143. löggjafarþing — 7. fundur,  10. okt. 2013.

samstarf við Færeyjar og Grænland um aukið framboð á kennslu.

38. mál
[13:31]
Horfa

Frsm. ÍVN (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir fyrstu þingsályktunartillögunni frá Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins á þessu þingi, fyrstu tillögunni af sex sem verður mælt fyrir í dag en hún fjallar um aukið framboð á kennslu til að taka á lestrar- og skriftarvanda. Það er rétt að taka það fram í upphafi að öll Íslandsdeildin stendur að þessum tillögum sem ein heild og það er mikið og gott samstarf í Íslandsdeildinni og mikill einhugur um að fylgja tillögunum eftir, en þær eru lagðar fram á grundvelli ályktana Vestnorræna ráðsins, í samstarfi við ríkisstjórnir landanna þriggja.

Herra forseti. Það er ekki hægt að ræða þessar tillögur án þess að ræða aðeins fyrst um vestnorrænt samstarf, hvers eðlis það er og hver forsagan er. Við sem búum á Vestur-Norðurlöndum búum við nýjan raunveruleika. Nýjar siglingaleiðir eru að opnast og miklir möguleikar blasa við okkur í nýtingu landsins gagna og nauðsynja sem og sjávar. Þar eru stórar spurningar sem þarf að svara á næstu árum og missirum sem geta bæði skapað okkur mörg og mikil tækifæri og geta leitt til mikilla breytinga fyrir allar þjóðirnar þrjár.

Við, í þeim löndum sem áður var kannski litið á sem jaðarbyggðir í Evrópu, erum búsett á því svæði sem allra augu beinast nú að. Við þekkjum hina miklu umræðu sem orðið hefur á undanförnum árum og missirum um norðurskautsmál og sem dæmi má nefna þær ráðstefnur sem nú standa yfir á Íslandi og þá ráðstefnu sem hefst í Hörpu á morgun þar sem um 900 manns munu taka þátt.

Vestnorrænt samstarf á sér talsverða sögu. Lögþing Færeyja, landsþing Grænlands og Alþingi stofnuðu Vestnorræna þingmannaráðið í Nuuk á Grænlandi árið 1985 sem samstarfsvettvang þinganna þriggja og með því var formfest samstarf þeirra landa sem ganga undir nafninu Vestur-Norðurlönd. Stofnunin var fyrst og fremst byggð á sameiginlegum bakgrunni landanna með hliðsjón af nánum sögulegum og menningarlegum arfi og tengslum sem og sameiginlegum hagsmunum, aðallega í umhverfis-, samgöngu- og efnahagsmálum.

Árið 1997 var nafninu breytt í Vestnorræna ráðið og þá var samþykktur nýr stofnsamningur, samþykktar nýjar vinnureglur og ákveðið að setja á fót skrifstofu ráðsins, ráða framkvæmdastjóra og markmið samstarfsins voru skerpt. Helstu markmið Vestnorræna ráðsins eru þau að Vestur-Norðurlönd vinni saman að vestnorrænum hagsmunum, að standa vörð um auðlindir og menningu landanna í Norður-Atlantshafi og efla samráð ríkis- og landsstjórna Vestur-Norðurlanda, einkum í viðkvæmum og alvarlegum málum sem snerta til dæmis mengun, auðlindanýtingu og fleira.

Þá er það einnig markmið okkar að fylgja eftir samstarfi ríkis- og landsstjórna vestnorrænu landanna, að efla samstarf við Norðurlandaráð og koma á framfæri vestnorrænum áhersluatriðum í norrænu samstarfi. Við erum í nánum tengslum við Norðurlandaráð og við sem sitjum í forsætisnefnd Vestnorræna ráðsins höfum áheyrnarrétt á fundum Norðurlandaráðs. Þá er markmið Vestnorræna ráðsins að vera tengiliður milli þinga landanna, vestnorrænna stofnana og alþjóðlegra samtaka.

Íslandsdeildin er skipuð sex þingmönnum og sex til vara. Við höldum ársfund þar sem ýmis mál eru rædd og ályktanir bornar upp til atkvæða og síðan lagðar fyrir þjóðþing landanna sem þingsályktunartillögur. Þess vegna erum við hér í dag til að ræða þessar ályktanir sem bornar eru fram í formi þingsályktunartillagna.

Samstarf okkar við ríkisstjórnir byggist á því að árið 2002 undirrituðu norrænir samstarfsráðherrar frá þessum þremur löndum sérstaka samstarfsyfirlýsingu til að formfesta og innsigla samstarfið milli Vestnorræna ráðsins og ríkisstjórnanna í viðkomandi löndum. Í þeirri yfirlýsingu er kveðið á um gagnkvæma upplýsingagjöf og að árlega skuli Vestnorræna ráðið fá skýrslu um viðbrögð landanna við tilmælum þess. Skýrslan kemur síðan fram og til umræðu á ársfundi ráðsins. Samstarfsyfirlýsingin á að tryggja upplýsingastreymi, árlega fundi Vestnorræna ráðsins og samstarfsráðherra auk þátttöku hinna síðarnefndu í aðalfundi ráðsins og þátttöku hlutaðeigandi ráðherra í þemaráðstefnu ráðsins sem haldin er árlega.

Við sem störfum í Vestnorræna ráðinu leitumst við að ná markmiðum okkar með ályktunum og tilmælum til ríkisstjórna og landsstjórna. Jafnframt leggjum við áherslu á virka þátttöku í norrænu samstarfi við aðra aðila innan vestnorræns samstarfs, samvinnu við norðurskautsstofnanir, samtök og skipulagningu á ráðstefnum og fundum. Ráðið hefur unnið að ýmsum málaflokkum sem snerta hagsmuni allra landanna þriggja og má þar nefna umhverfismál, menningarmál, jafnréttismál, sjávarútvegsmál, samgöngur og viðskiptamál.

Íslendingar og Færeyingar hafa gert með sér fríverslunarsamning, svonefndan Hoyvíkursamning. Þar er tekið fram samkvæmt meginreglu að frjálst flæði á vörum, þjónustu, fjármagni og fólki á milli landanna er aðalatriðið. Það hefur meðal annars í för með sér að færeysk fyrirtæki geta með sama hætti og íslensk haslað sér völl á íslenskum markaði og öfugt.

Það hefur komið til umræðu, aðallega óformlega, að útvíkka þennan samning og fara í viðræður við Grænlendinga. Vestnorræna ráðið hefur hvatt ríkisstjórnirnar á Íslandi, Færeyjum og Grænlandi til að taka upp viðræður til þess að útvíkka Hoyvíkursamninginn og verður spennandi að sjá hvort það verði að veruleika.

Árið 2006 á aðalfundi Vestnorræna ráðsins voru ríkisstjórnir landanna þriggja hvattar til að opna ræðismannaskrifstofur eða skrifstofur viðskiptafulltrúa í löndum hvert annars. Árið 2007 opnuðu Íslendingar aðalræðisskrifstofu í Þórshöfn og sama ár var opnuð sendiskrifstofa Færeyja í Reykjavík. Ísland áformar jafnframt að opna aðalræðisskrifstofu í Grænlandi nú í nóvember og allar líkur eru á að Grænland opni aðalræðisskrifstofu hér á Íslandi.

Þá höfum við staðið að barnabókaverðlaunum Vestnorræna ráðsins og fjölmörgum öðrum verkefnum svo sem að halda vestnorrænan dag árlega til skiptis í löndunum þremur. Var dagurinn fyrst haldinn í Reykjavík haustið 2012 og í Grænlandi í ágúst síðastliðnum.

En þá að þeirri ályktun ráðsins sem hér er til umræðu, þ.e. þingsályktunartillögu um samstarf Færeyja, Grænlendinga og Íslands um aukið framboð til kennslu til að taka á lestrar- og skriftarvanda. Þessi ályktun var lögð fram og samþykkt á ársfundi Vestnorræna ráðsins í ágúst í Narsarsuaq á Suður-Grænlandi og efni hennar og tilgangur er að efla kennslu þeirra sem eiga við lestrar- og skriftarvanda að stríða.

Við skorum hér á ríkisstjórnina að eiga samstarf við stjórnvöld Færeyja og Grænlands um þetta verkefni og með það að markmiði að stjórnvöld standi að sameiginlegri rannsókn og tryggi samvinnu þeirra sem málið varðar til að stuðla að miðlun þekkingar og kennsluhátta sem hafa gefið góða raun.

Það er einmitt kjarninn í samstarfi okkar að læra hvert af öðru, reyna að nota það sem gott er hjá hverju þessara landa til að efla nágranna okkar. Síðastliðin tíu ár hafa einstaklingar í Færeyjum sem eiga við lestrar- og skriftarvanda að stríða fengið aðstoð og sérkennslu utan hins opinbera menntakerfis, annaðhvort frá foreldrum eða öðrum sem af sjálfsdáðum hafa beitt sér í þessum málefnum.

Hér á Íslandi þekkjum við með hvaða hætti þessi mál eru og við ræddum þau talsvert á síðasta kjörtímabili. Hér var lögð fram þingsályktunartillaga um tal- og málþroskaraskanir barna sem var samþykkt í þinginu. Það er nú í höndum menntamálaráðherra að fylgja eftir að ná betra samstarfi milli þeirra aðila sem sinna þessum málum á Íslandi vegna þess að kerfið er talsvert flókið. Það þarf að leita til margra aðila ef þú átt barn eða ert barn með tal- og málþroskaröskun og kerfið er ekki alveg skýrt varðandi hver á að gera hvað og hver á að greiða hvaða hluta.

Við hlökkum til að sjá hvernig ráðuneytið mun taka á þessum málum og munum þá vonandi geta notað þá vinnu til að miðla af þekkingu okkar til nágranna okkar í Færeyjum og Grænlandi til þess að það nýtist þeim jafnframt. Opinbera skólakerfið aðstoðar nemendur sem standa höllum fæti en margir nemendur lenda einhvern veginn á milli skips og bryggju. Það er sameiginlegt með öllum þessum þremur löndum. Við teljum mikilvægt að beita okkur þvert á landamæri vestnorrænu landanna til að bæta framboð á sérkennslu og þar með auðvelda nemendum með lestrar- og skriftarvanda að ljúka námi.

Herra forseti. Við teljum að þetta sé mjög mikilvægt mál og hlökkum til að vinna í nánu samstarfi við ríkisstjórnina að framgangi þess og sjáum vonandi ávöxt þeirrar vinnu fyrr en síðar.

Herra forseti. Ég vil að lokum þakka öðrum þingmönnum sem sitja í Íslandsdeildinni fyrir gott samstarf og óska eftir því að tillögunni verði vísað til umfjöllunar í utanríkismálanefnd.