143. löggjafarþing — 7. fundur,  10. okt. 2013.

bráðaaðgerðir til að efla leigumarkað á Íslandi.

5. mál
[12:10]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Margréti Gauju Magnúsdóttur fyrir innlegg hennar inn í þessa góðu umræðu í stuttu andsvari við mig. Í raun og veru skiptir það mig engu máli hvort þessi stefna hófst fyrir hrun eða eftir hrun. Það er alveg rétt að sveitarfélög í landinu eiga töluvert mikið af óbyggðum lóðum og nýbyggðum götum með ljósastaurum og rafmagni og öllu. Þar er góður lager af slíku og er sorglegt til þess að vita. Það er svona álíka og það sem var á ýmsum öðrum stöðum í hinu svokallaða góðæri, vitleysisgangurinn sem var í ofkeyrslu í þjóðfélaginu. Allir ætluðu að fá svo marga til sín en enginn hugði að því hvað þyrfti margar lóðir heldur var bara göslast áfram. Það sjáum við hér vítt og breitt á höfuðborgarsvæðinu og við sjáum það líka úti á landi, eins og t.d. á Austurlandi. Við sáum að í kringum álversuppbygginguna var byggt miklu meira en þörf var á og því hleypt af stað. Þetta eru enn ein hagstjórnarmistökin hjá okkur þar sem allt á að vera svo frjálst að það virðist ekki skipta neinu máli hver þörfin er. Ef þörfin er 100 íbúðir vegna atvinnuuppbyggingar þá skiptir það engu máli þó að 300–400 byggingar séu byggðar.

Ég ítreka það sem ég sagði áðan, virðulegi forseti; eitt af því sem þarf að kanna til að gera leiguíbúðamarkaðinn öflugri er hvort sveitarfélögin geti boðið fram miklu ódýrari lóðir og að það sé valkostur. Það var í fréttum ekki fyrir löngu, bara fyrir nokkrum dögum síðan, að efast var um að sveitarfélög ættu að leggja í þann kostnað sem ég gerði að umtalsefni við það að byggja upp ný hverfi og taka þá tillit til allrar þeirrar þjónustu sem þar er. Það eru ekki bara íbúarnir í því hverfi sem eiga að njóta hennar. Þeir njóta hennar að vísu sannarlega en það er annað opinbert húsnæði í sveitarfélaginu sem ekki hefur verið byggt á þann hátt sem ég gerði hér að umtalsefni. Því finnst mér jafnræðisregla stjórnarskrárinnar í raun og veru vera brotin hvað það varðar.