Skilaboðin frá ráðuneytinu og skilaboðin héðan frá Alþingi hafa hins vegar verið mjög skýr. Við teljum að það eigi að koma þessum íbúðum í leigu ef það er hægt. Ef sjóðurinn telur að ekki sé hægt að leigja þær, þá eigi að selja íbúðirnar. Þetta er lykilatriði því eins og ég benti á áðan í fyrra svari mínu er hér um að ræða gífurlegan kostnað fyrir sjóðinn, fyrir íslenska skattgreiðendur, ef verið er að fullnusta eignir og þær liggja síðan hjá sjóðnum án þess að skila honum tekjum.

Ég vonast til að þetta verði áfram sameiginlegt verkefni okkar. Ég hef reynt að ýta eftir því sem mest ég get að við ljúkum við þá vinnu að stofna Klett og síðan líka í framhaldinu að klára reglugerðina.