143. löggjafarþing — 7. fundur,  10. okt. 2013.

bráðaaðgerðir til að efla leigumarkað á Íslandi.

5. mál
[11:57]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka kærlega fyrir þessa ábendingu. Það er einmitt það sem ég tel að sé svo mikilvægt þegar kemur að húsnæðismálunum að við séum að gæta að þeirri fjölbreytni sem er í íslensku samfélagi. Við þurfum að vinna innan þeirra verðmæta sem við sköpum í samfélagi okkar þannig að allir geti haft raunverulegt val, allir geti búið við raunverulegt öryggi.

Eitt af því sem hefði verið mjög áhugavert að ræða hér og við gerum það kannski við annað tækifæri er staða heimilislausra og sú staða að allt að því helmingur af þeim sem leita eftir aðstoð vegna húsnæðis eru innflytjendur. Þetta er svo fjölbreytt, þetta er svo margþætt og það er náttúrlega það sem er í raun verkefni okkar á Alþingi og hjá ríkisstjórninni — hvernig getum við hugað að samfélaginu sem heild þannig að við höfum það flestöll sem allra best?