143. löggjafarþing — 7. fundur,  10. okt. 2013.

bráðaaðgerðir til að efla leigumarkað á Íslandi.

5. mál
[11:58]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf):

Hæstv. forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um bráðaaðgerðir til að efla leigumarkað á Íslandi sem er tillaga og fyrsta mál alls þingflokks Samfylkingarinnar. Það segir okkur hvert áhersluatriði okkar er hvað það varðar að við skulum leggja þetta fram sem fyrsta og brýnasta mál okkar. Með leyfi forseta hljóðar tillagan svo:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að grípa til aðgerða til að auka eins hratt og kostur er framboð leiguhúsnæðis til að bregðast við því alvarlega ástandi sem komið er upp á húsnæðismarkaði.“

Greinin segir í raun og veru allt sem segja þarf. Það er neyðarástand á markaðnum og það er mikil ofþensla, getum við sagt, hvað það varðar að leiguverð er mjög hátt. Ég hygg að margir nýkjörnir alþingismenn sem hafa þurft að leita sér að húsnæði á höfuðborgarsvæðinu hafi heldur betur fundið fyrir því, ég þekki dæmi þess. Að leigja 220 fermetra íbúð á kannski 220–230 þús. kr., það segir sig sjálft að það getur ungt fólk ekki gert í dag og þarf ekki ungt fólk til. Það þarf ansi miklar atvinnutekjur til að eiga 230–240 þús. kr. eftir til að setja í leigu og það er mikilvægt atriði. Það er þetta neyðarástand, lítið framboð af leiguhúsnæði, sem þrýstir þessu upp.

Þar þekki ég líka dæmi sem ég hef kynnt mér þar sem þriggja herbergja íbúð var endurleigð sem leigð var uppi í háhverfum Kópavogs, langt úti á landi að mér finnst stundum. Þriggja herbergja íbúð á 200 þús. kr. og 100–120 manns sem allir gætu uppfyllt skilyrði til að leigja íbúðina sækja um. Þess vegna verðum við að viðurkenna, alveg sama hver á í hlut, hvaða flokkar, að við höfum ekki sinnt þeim þætti á Íslandi. Við erum alltaf með séreignarstefnu, allir eiga að eiga húsnæði og síðan höfum við gert ýmislegt til að þvælast fyrir, hið opinbera, og nefni ég þar byggingarreglugerðina, ég tala nú ekki um þá nýju sem sett var sem er mjög íþyngjandi fyrir það sem er mikilvægast á leigumarkaði: Að byggja litlar og meðalstórar íbúðir.

Ef par sem er að hefja sinn búskap og er kannski að fara í háskóla vill leigja sér 40–50 fermetra íbúð og lætur sér það duga þarf hún að vera til á markaðnum og þá er leigan lægri. Það þekkjum við frá fólki sem hefur framkvæmt þetta svona, t.d. við nám í Skandinavíu þar sem það er vel þekkt og byggingarreglugerðir eru settar þannig upp að hægt er að gera það á hagkvæman hátt, minni íbúðir, lægri kostnaður og þar af leiðandi lægra leiguverð. Þannig verðum við að gera þetta. Í stuttu andsvari mínu áðan við hæstv. ráðherra um leigufélagið Klett, með því fallega nafni sem á vafalaust að vera kletturinn á leiguíbúðamarkaðinum, vel til fundið orð og vonandi verður félagið klettur, lýsti ég óþreyju minni með að þetta skuli ekki vera komið á fulla ferð. Ég tek skýrt fram, og tek undir með hæstv. ráðherra, að ég trúi ekki öðru og er sammála því að starfsmenn Íbúðalánasjóðs hafi vafalaust gert sitt besta, en þeir hafa örugglega fengið íbúðir í eigu sjóðsins í ýmiss konar ásigkomulagi eins og íbúðir á Akranesi sem hæstv. ráðherra tók dæmi um.

Þegar ég nefni Íbúðalánasjóð hef ég líka tekið dæmi sem ég þekki þar sem byggingarverktakar hafa kvartað yfir því að illa gangi að semja við Íbúðalánasjóð um að kaupa íbúðir sem sjóðurinn á til að koma þeim í útleigu eða sölu. Best væri náttúrlega að selja þessar blokkir þannig að þær væru skilyrtar til leigu en það hefur ekki gengið saman. Það er vafalaust þannig að Íbúðalánasjóður vill fá ákveðið verð eða telur sig þurfa að fá ákveðið verð. Verktakinn vill greiða eitthvað minna og þar strandar og það er sárgrætilegt að horfa á það þegar þetta nær ekki saman. Maður getur horft á heila blokk eða heilu blokkirnar með tómum íbúðum sem útlistað hefur verið fyrir mér að Íbúðalánasjóður eigi og hefur verið að gera við ytra byrði hússins sem stóð undir skemmdum en verktakinn og Íbúðalánasjóður náðu ekki saman vegna þess að Íbúðalánasjóður hefur ekki viljað afskrifa eins mikið. Hvað gerist þá, virðulegi forseti? Það koma gröfur og tæki og taka grunn við hliðina og þar er byrjað að byggja jafnvel sams konar blokk. Er það þjóðhagslega hagkvæmt? Nei, segi ég. Alveg hiklaust ekki.

En aftur að þingsályktunartillögunni. Hún er sett fram í 6 liðum þar sem meðal annars er komið inn á nýja byggingarreglugerð og það ítrekað sem ég sagði áðan. Ég hlusta ekki á neitt um að ekki megi breyta byggingarreglugerð. Það verður ekki gert þannig að aðgengi fatlaðra verði eitthvað skert hvað það varðar en við þurfum að haga okkar byggingarreglugerð eftir því sem þarf og það þarf að greiða fyrir byggingu minni íbúða eins og lagt er til í tillögunni. Það erum við ekki að gera og ég var mjög gagnrýninn á þá byggingarreglugerð sem síðasti hæstv. umhverfisráðherra setti rétt fyrir kosningar, tók m.a. sem dæmi einangrun sem átti að setja þar í byrjun, og að því er mér skilst er Mannvirkjastofnun ótt og títt að breyta ýmsu í reglugerðinni og skilja hana jafnvel ekki sjálfir og þetta gengur ekki alveg nógu vel fyrir sig.

Ég ætla að koma að einu í viðbót sem snýr að verðmyndun leiguíbúða og það er lóðaverð sveitarfélaga. Virðulegi forseti. Ég er ekki alveg viss um og held að ég geti bara sagt að ég sé ekki sammála þeirri stefnu sem sum sveitarfélög hafa, að setja inn í lóðaverð byggingu leikskóla, grunnskóla og alls þess sem þarf í viðkomandi hverfi, að það fari ofan á lóðaverðið. Ég er alls ekki sammála því. Ég held að lóðaverðið eigi bara að standa undir því að brjóta landið til byggingar og leggja götu og koma á rafmagni og vatni og búið. Hitt eru samfélagsleg verkefni viðkomandi sveitarfélags. Göturnar sem ég bý við voru örugglega ekki verðlagðar þannig að þær hafi tekið þátt í byggingu skólahúsnæðis á viðkomandi svæðum. Það er einhver ný stefna hjá sveitarfélögunum, vafalaust í fjárhagserfiðleikum sínum, sem lyftir upp lóðaverði og gerir það að verkum að það er orðið eins hátt og raun ber vitni og er í raun og veru orðið allt of hátt miðað við byggingarkostnað. Þarna verða sveitarfélögin að koma til og lækka lóðaverð, lækka það mikið vegna þess að það á að vera eftirsóknarvert fyrir sveitarfélagið að úthluta ódýrum lóðum undir leiguíbúðir og fá þannig íbúa inn í sitt sveitarfélag. Um það er fjallað hérna þótt það sé ekki gert á alveg sama hátt og ég geri en þetta er mikilvægt atriði.

Síðan er talað um nýjar húsnæðisbætur sem taki mið af fjölskyldustærð og tekjum og tryggi sambærilegan stuðning við leigjendur og eigendur í 1. lið, það er mikilvægt atriði. Hér er fjallað um mjög mikilvægt atriði sem gerir það að verkum að eigandi íbúðar geti undanþegið tekjur vegna úthlutunar einnar íbúðar fjármagnstekjuskatti og það er spurning hvort ekki eigi að ganga lengra. Svo er einn þáttur sem fjallað er um í þessum lið sem er mjög mikilvægt að ræða og er um skort á leiguíbúðum sem þar af leiðandi hækkar verð á þeim fáu sem til eru. Það er það sem talað er um í 6. tölulið, þ.e. að stór hluti leiguíbúða á höfuðborgarsvæðinu er nú leigður ferðamönnum og kemur því ekki inn á leigumarkaðinn til langtímaleigu. Það þekkjum við sem höfum unnið til dæmis í atvinnuveganefnd á síðasta kjörtímabili þar sem ferðaþjónustuaðilar hafa komið og sýnt okkur, kastað upp á vegg mynd af einhverri heimasíðu þar sem kom fram að 545 íbúðir eða herbergi eru til leigu á höfuðborgarsvæðinu sem eru óskráð eða ósamþykkt og hafa ekki leyfi. Það er verkefni stjórnvalda að koma í veg fyrir þetta sem mundi þá auka íbúðamagn á leigumarkaði og þetta þarf allra helst að gera vegna þess að það er vonlaust að hafa þetta inni sem tifandi tímasprengju, að ferðamenn geti gist í ósamþykktu húsnæði. Hvað ætla menn að gera ef það verða slys á Íslandi, bruni eða eitthvað þess háttar og við missum ferðamenn í ósamþykktu húsnæði? Það getur eyðilagt markaðsátak sem við höfum staðið í undanfarin ár sem gefur okkur svo marga ferðamenn sem raun ber vitni og þjóðin þarf fleiri ferðamenn á komandi árum og meiri gjaldeyri. Það getur gert okkur erfitt hvað það varðar, virðulegi forseti.